Fara í innihald

Byggðasafn Skagfirðinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Glaumbæjarsafn, Áshús til vinstri, torfbærinn fyrir miðju og Gilsstofa til hægri.
Glaumbær.

Byggðasafn Skagfirðinga er byggðasafn sem stofnað var árið 1948 og fékk til afnota gamla bæinn í Glaumbæ á Langholti. Þar er miðstöð minjavörslunnar í Skagafirði.

Búið var í torfbænum í Glaumbæ til ársins 1947 en þá tók Þjóðminjasafnið við bænum.[1] Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948 fékk afnot af bænum og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952.[2] Á sýningunni í bænum er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi.[3]

Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. Áshús er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977, en reist í Glaumbæ 1991.[4] Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla.

Gilsstofa var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk.[5][2]

Árið 1998 fékk safnið Minjahúsið á Sauðárkróki til afnota. Þar er önnur fastasýning safnsins, á gömlum verkstæðum af Króknum, og sérsýningar.[6] Þar eru einnig skrifstofur fyrir starfmenn sem annast rannsóknir, varðveislu og miðlun og þar er aðalgeymsla safnins. Glaumbæjarsafn hefur sett upp fjölda sýninga í Skagafirði, s.s. á Hólum og Hofsósi og gefið út margvíslegt efni um menningu skagfirskra byggða.[7]

Byggðasafn Skagfirðinga

  1. „Glaumbær“. Þjóðminjasafn Íslands (enska). Sótt 21. apríl 2024.
  2. 2,0 2,1 „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
  3. „Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ“. www.bbl.is. Sótt 21. apríl 2024.
  4. Bjorn (9. febrúar 2019). „GLAUMBAER SKAGAFJORDUR FOLK MUSEUM“. NAT (bandarísk enska). Sótt 21. apríl 2024.
  5. „19th Century Timber Buildings“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
  6. „Eldri sýningar“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
  7. Feykir. „Byggðasafn Skagfirðinga 75 ára“. Feykir.is. Sótt 21. apríl 2024.