Fara í innihald

Flóðbylgjan í Indlandshafi 2004

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flóðbylgjan ríður yfir Ao Nang í Taílandi.

Flóðbylgjan í Indlandshafi 2004 var röð skjálftaflóðbylgja sem riðu yfir strendur flestra landa við Indlandshaf 26. desember 2004 með þeim afleiðingum að 228.000 manns létu lífið. Þetta eru taldar einar mannskæðustu náttúruhamfarir sögunnar. Flóðbylgjurnar stöfuðu af gríðaröflugum jarðskjálfta sem reið yfir neðansjávar undan vesturströnd Súmötru þar sem Indlandsflekinn skríður undir Búrmaflekann. Jarðskjálftinn mældist 9,1 til 9,3 að stærð á MMS-kvarða og olli titringi jarðar upp á 1 sm. Þetta var þriðji stærsti jarðskjálfti sem mældur hefur verið með skjálftamæli. Skjálftinn reið yfir klukkan 00:58:53 að samræmdum tíma. Flóðbylgjurnar sem fylgdu í kjölfarið náðu sums staðar 30 metra hæð þegar þær gengu á land. Verst úti varð Aceh-hérað í Indónesíu. Staðfest hefur verið að 131.028 hafi látist í Indónesíu. Yfir 30.000 fórust á Srí Lanka og þúsundir fórust á Indlandi og í Taílandi. Í Sómalíu, 4.500 km frá skjálftamiðjunni, fórust 176 svo vitað sé og um 50.000 manns misstu heimili sín. 14 milljarða dala neyðaraðstoð safnaðist handa þeim löndum sem verst urðu úti.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.