Kristófer Kólumbus
Kristófer Kólumbus (1451 – 20. maí 1506) (katalónska: Cristòfor Colom, ítalska: Cristoforo Colombo, spænska: Cristóbal Colón, portúgalska: Cristóvão Colombo) var ítalskur landkönnuður og kaupmaður. Ferð hans til Nýja heimsins 1492 (sem hann áleit austurströnd Asíu og nefndi því Vestur-Indíur) var fyrsta skjalfesta ferð Evrópubúa til Ameríku, eftir að norrænir menn höfðu gefið landnám þar upp á bátinn. Hún markaði upphafið að umfangsmiklu landnámi Evrópubúa vestanhafs.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Kristófer Kólumbus fæddist í lýðveldinu Genúa, (sem er nú hluti af nútíma Ítalíu). Faðir hans hét Domenico Colombo og var vefari af millistétt sem starfaði bæði í Genúa og í Savona. Kristófer starfaði fyrir föðir sinn á yngri árum. Móðir Kristófers hét Susanna Fontanarossa og áttu þau Domenico þrjá syni auk Kristófers, Bartolomeo, Giovanni Pellegrino og Giacomo. Þau áttu að auki eina dóttur sem hét Bianchinetta.
Kristófer giftist Filipu Moniz Perestrelo dóttur landstjóra í Porto Santo árið 1479 eða 1480. Þau eignuðust að nafni Diego og Ferdinand. Talið er að Filipa hafi látist fljótlega eftir að hún giftist Kristófer en ekki eru til staðfestar heimildir um það. Í öllu falli hóf Krisófer sambúð með hjákonu sinni að nafni Beatriz Enriquez de Arana árið 1487.
Fyrsta Ameríkuferð Kólumbusar
[breyta | breyta frumkóða]Kristófer Kólumbus sagði að hægt væri að komast að Asíu með því að fara vestur yfir Atlantshafið en flestir voru á því að sjóleiðin þangað lægi í austurátt. Ástæðan fyrir því að leitað væri að sjóleið til Asíu var sú að Evrópumenn, sem versluðu mikið við lönd eins og Indland og Kína, þurftu að finna aðra leið en í gegnum Miðausturlönd þar sem deilur og rígur voru milli Evrópumanna og múslíma. Kólumbus sóttist eftir stuðningi Jóhannesar II konungs Portúgals árið 1484 til að láta á þessa kenningu sína reyna en Jóhannes hafði ekki áhuga. Kólumbus hélt þaðan til konungs og drottningar Spánar, þeirra Ferdínands og Isabellu árið 1486 og samþykktu árið 1492 að styrkja ferð hans þrátt fyrir að hafa synjað í fyrstu. Kólumbus útvegaði sér þrjú skip, Niña, Pinta og Santa María.
Fyrsta ferð Kólumbusar af fjórum til Ameríku hófst 3. ágúst árið 1492. Kólumbus óttaðist á tímapunkti að uppreisn yrði meðal áhafnarinnar þar sem mikil óánægja og áhyggjur voru meðal hennar eftir að í ljós kom að Kólumbus hafði misreiknað lengd ferðarinnar og að auki villtust skipin um tíma. Þann 12. október komst Kólumbus og föruneyti þó loks að landi er þeir komu að Bahamaeyjum í Karíbahafi og nefndi Kólumbus hana San Salvador. Á San Salvador hitti áhöfnin frumbyggja (þ.e. hina innfæddu Taínóa) sem samkvæmt Kólumbusi voru friðelskandi og vinalegir.
Kólumbus skrifaði í dagbók sína 12. október 1492 að margir frumbyggjana væru með ör á líkömum sínum og þegar hann tjáði sig með merkjum til að komast að því hvað gerst hefði, sögðu frumbyggjarnir að fólk frá nálægum eyjum hefðu komið til San Salvador til að reyna að taka þá til fanga en þeir vörðu sig sem best þeir gátu. Kólumbus taldi að fólk frá meginlandinu kæmi til að setja þá í þrælkun enda taldi þá geta orðið mjög góða þjóna þar sem þeir hlýddu öllu sem áhöfnin sagði mjög snögglega. Kólumbus taldi að það gæti reynst mjög auðvelt að gera frumbyggjana kristna þar sem ekki virtist vera að þeir hefðu neina trú fyrir. Kólumbus taldi að ríkið Cipangu, eða Japan, væri í nágrenni San Salvador en þar átti einmitt allt að vera morandi í gulli og silfri. Því dvaldi Kólumbus ekki lengi á San Salvador. Hann sigldi milli nokkurra smáeyja í þeirri von að finna Cipangu alveg þangað til hann kom að Kúbu sem hann taldi þá vera Cipangu. Fljótlega var hann samt kominn á þá skoðun að þetta land sem hann var á væri í Cathay, eða Kína, en það var einnig rangt. Kólumbus fann aldrei Cipangu.
Þann 16. janúar 1493 sneri Kólumbus til baka, ásamt hluta af upphaflegu áhöfninni. Heimförin gekk erfiðlega fyrir sig en meðal annars missti Kólumbus Santi Maríu og skip hans Niña varð viðskila við Pintu á leiðinni. Niña náði þó til bæjarins Santa Maria á Asoreyjum þann 18. febrúar og svo til Evrópu 4. mars. Kólumbus hlaut frægð fyrir ferð sína og uppgötvun og var því gerður að landstjóra yfir eyjunum sem fundust.
Seinni ferðir Kólumbusar
[breyta | breyta frumkóða]Kólumbus fór samtals þrjár ferðir yfir Atlantshafið til eyjanna í Karíbahafi og var alltaf fullviss að hann hefði siglt til Asíu. Hann sigldi til Trínidad og meginlands Suður-Ameríku áður en hann kom aftur til Hispaniola sem er Haití og Dóminíska lýðveldið í dag. Þegar þangað kom höfðu innfæddir risið upp gegn Evrópumönnunum. Aðstæður á Hispaníólu voru svo slæmar að spænsk stjórnvöld þurftu að senda nýjan landstjóra til að taka við af Kólumbusi. Kólumbus var handtekinn og snéri aftur til Spánar. Eftir að honum var sleppt fór hann í sína seinustu ferð til Ameríku og fór þá til Panama.
Árið 1479 hitti hann bróður sinn Bartolomeo í Lissabon. Hann giftist þar og settist að, þar til konan hans lést árið 1485. Kólumbus og sonur hans fluttu til Spánar eftir andlát eiginkonu hans og þar leitaði hann að fjárstyrk sem myndi fjármagna fleiri könnunarleiðangra í vestri.
Arfleið Kólumbusar
[breyta | breyta frumkóða]Ferðir Kólumbusar spurðust út um alla Evrópu. Á siglingaferli sínum þá uppgötvaði hann Hispaniolu og kom á fót nýlendu Evrópumanna þar. Sonur og bróður Kólumbusar skrifuðu með honum tvær bækur. Fyrsta bókin kom út árið 1502 og fjallaði um laun sem Kólumbus taldi sig eiga inni hjá spænsku krúnunni. Seinni bókin kom út árið 1505. Í þeirri bók notaði hann kafla úr bíblíunni til þess að útskýra afrek sín sem landkönnuður og settu þau í samhengi við kristna trú.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Christopher Columbus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. Apríl 2006.
- Royal Museums Greenwich. (e.d.) Christopher Columbus. Sótt 26. apríl, 2018 https://www.rmg.co.uk/discover/explore/christopher-columbus-0
- The Famous People. (e.d.) Cristopher Columbus Biography. Sótt 26. apríl, 2018 https://www.thefamouspeople.com/profiles/christopher-columbus-3854.php