Fara í innihald

Egypsk fræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Egypskufræði)
Auguste Mariette (sitjandi lengst til vinstri) ásamt Pétri 2. Brasilíukeisara og föruneyti við Sfinxinn í Gísa árið 1871

Egypsk fræði eða Egyptalandsfræði er fræðigrein sem fæst við Egyptaland hið forna, sögu þess, tungumál, bókmenntir, byggingarlist og myndlist frá fyrstu minjum um menningarsamfélag frá 5. árþúsundinu f.Kr. fram að síðustu minjum um fornegypsk trúarbrögð á 4. öld e.Kr. Egypsk fræði eru oftast talin til textafræði, líkt og fornfræði, en þau eru líka nátengd fornleifafræði.

Egypsk fræði eru kennd við háskóla víða um heim, en oft sem sérgrein innan austurlandafræði eða fornleifafræði. Á Norðurlöndunum eru egypsk fræði kennd við bæði Kaupmannahafnarháskóla (Institut for Tværkulturelle og Regionale Studier) og Háskólann í Uppsölum (Arkeologi och antik historia). Auk þess eru á Norðurlöndunum starfandi tvö fræðafélög, Dansk Ægyptologisk Selskab sem gefur út tímaritið Papyrus, og Norsk egyptologisk selskap sem gefur út tímaritið Ostrakon.

Upphaf egypskra fræða má rekja til ráðningar egypskra híeróglýfa á Rósettasteininum í upphafi 19. aldar. Meðal þeirra sem fengust við rannsóknir á fornminjum sem bárust til evrópskra safna í kjölfar Egyptalandsleiðangurs Napóleons 1799 voru Jean François Champollion, Johan David Åkerblad, Thomas Young og Ippolito Rosellini. Í umrótinu sem skapaðist eftir fall stjórnar mamlúka í Egyptalandi hófu forngripasafnarar á borð við Giovanni Battista Belzoni og Giovanni Battista Caviglia að safna egypskum fornminjum sem þeir ýmist seldu eða gáfu til safna í Evrópu. Skömmu síðar hófust umfangsmiklar fornleifarannsóknir manna á borð við Karl Richard Lepsius, Auguste Mariette, Émile Brugsch, Gaston Maspero og Flinders Petrie.

Margar af þessum rannsóknum voru fjármagnaðar af stórum evrópskum söfnum sem fengu afraksturinn bæði í formi nýrra forngripa og nýrrar þekkingar. Söfn á borð við British Museum, Egypska safnið í Berlín, Louvre, Egypska safnið í Tórínó og einkasöfn einstakra safnara stækkuðu ört á þessum tíma. Mariette stóð fyrir stofnun fyrsta egypska safnsins árið 1863. Hann og fleiri evrópskir egypskufræðingar skipuðu stöður forseta egypska forngriparáðsins frá stofnun þess 1858 til 1953. Markmið þeirra var einkum að koma í veg fyrir eyðileggingu fornminja og óheftan útflutning þeirra.

Egypsk fræði sem sérstök fræðigrein þróaðist með fræðimönnum á borð við Emmanuel de Rougé í Frakklandi (Collége de France), Samuel Birch í Bretlandi og Heinrich Karl Brugsch í Þýskalandi (Humboldt-háskólinn í Berlín), í beinum tengslum við stór söfn egypskra fornminja í þessum löndum. Fyrsta staðan í egypskum fræðum í Bandaríkjunum var stofnuð fyrir James Henry Breasted við Chicago-háskóla árið 1905. Fyrsti skólinn í egypskum fræðum í Egyptalandi var stofnaður af Ismaíl pasja árið 1870 undir stjórn Brugsch. Hann kenndi þar til 1879 þegar skólinn var lagður niður af breskum og frönskum yfirvöldum. Rússneski egypskufræðingurinn Vladimír Golenisjev var fyrstur skipaður kennari í egypskum fræðum við Háskólann í Kaíró árið 1924.

Áhugi á egypskum fræðum jókst mikið þegar breski fornleifafræðingurinn Howard Carter uppgötvaði óhreyfða gröf Tútankamons í Dal konunganna árið 1922. Textafræðingar á borð við Alan Gardiner og E. A. Wallis Budge áttu þátt í að breiða út þekkingu á fornegypsku máli og menningu með vinsælum kennslubókum.

Meðal áhrifamikilla egypskufræðinga samtímans má nefna Zahi Hawass, Günter Dreyer, Kent R. Weeks og Jan Assmann.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.