Fara í innihald

Þúun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þúun eða „að þúa einhvern“ er það að ávarpa þann sem maður talar við með 2. persónu eintölu (eða samsvarandi eignarfornafni) en persónufornafnið í 2. persónu eintölu er „þú“ og þaðan er nafnið „þúun“ komið. Þúun er andstæða þess að þéra einhvern.

Dæmi um að þúa er að segja: „Þú vilt vel, Sigurður“. Í stað: „Þér viljið vel, Sigurður“. Hér áður fyrr þúuðu menn sína nánustu, vini sína og jafnvel yngri menn og þá sem menn þekktu ágætlega. Þá sem voru hærra settir eða eldri eða ókunnugir voru þéraðir. Það að þúast var nefnt að vera dús. Dúsbróðir eða þúbróðir nefndu menn þann mann sem þeir voru það vel kunnugir að þeir þyrftu ekki að þéra hann eða hana.

Stundum þegar menn drukku saman innsigluðu menn með vínskál að þeir skyldu þúast og var nefnt að drekka dús. Hér er ágætt dæmi um hvernig hinum venjulega bónda í lok 19. aldar var ætlað að þéra kaupmanninn:

Þórður hampaði pyttlunni tómri í annari hendi og studdi hinni á búðarborðið. Sá sem afgreiddi var ungur laglegur maður, danskur í aðra ætt, sem var nýkominn þangað frá einhverri annari verslunarstöð langt í burtu. »Láttu mig fá á glerið lagsi«, segir Þórður og kinkaði kolli framan í búðarmanninn. »En vertu nú ekki alla æfina að mylkja lekanum á pelaskömmina. Kúfa [þ.e. hestur hans] bíður eptir okkur«. -»Við höfum ekki drukkið dús, mundu það næst«, segir sá sem er fyrir innan borðið og hrifsar flöskuna heldur hvatlega af Þórði um leið. »O, aðra eins peja held jeg nú að jeg hafi þúað um dagana«, segir Þórður gamli og hallar sjer fram á búðarborðið.
 
— Tóbakspundið (birtist í Dagskrá 1897) [1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Linguistics stub.svg  Þessi málfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.