Evangelista Torricelli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Evangelista Torricelli

Evangelista Torricelli (16081647) var ítalskur eðlisfræðingur og stærðfræðingur sem þekktastur er fyrir að finna upp loftvog. Hann gekk í jesúítaskóla og lærði þar stærðfræði og heimspeki þar til faðir hans lést árið 1626 en fór þá til Rómar til náms hjá jesúítamunkinum Benedetto Castelli sem þá var prófessor í stærðfræði við stofnun sem seinna varð Sapienza háskólinn í Róm.

Árið 1632 skrifaði Torricelli til Galíleó Galílei en Vatíkanið bannfærði Galíleó í júní 1933 og er þetta bréf eina tilvikið þar sem Torricelli opinberaði að hann sjálfur aðhylltist kenningar Galileos.

Lítið er vitað um störf Torricellis á árunum 1632 til 1641 þegar Castelli sendi bréf frá Torricelli til Galileós sem þá var fangi á heimili sínu. Galíleó bauð Torricelli að heimsækja sig en hann þáði það ekki fyrr en þremur mánuðum áður en Galíleó lést. Á meðan hann dvaldi hjá Galileó þá skrifaði hann upp Fimmta dag af orðræðu Galileós. Eftir andlát Galíleós þann 8. janúar 1642 bauð Ferdinand 2. stórhertogi honum að taka við af Galíleó sem konunglegur stærðfræðingur og prófessor í stærðfræði við Háskólann í Pisa. Þann 11. júní 1644 skrifaði hann fleyg orð í bréfi til Michelangelo Ricci: „Noi viviamo sommersi nel fondo d'un pelago d'aria“ eða „Við lifum neðst á botni lofthafs“

Helsta uppgötvun Torricellis var kvikasilfursloftvog og hvatinn af því var að það þurfti að leysa vandamál en dælusmiði hertogans af Toskana vildu dæla vatni meira en 12 metra en fundu að aðeins var hægt að nota sogdælu til að dæla 10 m. Torricelli notaði sér að kvikasilfur hefur fjórtánfalda eðlisþyngd vatns og árið 1643 bjó hann til rör sem var lokað að ofan, fyllti það af kvikasilfri og setti í ílát með kvikasilfri. Kvikasilfurssúlan féll þá um 76 sm og fyrir ofan var lofttóm. Þetta var fyrsta loftvogin. Mælieiningin torr sem notuð er til í lofttæmimælingum er kennd við hann. Torricelli setti fram fyrstu vísindalegu skýringu á vindi en hann skilgreindi vind sem mismun í lofthita og þar með þéttleika milli tveggja svæða á jörðinni.

Helstu rit[breyta | breyta frumkóða]

  • Trattato del moto (fyrir 1641)
  • Opera geometrica (1644)
  • Lezioni accademiche (prentað 1715)
  • Esperienza dell'argento vivo (Berlín, 1897).

Tengill[breyta | breyta frumkóða]