Daphne du Maurier
Frú Daphne du Maurier, lafði Browning (13. maí 1907 – 19. apríl 1989) var enskur rithöfundur og leikskáld sem er fræg fyrir skáldsögurnar Rebekka, Jamaica-kráin og Máfurinn meðal annarra. Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum hennar, eins og The Birds eftir Alfred Hitchcock og Don't Look Now eftir Nicolas Roeg sem báðar byggjast á smásögum eftir du Maurier.
Daphne du Maurier fæddist í London og var önnur af þremur dætrum leikarahjónanna Gerald du Maurier og Muriel Beaumont. Eldri systir hennar var rithöfundurinn Angela du Maurier og yngri systir hennar var myndlistarkonan Jeanne du Maurier. Rithöfundurinn og skopmyndateiknarinn George du Maurier var afi þeirra. Blaðamaðurinn William Comyns Beaumont var frændi móður hennar. Fjölskyldutengslin nýttust henni í upphafi ferilsins og fyrsta skáldsaga hennar kom út árið 1931. Hún giftist breska herforingjanum Frederick Browning árið 1932 og átti með honum þrjú börn. Með Rebekku árið 1938 sló hún í gegn. Tveimur árum síðar samdi hún leikgerð af sögunni og sama ár gerði Alfred Hitchcock kvikmynd eftir henni. Gagnrýnendur tóku hana lengi ekki alvarlega og flokkuðu hana með ástarsagna- og spennusagnahöfundum af því sögur hennar enduðu flestar illa og gerðu út á óvissu um hvort yfirnáttúrulegar eða eðlilegar skýringar ættu við.[1] Hún hefur verið kölluð meistari úthugsaðrar óvissu.[2] Hún bjó lengst af í Cornwall þar sem nokkrar af sögum hennar gerast.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ BBC Interview, 1979.
- ↑ Kate Kellaway, The Observer, 15 April 2007. "Daphne's unruly passions", theguardian.com; retrieved 12 May 2016.