Flökkudúfa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flökkudúfa
Uppstoppuð flökkudúfa í dýragarðinum í Cincinnati í Bandaríkjunum.
Uppstoppuð flökkudúfa í dýragarðinum í Cincinnati í Bandaríkjunum.
Ástand stofns

Útdauða  (1914) (IUCN)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Dúfnafuglar (Columbiformes)
Ætt: Dúfur (Columbidae)
Ættkvísl: Ectopistes
Tegund:
E. migratorius

Tvínefni
Ectopistes migratorius
Linnaeus, 1766
Útbreiðslukort sem sýnir fyrri útbreyðslu flökkudúfna í appelsínugulum lit og varpstöðvar í rauðum lit.
Útbreiðslukort sem sýnir fyrri útbreyðslu flökkudúfna í appelsínugulum lit og varpstöðvar í rauðum lit.
egg flökkudúfu

Flökkudúfa (fræðiheiti: Ectopistes migratorius) er útdauð tegund dúfna.

Heimkynni og lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Flökkudúfur áttu varpstöðvar sínar í skóglendi í miðausturhluta Norður-Ameríku en útbreiðsla þeirra náði víða um Bandaríkin, Kanada og jafnvel norðurhluta Mexíkó. Flökkudúfur lifðu saman í stórum flokkum, jafnvel milljörðum saman.[1] Talið er að hinir stóru flokkar flökkudúfnanna geri rándýr sem herja á flokkinn mett eftir að hafa veitt aðeins brot af flokknum sjálfum[2] á svipaðan hátt og fiskar hópast saman í torfur við afrán.

Flökkudúfur sóttu í skóga ameríska kastaníutrésins við fæðuöflun en því hefur farið hratt hnignandi vegna sveppasýkingar.[2]

Hnignun og útdauði[breyta | breyta frumkóða]

Áætlað er að flökkudúfur hafi verið um fjórðungur varpfugla í Norður-Ameríku fyrir landnám Evrópumanna[1] og var fjöldi þeirra áætlaður 3-5 milljarðar á þeim tíma.[2] Landnámsmennirnir stuðluðu að hnignun stofns flökkudúfna á nokkra vegu. Þeir hjuggu skóga á varpstöðvum dúfnanna sem takmarkaði varplendi og fæðu fyrir dúfurnar og stunduðu ofveiði á dúfunum. [1] Einnig báru þeir með sér smitsjúkdóma til álfunnar með hænsnum, til dæmis hina skæðu Newcastle-veiki.[1] Síðasta villta flökkudúfan var skotin 1900 og síðasta flökkudúfan í haldi dó í dýragarði í Cincinnati árið 1914.[1]

Möguleg endurlífgun tegundarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfarið af klónun kindarinnar Dollýjar og endurlífgun útdauðrar tegundar af spænskri fjallageit (Capra pyrenaica pyrenaica) hafa vísindamenn sýnt áhuga á því að endurlífga flökkudúfur með því að beita klónun.[2] Aðferðin byggist á því að kjarni úr flökkudúfufrumu er færður yfir í ófrjóvgaða eggfrumu af skyldri tegund sem kjarninn hefur verið fjarlægður úr.[2] Talið er að með endurreisn flökkudúfnastofns mætti uppskera af þeim kjöt og mögulega nota flökkudúfur til þess að bæla niður tíðni Lyme-sjúkdóms.[2]

Ýmis gagnrýni hefur komið fram á hugmyndina um að endurlífga tegundina. Vistfræðingurinn Stanley Temple heldur því fram að með því að endurlífga útdauða tegund gæti hvatinn til þess að vernda tegundir gegn útrýmingu orðið ekki eins veigamikill þáttur í náttúruvernd en aðrir, til dæmis vistfræðingurinn Stuart Pimm segja það vera ólíklegt.[2] Líffræðingurinn Paul Ralph Ehrlich hefur bent á að þar sem líflíkur flökkudúfna eru háðar því að þær séu í flokkum gæti þurft að klóna milljónir dúfna áður en þær verði færar um að lifa af í náttúrunni af sjálfsdáðum auk þess sem ameríska kastaníutréð, ein helsta uppspretta fæðu flökkudúfna, myndi ekki lengur skóga eins og það gerði á þeim tíma sem flökkudúfurnar lifðu.[2]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Jón Már Halldórsson. (2004). Hvers vegna dó flökkudúfan út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4565 þann 6. janúar 2017.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 Ogden, L. E. (2014). Extinction is forever... or is it? BioScience 64, bls. 469–475. doi: 10.1093/biosci/biu063