Fara í innihald

Byltingin 1809

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Byltingin 1809 var valdarán breska sápukaupmannsins Samuels Phelps og Jörundar hundadagakonungs á Íslandi sem hófst með handtöku Trampe stiftamtmanns 25. júní 1809 og lauk 19. ágúst sama ár.

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1807 gerðu Bretar árás á Kaupmannahöfn og hertóku danska flotann. Danir gengu þá í bandalag með Frökkum í Napóleonstyrjöldunum. Bretar settu hafnbann á Napóleón og bandamenn hans og voru 18 íslensk skip hertekið 1807 og flutt til Bretlands en það var um helmingur þeirra skipa sem sigldi til Íslands. Nokkrir Íslandskaupmenn sem voru á herteknu skipunum , þar á meðal Bjarni Sívertsen fóru til London til að fá skipin úr haldi og það tókst með því skilyrði að kaupmennirnir keyptu bresk leyfisbréf sem heimiluðu þeim kaupsiglingar milli Íslands og Danmerkur með viðkomu í breskum höfnum. Aðeins eitt kaupskip sigldi til Íslands 1808.

Bjarni Sívertsen hitti Jörgen Jörgenson (Jörund hundadagakonung) í London haustið 1808 en Jörgen var þá breskur stríðsfangi sem þó fékk að ganga laus en hann hafði verið skipstjóri á dönsku sjóræningjaskipi (privateer) sem var hertekið. Bjarni sagði Jörgen frá að á Íslandi væru miklar tólgarbirgðir. Jörgen hitti fulltrúa frá sápugerðarfyrirtæki sem vantaði mikið tólg í sápu og sækir það fyrirtæki um leyfi breskra stjórnvalda til verslunarleiðangurs til Íslands til að kaupa tólg. Fékkst það leyfi og var farið til Íslands á einu skipi og var Jörgen með sem túlkur fyrir ensku kaupmennina. Leiðangursskipið Clarence og kom til hafnar í Hafnarfirði 12. janúar 1809 og tókst að fá leyfi til að versla. Jörgen hélt svo aftur til Bretlands en Savignac starfsmaður sápufyrirtækisins varð eftir á Íslandi. Sápugerðarfyrirtækið í London sótti þá um leyfi til að senda tvö önnur skip til Íslands og aðaleigandi sápugerðarinnar Samuel Phelps stjórnaði leiðangrinum. Á þessum tíma gátu Bretar ekki verslað við meginland Evrópu vegna hafnbanns Napóleons og vildu því finna aðrar leiðir til að ná í vörur.

Trampe stiftamtmaður handtekinn og Jörundur stjórnar landinu

[breyta | breyta frumkóða]

Trampe stiftamtmaður á Íslandi kom í millitíðinni frá Danmörku og hann ógilti verslunarleyfi bresku tólgarkaupmannanna og hengdi 19. janúar upp auglýsingu sem bannaði Íslendingum að versla við útlendinga að viðlagðri dauðarefsingu. Savignac óskaði eftir aðstoð frá bresku herskipi og neyddi skipherra herskipsins Trampe til samninga um frjálsa verslun milli Íslands og Bretlands og var sá samingur undirritaður 16. júní. Herskipið fór og skip tólgarkaupmannanna komu til Íslands nokkru seinna. Þá hékk ennþá uppi auglýsing um að verslun við útlendinga væri bönnuð en hvergi minnst á samninginn frá 16. júní og enginn innlendur þorði því að versla við ensku kaupmennina. Phelps ákveður að handtaka Trampe og var það gert 25. júní eftir messu. Jörgen Jörgensen tekur í kjölfarið að sér stjórn landsins og tólgarviðskiptin gengu vel.

Leiðangur Phelps sigldi frá landinu á tveimur skipum með Trampe sem stríðsfanga, annað skipið sökk en öllum var bjargað. Trampe var boðið frelsi en hann neitaði því hann vildi fara til London og kæra byltinguna fyrir bresku ríkisstjórninni.