Fara í innihald

Engel Lund

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Engel Lund (14. júlí 190015. júní 1996) var dönsk-íslensk söngkona og var þekkt sem þjóðlagasöngkona víða um heim. Hún var einnig þekktur tónlistarkennari í Reykjavík eftir 1960. Hún var af dönskum ættum en fæddist á Íslandi og ólst hér upp til ellefu ára aldurs. Engel Lund var oft nefnd Gagga.

Foreldrar hennar voru Michael Lars Lund, lyfsali í Reykjavíkurapóteki, og kona hans, Emilie Marie Magdalene Hansen. Hún lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1919 og lagði síðan stund á söngnám í Kaupmannahöfn, París og Þýskalandi. Frá árinu 1933 var hún á nær stanslausum tónleikaferðalögum, en hún settist að í London í síðari heimsstyrjöldinni og starfaði lengi þar. Hún var þekkt sem þjóðlagasöngkona víða um heim og hafði það fyrir sið að ljúka öllum tónleikum á íslensku þjóðlagi og oftast varð lagið „Litlu börnin leika sér“ fyrir valinu.

Engel fluttist aftur til íslands þegar hún hætti að syngja opinberlega árið 1960. Hún var lengi kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og kenndi nemendum sínum heima við fram undir nírætt. Árið 1960 gaf hún út plötu og bók um íslensk þjóðlög og skýringar við þau. Einnig má nefna að Sigurður Nordal skrifaði um hana þekkta grein sem hann kallaði „Litla stúlkan í apótekinu“ í sambandi við fyrstu tónleikaferð hennar á Íslandi, en greinin birtist upphaflega í tímaritinu Unga Ísland árið 1947 og síðan í Félagsbréfum Almenna bókafélagsins 1961 og í Morgunblaðinu 1980. [1] Engel Lund var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu m.a. fyrir kennslustörf og þátt sinn í að kynna íslensk þjóðlög á erlendri grund.

Engel var ógift og barnlaus en hún átti marga vini og velunnara á Íslandi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.