Guðmundur Kamban
Guðmundur (Jónsson) Kamban (8. júní 1888 – 5. maí 1945) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og leikstjóri sem bjó lengst af í Danmörku og skrifaði flest verk sín á dönsku. Þekktustu leikrit hans eru Marmari, Vér morðingjar og Hadda Padda. Eftir síðari heimsstyrjöldina sökuðu andspyrnumenn í Danmörku hann um að vera samstarfsmann þýska hernámsliðsins og myrtu hann sama dag og Þjóðverjar gáfust upp.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Guðmundur fæddist í Reykjavík. Hann fékkst nokkuð við miðilsstörf og fyrsta bókin sem hann ritaði - Úr dularheimum - sagðist hann hafa skrifað „ósjálfráðri hendi“ 17 ára gamall fyrir Snorra Sturluson, H. C. Andersen og Jónas Hallgrímsson. Hann tók upp ættarnafnið Kamban árið 1908. Árið 1910 hélt hann til Kaupmannahafnar í nám. Fyrsta útgefna leikritið hans, Hadda Padda, var sett upp af Konunglega danska leikhúsinu árið 1914. Árið eftir flutti hann til New York-borgar og hugðist hasla sér völl á ensku. Það gekk ekki eftir og hann sneri aftur til Kaupmannahafnar 1917. Árið 1920 fékk hann stöðu við Konunglega leikhúsið þar sem Vér morðingjar var sett upp.
Á 3. áratugnum fékkst hann við leikstjórn hjá ýmsum leikhúsum og leikstýrði meðal annars tveimur kvikmyndum, Höddu Pöddu (1924), sem var tekin upp á Íslandi, og Hús í svefni (1926). Árið 1934 flutti hann til London og síðan Berlín 1935 þar sem hann bjó til 1939. Eftir að hann sneri aftur til Kaupmannahafnar gekk honum illa að fá verkefni og fékk meðal annars fjárstyrk frá þýska hernámsliðinu, skv. Kristjáni Albertssyni mánaðargreiðslur í 6 mánuði til að skrifa vísindaritgerð um íslenskan sölva (ekkert hefur varðveist af þessari vísindaritgerð). Hann fékk því orð á sig fyrir að vera hliðhollur Þjóðverjum. Það leiddi til þess að andspyrnumenn ákváðu að handtaka hann og yfirheyra. Hann neitaði hins vegar að fylgja þeim og var þá skotinn. Gerðist þetta sama dag og hernámsliðið gafst upp.
Lengi var vitað hverjir voru í litlu handtökusveitinni sem sótti hann á hótelið en það ekki gert opinbert. Þannig fékk Ásgeir Guðmundsson aðgang að þessum skjölum þegar hann reit bókina Berlínarblús en þó aðeins með þeim skilyrðum að nöfn þeirra yrðu ekki gerð opinber né heldur að hann setti sig í samband við þá eða aðstandendur þeirra gegn 6 mánaða fangelsi. Hlutu þeir enga refsingu fyrir. Gagnasafn Ásgeirs var opnað árið 2015 en það var þó fyrst við rannsóknir á því árið 2023 að opinberað var að banamaður Kambans hafi verið andspyrnumaður að nafni Egon Alfred Højland(da), sem síðar sat á danska þinginu frá 1973 til 1975.[1]
Minningarskjöldur
[breyta | breyta frumkóða]Haustið 2021 var minningarskjöldur um Guðmund fjarlægður í Kaupmannahöfn en hreyfing sem vildi heiðra dönsku andspyrnuna í síðari heimsstyrjöld þrýsti mjög á það.[2]
Ein helsta ástæðan var ásökun á hendur Kamban um að hann hafi svikið andspyrnumann af Gyðingaættum að nafni Jacob Thalmay í hendur nasista. Samkvæmt ásökuninni var Thalmay dulbúinn við njósnir í höfuðstöðvum Gestapo í Kaupmannahöfn þegar Kamban, sem hafði verið nágranni hans, bar kennsl á hann og benti Þjóðverjum á að Thalmay væri Gyðingur. Thalmay var í kjölfarið handtekinn, sendur til Auschwitz-útrýmingarbúðanna og síðan neyddur í helgöngu til Mauthausen-búðanna, þar sem hann lést árið 1945. Barnabarn Thalmay, Charlotte Thalmay, var meðal þeirra sem börðust fyrir því að minningarskjöldurinn um Kamban yrði tekinn niður.[3]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurður Hróarsson (11. júní 1988). „Leikskáld alvörunnar“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 4-8.
- We murderers (Vér morðingjar) leikrit í 3 þáttum
- Verk eftir Guðmund Kamban hjá Project Gutenberg
- Íslenskir leikhúsmenn: Guðmundur Kamban Geymt 18 mars 2016 í Wayback Machine
- Guðmundur Kamban (1. desember 1948). „H. C. Andersen og Ísland“. Unga Ísland. bls. 23-30.
- Guðmundur Kamban á IMDb
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Árni Sæberg (21. september 2023). „Hulunni svipt af banamanni Guðmundar Kambans“. Vísir. Sótt 21. september 2023.
- ↑ Kolbeinn Tumi Daðason (11. október 2021). „Minnisvarði um Guðmund Kamban fjarlægður eftir heitar deilur“. Vísir. Sótt 21. september 2023.
- ↑ Stefán Gunnar Sveinsson (9. ágúst 2021). „Vill að minningarskjöldurinn um Kamban verði tekinn niður“. mbl.is. Sótt 21. september 2023.