Dómkirkjan í Berlín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Berlín eins og hún lítur út í dag

Dómkirkjan í Berlín stendur á Museumsinsel (safnaeyjunni) í miðborg Berlínar, rétt sunnan við söfnin frægu. Hún telst vera með merkustu evangelískra kirkjubygginga í Þýskalandi. Í kirkjunni er grafhýsi fyrir tæplega hundrað meðlimi Hohenzollern-ættarinnar (þó ekki keisarana sjálfra).

Saga dómkirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Nýi krossinn sem settur var upp 2008

Á reitnum hefur staðið kirkja síðan 15. öld. Páll II páfi hóf hana til dómkirkju 1465. Síðan þá hefur kirkjan tvisvar verið gerð upp. Á 19. öld urðu raddir æ hærri um að dómkirkjan væri ekki nógu stór og aðlaðandi fyrir hið rísandi Prússland. Var þá gamla dómkirkjan rifin og byrjað að reisa nýja. En sökum pólitísks óróa og skorts á fjármunum var verkinu hætt 1848.

Byggingarsaga[breyta | breyta frumkóða]

Hluti kirkjuskipsins eftir viðgerðir
Hluti af grafhvelfingu dómkirkjunnar

Það var ekki fyrr en Prússland var orðið að keisaraveldi að nýjar áætlanir um dómkirkju voru teknar fyrir aftur. Var þá byrjað á því að rífa niður þá kirkju sem enn var í framkvæmdum. Fyrstu skóflustungu að nýju kirkjunni var tekin 17. júní 1894 og hún vígð 1905. Kirkjan er ferningslaga með fjóra hornturna, en fyrir miðju gnæfir stórt hvolfþak. Á öllum turnum voru fagrar spírur og á hvolfþakinu 15 metra hár kross. Kostnaðurinn nam 11,5 milljónir marka á virði þess tíma.

Eyðilegging[breyta | breyta frumkóða]

Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari stórskemmdist dómkirkjan. 24. maí 1944 varð hvolfþakið fyrir sprengjuregni og hrundi við það brennandi inn í kirkjuskipið. Sökum þunga þess braut það aðalgólfið og hafnaði í grafhvelfingunni fyrir neðan. Einnig brunnu allir hliðarturnarnir. Strax eftir stríð var aðalþakinu lokað til að varna frekari skemmda vegna veðurs. Þannig stóð kirkjan sem rústir einar allt til 1975.

Viðgerðir[breyta | breyta frumkóða]

1975 var hafist handa við að lagfæra dómkirkjuna. Hvolfþakið var þó haft talsvert einfaldara en það var áður. Krossinn mikli var settur á aftur. Þök hliðarturnanna voru lækkaðir um 16 metra hver. 1983 var lokið við ytri viðgerðirnar. Var þá hægt að einbeita sér að inniviði kirkjunnar. Fall Berlínarmúrsins og sameining landanna hafði engin áhrif á starfið. Því lauk 1993 og var dómkirkjan þá tekin í notkun á ný. 2006 var krossinn mikli tekinn niður vegna ryðs. Nýr kross var ekki settur á fyrr en 2008. Orgelið slapp við allar meiriháttar skemmdir. Pípurnar voru hreinsaðar og settar á aftur. Þær eru 7.269 alls.

Grafhvelfingin[breyta | breyta frumkóða]

Síðan kirkja var fyrst reist á reitnum á 16. öld var farið að jarða meðlimi Hohenzollern-ættarinnar þarna. Líkin hvíla í kistum úr mismunandi efni. Samtals hvíla þar tæplega hundrað manns úr ættinni, svo sem kjörfurstar og konungar sem ríkt hafa í Berlín í hartnær 500 ár, ásamt drottningum, prinsum og prinsessum. Þó hvíla þar engir keisarar.

Nýting í dag[breyta | breyta frumkóða]

Í dómkirkjunni eru haldnir reglubundnar guðsþjónustur. Safnaðarmeðlimir eru 1.100. Meðan á viðgerðunum stóð fóru guðsþjónusturnar fram í grafarkapellunni og skírnarkapellunni. 1993 fóru þær á ný fram í aðalskipinu. Á seinni árum hafa einnig verið haldnar minningarguðsþjónustur í dómkirkjunni. Þannig var haldin slík minningarathöfn fyrir þýska forsetann Johannes Rau árið 2006, en hann lést á því ári. Í kirkjunni fara einnig fram tónleikar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Schneider og Cobbers (1998). Berlin. Jaron.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Berliner Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]