Constantin Stanciu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Constantin Stanciu (f. 24. september 1907 - d. 27. mars 1986) var rúmenskur knattspyrnumaður. Hann varð margfaldur meistari í heimalandi sínu og lék einnig með góðum árangri fyrir landsliðið þar á meðal á fyrstu heimsmeistarakeppninni í Úrúgvæ árið 1930.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Stanciu fæddist í Búkarest og hóf aðeins sextán ára gamall að leika fyrir Venus Búkarest, eitt sigursælasta félag Rúmeníu á árunum milli heimsstyrjaldanna. Hann var á mála hjá Venus-liðinu frá 1923 til 1935 ef undan er skilin leiktíðn 1926-27 þegar hann gekk til liðs við Fulgerul CFR Chișinău í óþökk gamla félagsins og knattspyrnusambandsins. Slík brot á félagaskiptareglum urðu að lokum til þess að liðið var sett í keppnisbann og Stanciu gekk aftur í raðir Venus Búkarest þar sem hann varð rúmenskur meistari árin 1929, 1932 og 1934. Síðar gekk hann til liðs við erkióvinina í Juventus Búkarest frá 1935 til 1939 og lauk loks ferlinum hjá Metalosport Búkarest.

Landsleikir Stanciu urðu átta eða níu talsins á tímabilinu 1929-31 (heimildum ber ekki saman). Hann tók þátt í þremur af sex leikjum Rúmeníu í Balkan-keppninni 1929-31, sem lauk með sigri Rúmena.

Rúmenía sendi lið til keppni á HM 1930 í Úrúgvæ, eitt fárra Evrópulanda. Stanciu skoraði annað mark Rúmena í 3:0 sigri á Perú í fyrsta leik en liðið sá aldrei til sólar á móti heimamönnum í seinni leiknum og tapaði 4:0.

Tveir síðustu landsleikir Stanciu voru árið 1931 í Mið-Evrópukeppni áhugamannaliða sem fram fór á árabilinu 1931-34. Rúmenar fóru þar með sigur af hólmi.

Stanciu reyndi fyrir sér um skamma hríð sem knattspyrnuþjálfari á sjötta áratugnum. Hann lést í Búkarest árið 1986.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]