Ernst Röhm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ernst Röhm
Ernst Röhm árið 1933.
Fæddur28. nóvember 1887
Dáinn1. júlí 1934 (46 ára)
StörfHermaður
FlokkurNasistaflokkurinn
ForeldrarGuido Julius Josef Röhm & Sofia Emilie
Undirskrift

Ernst Julius Günther Röhm (28. nóvember 1887 – 1. júlí 1934) var þýskur herforingi sem var einn af fyrstu meðlimum Nasistaflokksins. Sem meðlimur í Þýska verkamannaflokknum, forvera Nasistaflokksins, hafði Röhm vingast við Adolf Hitler og orðið einn helsti bandamaður hans. Röhm stofnaði hernaðarvæng Nasistaflokksins, Sturmabteilung, og varð seinna leiðtogi hans. Árið 1934 var þýski herinn farinn að óttast áhrif Stormsveitanna og Hitler var farinn að líta á Röhm sem keppinaut. Röhm var því handtekinn og tekinn af lífi á nótt hinna löngu hnífa.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ernst Röhm fæddist til þýskrar alþýðufjölskyldu árið 1887 og gekk ungur í þýska keisaraherinn. Hann kleif metorðastigann innan hersins og var orðinn höfuðsmaður undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar.[1]

Röhm gekk í Nasistaflokkinn eftir að styrjöldinni lauk og varð snemma fylgismaður Adolfs Hitler. Röhm stofnaði stormsveitir ofbeldismanna, svokallaðar SA-sveitir eða brúnstakka, til að ganga erinda foringjans og trufla starfsemi annarra stjórnmálahreyfinga. Röhm og stormsveitir hans tóku þátt í bjórkjallarauppreisninni í München árið 1923 ásamt Hitler. Röhm tókst að hertaka nokkrar stjórnarbyggingar en uppreisnin fór út um þúfur og Röhm var handtekinn ásamt öðrum uppreisnarmönnum. Hann dvaldi um hríð í Stadelheim-fangelsi en var síðan sleppt.[1]

Röhm var einn af fáum nasistum sem þúuðu Hitler og átti til að andmæla honum opinskátt þegar honum þótti ástæða til. Þeir Hitler voru lengi nánir vinir en vinslit urðu á milli þeirra vegna ólíkra hugmynda þeirra um það hver framtíð stormsveitanna ætti að verða og vegna þess að Röhm var samkynhneigður og því álitinn „kynvillingur“.[2][3]

Röhm varð áfram höfuðsmaður í þýska hernum eftir að hann hlaut frelsi sitt en stýrði auk herdeildar sinnar sínum eigin her brúnstakka. Þegar Hitler var skipaður kanslari Þýskalands árið 1933 fóru yfirmenn hersins, sem óttuðust að Röhm gæti framið valdarán ef hann vildi, á fund Hitlers og fóru fram á að stormsveitirnar yrðu leystar upp og leiðtogar þeirra fangelsaðir í skiptum fyrir að herinn styddi stjórn Hitlers. Hitler féllst á kröfurnar og skipulagði hreinsun á stuðningsmönnum Röhms úr röðum brúnstakka. Hreinsununum var hrint í framkvæmd í lok júní árið 1934 á nótt hinna löngu hnífa. Röhm var handtekinn ásamt um 200 leiðtogum SA-sveitanna, sakaður um svikráð og síðan tekinn af lífi í Stadelheim-fangelsi í München.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Siðspilltur hrotti“. Morgunblaðið. 1. nóvember 1992. Sótt 17. maí 2019.
  2. „Hitler drap stormsveitarforingjana til þess eins að þóknast andnazistum“. Tíminn. 1. júlí 1954. Sótt 17. maí 2019.
  3. „„Æfisaga landráðamanns". Alþýðublaðið. 10. ágúst 1934. Sótt 17. maí 2019.