Einum kennt - öðrum bent
Einum kennt – öðrum bent er stutt ritgerð eftir Þórberg Þórðarson og var fyrst prentuð í tímritinu Helgafelli árið 1944. Hún var síðan endurprentuð í Ritgerðir 1924-1959 og aftur í bókinni Einum kennt – öðrum bent (tuttugu ritgerðir og bréf 1925-1970) sem Mál og menning gaf út árið 1971. Með þessari bók beitti Þórbergur að mörgu leyti íslenskri fagurfræði á stíl. [1]
Inngangur
[breyta | breyta frumkóða]Einum kennt - öðrum bent er ritgerð sem skrifuð er sem nokkurskonar kennslurit fyrir rithöfunda og alla sem skrifa íslenskt mál. Megintilgangur hennar var sá að leiðbeina Íslendingum að bæta ritstíl sinn og auka skipulag og vandvirkni við ritun hugverka sinna. Í bókinni koma fyrir hugtök sem eru notuð enn þann dag í dag þegar kenndur er íslenskur stíll. Þau eru: skalli, uppskafning, lágkúra (og lágkúra og uppskafning) og ruglandi. Þau eru rædd hér fyrir neðan.
Þórbergur Þórðarson lagði Einum kennt - öðrum bent út frá Hornstrendingabók eftir Þorleif Bjarnason kennara, en hún kom út árið 1943. Þórbergur er ekki á móti bókinni sem slíkri, enda segir hann að:
- Höfundur Hornstrendingabókar er maður gáfaður, almennt talað. Hann hugsar lipurlega, hefur ágæta frásagnarhæfileika og stílgáfu langt framyfir það, sem almennt gerist. En hann er meiri frásegjari en hugsuður. Hann ristir ekki sérlega djúpt, hugsar varla nógu nákvæmt, ekki heldur vel skipulega.
Þórbergur heldur því einnig fram í ritgerðinni að Hornstrendingabók sé óvenjulegt rit í bókmenntum vorum. Hann segir:
- Hún er rituð af meira andans fjöri og hærri íþrótt í frásögn, stíl og máli en við eigum að venjast, þrátt fyrir hina mörgu og miklu galla hennnar. Hún er vitandi tilraun til að skrifa lifandi verk á svipaða vísu og góðir höfundar rita þau útií löndum, þar sem orka C-fjörefnanna er meiri en í upprennandi lýðveldi Íslands.
Þórbergur gerir því ekki lítið úr Hornstrendingabók, heldur er með þessu riti að sýna fram á að allir geti gert betur, jafnvel þeir sem telja sig vera vel ritfæra, og hefur þar einnig sjálfan sig í huga - eins og fram kemur í lokaorðum ritgerðarinnar.
Skallar
[breyta | breyta frumkóða]Skalla í ritum telur Þórbergur vera slæm vinnubrögð, skort á nákvæmni og skilningi. Hann segir það ærinn ljóð á slíku riti, „þóað það sé ekki hugsað sem héraðssaga, að þar er mjög fáum verkefnum gerð svo greinileg skil, að ekki þyrfti að vinna þau upp að nýju, ef skrifuð yrði saga Hornstranda eða Norður-Ísafjarðarsýslu. Víða stafa þessir skallar í frásögninni ekki af sniði bókarinnar, því síður heimildarþurrð, heldur af skorti höfundarins á nákvæmni og skilningi á verki því, sem hann hefur tekizt á hendur.“
Þórbergur tiltekur svo nokkur dæmi:
Dæmi um skalla
[breyta | breyta frumkóða]Þórbergur segir:
- Í lýsingunni á sjóbúðunum í Skáladal á bls. 51 er t.d. ekki getið um stærð búðanna, ekki minnst á birtugjafa, ekki lýst dyrum og dyraumbúnaði, ekkert orð um búðagólfin, ekki sagt frá gerð rúmstæðanna, ekki greint frá rúmfatnaði vermanna, þagað um það, hvar þeir höfðu sjóföt sín, þegar í landi var legið o.fl. o.fl.
Hann vitnar svo í Hornstrendingabók:
- Framan af vori var oft langróið úr Skáladal, meðan fiskur gekk ekki á grunnmiðin. Haldið var niður á Kögur, Hlíðar og Kóp...
Og útskýrir:
- Þetta geta verið góð vísindi fyrir þá, sem til þekkja á þessum leiðum. En allir hinir eru litlu nær. Þeir finna að vísu Kögrið á kortinu. En hvar eru Hlíðar? Og hvar er Kópur? [..] Höfundurinn virðist hafa gleymt þarna þeim megintilgangi bóka, að þær eru ekki ritaðar handa þeim, sem vita, heldur hinum, er ekki vita.
Uppskafning
[breyta | breyta frumkóða]Uppskafning telur Þórbergur vera það einkenni höfunda að hafa tekið inn á sig vissa tegund módernisma (hinna síðustu ára). „Þessa tegund „módernismanna“, sem orðið hefur höfundi Hornstrendingabókar að fótakefli, hef ég kallað uppskafningu. Það er kvenkynsorð og beygist eins og kerling. Uppskafning getur birzt í ýmiskonar myndum. Þingeyska uppskafningin, sem er að mestu af þjóðlegum rótum runnin (er þó kannski að einhverju leyti áhrif frá norsku), er t.d. mjög ólík þeirri uppskafningu, er hér um ræðir og er úr útlendum toga spunnin. En einkenni allrar uppskafningar í rithætti er hofróðulegt tildur og tilgerð, skrúf og skrumskælingar, í hugsun, orðavali og samtengingu orða.“
Þórbergur tengir þennan módernisma við það sem gerst hafði í listamálum íslendinga á árunum eftir fyrra stríð. Og hann er ekki hrifinn:
- „Fyrir liðugum áratug mátti kannski líta á hina nýju uppskafningu sem virðingarvert stref til að yngja upp mál og stíl, sambærilegt því í byggingarlistinni, sem reisti hér landi kubbahúsin með togaragrindverkinu og gluggaborunni efst á veggnum, jassinum í músíkinni og hinu þráláta stillubeini í myndlistinni með karfa á borði og könnu á stól, sem allt naut í þá daga nærri guðrækilegrar aðdáunar, en var samt sem áður málandi innantómleika-teikn, þar sem ris andans er fokið ofan af kúnstverkinu.“
Þórbergur tilfærir síðan ótal dæmi um uppskafningu. Þau eru meðal annars þessi (og það sem hann telur uppskafningu skáletrar hann):
Dæmi um uppskafningu
[breyta | breyta frumkóða]- Harðir...vetur með...hamförum hafsins og ískrandi náhljóðum hafíssins (bls. 9).
- —Hér fara saman tvö stýriorð hvort með sínu eignarfalli, sem bæði hljóma eins: ins, ins, og lýsingarháttur nútíðar settur á undan síðara stýriorðinu, en það gerir orðasambandið klunnalegra í fasi. Auk þess vildi ég skjóta því hér inn einsog milli sviga, þó að ekki teljist það til uppskafningar, að ískrandi náhljóð er ekki vel valið til þess að tákna gnýinn í hafísnum, og þaraðauki er náhljóð í óeiginlegri merkinu farið að verða eitt af þessum slitnu orðum, sem óðum nálgast lágkúru eða þegar hafa náð því menningarstigi.
- Einangrun víkurinnar og miskunarleysi vetrarins í samleik við umhverfi sækir þrotlaust á veikgerðar taugar vannærðrar konu... (bls. 79)
- —Svona íburður er slæmur samúðarvekjari.
- Fólkið...nýtur á ný sóltöfra vordagsins og æfintýralegra tilbrigða umhverfisins (bls. 145)
- ...torfærur langrar hillu og framrunnina gilja (bls. 173)
- —Nafnorð með fjögur eignarföll í eftirdragi. Þessi viðhafnareignarföll verka sérstaklega kátbroslega, þegar orðasamböndin tákna eitthvað ósköp hversdagslegt:
- ...fyrstu fiskar vorsins (bls. 52)
- Þau (bæjargöngin) voru...venjulega mjög lek, svo að ausa varð vatni í fötum úr þeim á rigninga- og leysingadögum vorsins.
- —Svona málsgrein orkar á mig eins og vanskapnaður. Hún segir frá skelfing hversdagslegu ómenningarástandi: lekum bæjargöngum, sem vatninu er ausið út úr í fötu. Í fyrri málsgreinarinnar er sagt frá þessu á ósköp algengu máli, næstum fyrir neðan virðingu bæjarganganna, þó að aum séu. En í síðari hlutanum reigist hún upp í kirkjulegan hátíðleik og það án þess að nokkurt helgilegt teikn sé merkjanlegt á göngunum eða vatnsaustrinum.
- ...fyrstu egg vorsins... (bls. 126)
- —Afturámóti verður þessi orðaskipun oft og einatt mjög stirðbusaleg og hrynjandi hnúskótt og óviðfelldin, þegar eignarfallsorðin bæta við sig ákveðnum greini í fleirtölu:
Og hér hefst hin fræga eignarfallsupptalning Þórbergs: (en aðeins brotabrot af því birtist hér að neðan). Hann segir þó áður en runan hefst: „Ég hefði að sjálfsögðu ekki gert þessa eignarfallsnotkun höfundarins að átöluefni, ef henni hefði verið stillt í hóf að venjulegum hætti og beitt af smekkvísi. En í bók hans morar svo af þessari ónáttúru, einsog ég hef þegar vikið að, og leitar oft út í svo ósmekklegum myndum, einsog mörg dæmin [..] sýna“:
- Í landlegum vorvertíðanna...gafst bændum víknanna nokkur tími til ýmissa starfa við heimilið.
- Hvöss nef fuglhausanna...
- ...ríki bjargsins...
- ...svipti félaga þeirra og afkvæmi þeirra lífi.
- ...í Miðgarði bjarganna...
- ...ásælni mannanna...
- ...þrjóska þessara landsigafyglinga gegn hættum bjarganna...
- ...í krafti helgi sinnar og guðlegs lífernis...
- ...gegn dulmögnum náttúrunnar...
- o.s.frv.
Þórbergur gerir síðan nokkuð veður út af óþarfa tepruskap í orðanoktun, og þar á meðal orðið tjáning, sem hann segir að Guðmundur Kamban hafi innleitt. Hann nefnir líka orðið fjarrænn (sem þá var farið að nota yfir rómantík) og leggur ríka áherslu á að menn ofnoti ekki eða noti orð og orðasambönd í röngum eða afkáralegum merkingum.
- ...unnu fornum bókmenntum og hetjutjáningu þeirra... (bls. 10)
- —Til uppskafningar telst það stundum, en ekki alltaf, að nota eignarföllin hans, hennar, þeirra o.s.frv. í staðinn fyrir þáguföllin honum, henni, þeim o.s.frv. sem oft gera stílinn mýkri og mennilegri:
- Smásteinum rigndi yfir höfuð þeirra. (bls. 67)
- —...yfir höfuð þeim færi hér mun betur. [Ath. að þetta á aðallega við um líkamshluta].
Lágkúra
[breyta | breyta frumkóða]Þórbergur hefur innganginn að lágkúrunni með eftirfarandi orðum: „Þó að höfundur Hornstrendingabókar geri sér mjög far um að halda stíl sínum til hoffmannlegrar glæsimennsku, hefur honum ekki lánast að stýra hjá þeim auðvirðileik í rithætti, sem hér verður kallaður lágkúra“. Og svo nefnir hann hvað lágkúra er:
- ...[lágkúran], sem hér um ræðir, má einkenna sem lágkúrulegt og sviplaust málfar yfirleitt. Þar í eru fólgin klaufaleg orðaskipun, kauðskt orðalag og kauðskar orðmyndir (sbr. t.d. úr handraðanum, landið okkar, bærinn okkar, ku), ónákvæm og geigandi beiting orða, linjuleg orð og orðasambönd, þar sem þróttur hæfir betur, fábreytilegur orðaforði, endurtekning sömu atkvæða, orða, orðasambanda [sjá Nástaða] og setningaforma með stuttu millibili, þegar ekki er um mælskusnilld eða listrænar nauðsynjar að ræða, hljómlaus og ruglingsleg hrynjandi, upptugga á orðum og föstum orðatiltækjum, sem hugsunarlaus vananotkun hefur gert að dauðum limum á líkama tungunnar, sbr. t.d. samhent, gerði garðinn frægann, fastur fyrir, veganesti, lífsförunautur og déskotans trúnaðarstörfin, sem allt kemur yfir mann eins og utanað lærð þula úr páfagauki í hverri einustu dánarminningu, sem ekki er orðfærð uppá nýlýriska móðinn.
(Hafa ber í huga hér að Þórbergur er að tala um samtíma sinn, en hver nútími á sínar tuggur sem ber að varast, eða nota með nýjum hætti).
Þórbergur nefnir þó að lágkúruna megi nota sem stílbragð eða listbragði eins og hann nefnir það.
Dæmi um lágkúru
[breyta | breyta frumkóða]„Lágkúrurnar, sem einkum hafa skotið höfundi Hornstrendingabókar ref fyrir rass, eru endurtekningar sömu atkvæða, orða og orðatiltækja með stuttu millibili, en þó kennir þar fleiri grasa af lágkúruættinni. Þessir stílgallar eru þar svo tíðir, að þeir lýta ritháttinn til allmikilla muna“:
- ...og lét undanrennuna renna í fötuna...(bls. 61)
- Á Þorláksmessu var skatan soðin, kæst og angandi. Þá var líkast hangiket soðið. (bls.67)
- —Þessi endurtekningu mætti fela með því að breyta um orðaröð í síðari málsgreininni og segja: Þá var líka soðið hangiket.
- Hann egnir snöruna...og gætir þess, að hún skjálfi sem minnst, og þess að ýta henni með jöfnum hraða. (bls. 160)
- ...enda þess ekki langt að bíða, að hann sprengi af sér þröng heimkynni og komist út í heiminn. (bls. 160)
- Illt var að fara svo, að ekki væri spyrnt við hálflausum steinum, sem hrundu, enda ekki hlífst við að ryðja hálflausum steinum úr vegi. (bls. 174).
Þetta er nútildags oftast flokkað sem nástaða. Þórbergur heldur áfram:
- Til lágkúru tel ég einnig þau lýti á máli og stíl bókarinnar, að þar er um of þrástagast á viðteningarhætti í upphafi setninga. Svo kenndi dr. Björn Bjarnason, að það væri ekki góð íslenska að byrja setningu á viðtengingarhætti, heldur skyldi tíðka ef í hans stað. Þessa leiðbeiningu doktors Björns hef ég samt oft skágengið af vissum ástæðum, en þó gert mér far um að drýgja þau brot í hófi. [..] Á bls. 141. kemur fyrir þrisvar sinnum viðtengingarhátturinn sé:
- ...sé margt fólk saman komið. Sé logn...Sé veður gott.
- —Og þrisvar sinnum á bls. 153:
- Sé eggið nýtt...en sé það skemmt...og sé mjög dimmt.
Lágkúra og uppskafning
[breyta | breyta frumkóða]Í Hornstrendingabók gerist allvíða þau fyrirbæri, að lágkúra og uppskafning líkamnast í sama orði eða sömu klausu, málsgrein eða setningu. Slíkur skapnaður er ekki sérlega densilegur á að líta. Í dæmunum hér á eftir er lágkúran einkennd með skáletri, uppskafningin með breiðletri og lágkúra og uppskafning í sama orði með UPPHAFSSTÖFUM.
Dæmi og lágkúru og uppskafningu
[breyta | breyta frumkóða]- Hausastöppunnar var neytt af mörgum með VELÞÓKNUNARSMJATTI og LOFGERÐARSTUNUM (bls. 62)
- (Selirnir) stungu sér í voginn og földu sig í DÝPI HANS (bls. 55)
- Ið þeirra (unganna) og skrið er fálmkennt, sprottið af hreyfingarþörf og leit að fæðu og hlýju móðurinnar. Hverfi móðirin frá þeim, leita þeir að hlýju hennar og vernd, en skynlausir á hengiflug það, sem hefst á stallbrún þeirra, geta þeir steypt sér fram af... (bls.159)
- —Hér hefði mátt lækka lítið eitt spennuna meðan sagt var frá þessum óbrotnu smælingjum náttúrunnar. Ungagreyjum á nöktum bergstalli hæfir annar tónstigi en íburði í höllum keisara og soldána.
- ...og þessi óvænti ósigur getur vakið ósæmilegt orðbragð hans í margþættum hættum bjargsins. (bls. 162)
- Langt niður í undirheimum bjargsins dvelur þessi fámenni hópur, þar sem ríki bjargsins er mest og veldi þess birtist best og sýnir vesælli mannveru hrikaleik sinn og ógnandi mátt. Á óvaninn bjargmann verkar tröllslegt veldi þess lamandi og fyllir hann vanmáttakennd. En þegar þéttsetinn bergnef, breið og vel geng, bjóða innrásarmönnunum óvenjulega og eggjandi VEIÐIAÐSTÖÐU, hverfur hugsunin um mátt bjargsins og hættur umhverfisins. (bls. 175)
- —Í mínu ungdæmi kenndu hinir vísu feður, að sögnin að dvelja væri áhrifssögn, en áhrifslausa myndi væri dveljast. Þeir dvöldu för hans fram að nóni; hann dvaldist þar lengi dags.
Ruglandi
[breyta | breyta frumkóða]Ruglandin lýsir sér í margskonar veikleika eða blindu í hugsun, svosem ósönnum staðhæfingum, gölluðum skilgreiningum, bágbornum röksemdaleiðslum, kjánalegum skoðunum, röngum frásögnum o.s.frv., o.s.frv. Það er kvenkynsorð og beygingarlaust eins og hrynjandi og verðandi.
Allir þeir, sem ritað mál lesa með svolítilli íhugun, munu hafa veitt því undri athygli, að stundum er sem ský eður myrkva dragi alltíeinu fyrir vitsmuni höfunda, svoað líkja mætti hugsanagangi þeirra við rugl í manni, sem hlotið hefur skyndilega blæðingu á heilann. Orsakir þessara sálarformyrkvana geta verið margvíslegar. Þartil má nefna vanþekkingu og einnig þá tegund vitsmunaskorts, sem kalla mætti skynsemisheimsku.
Dæmi um Ruglandi
[breyta | breyta frumkóða]- Á sunnudögum voru engin verk unnin nema þau, sem nauðsynlegust voru og ekki var fært að komast undan. Hornstrendingar héldu lengi hvíldardaginn stranglega heilagan og voru fastheldnir á gamla og úrelta helgidaga.
- — Hér ætti síðari málsgreinin að fara á undan, þvíað hún er almenn greinargerð, sem tekur yfir alla helgidaga, en fyrri málsgreinin ræðir aðeins um þann flokk helgidaganna, sem kallaðir eru sunnudagar.
- En hitt er raunverulegt, að stundum sigldi Albert skipi sínu heilu í höfn, þegar aðrir fórust.
- —Hvernig getur það farið saman, að Albert hlekkist aldrei á og hann skilaði skipi sínu þó aðeins stundum heilu í höfn?
- Mök við álfa varð oft flótti frá manneðlinu, sókn eftir sindrandi gulli og auðæfum.
- —Er það nú orðinn flótti frá manneðlinu að sækjast eftir sindrandi gulli og auðæfum? Er það ekki einmitt þetta, sem flestir eru á spani eftir?
Niðurlag
[breyta | breyta frumkóða]Þórbergur nefnir einnig í lokin stílgerð höfunda og segir: Ég er þeirrar skoðunar í dag einsog fyrir tuttugu árum, að mál og stíll þarfnist uppyngingaraðgerðar öðruhverju, til þess að hið ritaða orð staðni ekki og kalkist. [..] En við slíkar tilraunir ættu þeir jafnframt að kosta kapps um að beita „skynsamlegu viti“ og smekkvísi og ástunda að gera sér þess glöggva grein, hvort hin nýja sköpun hefur tekist sæmilega, eða hvort hún hefur farið í handaskolum, og kasta henni þá fyrir borð sem misheppnuðu og gagnslausu verki. Ekkert er rithöfundi hættulegra en forherðing gegn staðreyndum. Hún er frysting sálarlífsins og upphaf hins andlega dauða.