Byggðasafn Skagfirðinga
Byggðasafn Skagfirðinga er byggðasafn sem stofnað var árið 1948 og fékk til afnota gamla bæinn í Glaumbæ á Langholti. Þar er miðstöð minjavörslunnar í Skagafirði.
Búið var í torfbænum í Glaumbæ til ársins 1947 en þá tók Þjóðminjasafnið við bænum.[1] Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948 fékk afnot af bænum og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952.[2] Á sýningunni í bænum er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi.[3]
Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. Áshús er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977, en reist í Glaumbæ 1991.[4] Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla.
Gilsstofa var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk.[5][2]
Árið 1998 fékk safnið Minjahúsið á Sauðárkróki til afnota. Þar er önnur fastasýning safnsins, á gömlum verkstæðum af Króknum, og sérsýningar.[6] Þar eru einnig skrifstofur fyrir starfmenn sem annast rannsóknir, varðveislu og miðlun og þar er aðalgeymsla safnins. Glaumbæjarsafn hefur sett upp fjölda sýninga í Skagafirði, s.s. á Hólum og Hofsósi og gefið út margvíslegt efni um menningu skagfirskra byggða.[7]
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Glaumbær“. Þjóðminjasafn Íslands (enska). Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ 2,0 2,1 „Ábúendur í Glaumbæ“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ „Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ“. www.bbl.is. Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ Bjorn (9. febrúar 2019). „GLAUMBAER SKAGAFJORDUR FOLK MUSEUM“. NAT (bandarísk enska). Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ „19th Century Timber Buildings“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ „Eldri sýningar“. Byggðasafn Skagfirðinga. Sótt 21. apríl 2024.
- ↑ Feykir. „Byggðasafn Skagfirðinga 75 ára“. Feykir.is. Sótt 21. apríl 2024.