Brunnklukka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brunnklukka

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur: Skordýr (Insecta)
Undirflokkur: Vængberar (Pterygota)
Innflokkur: Nývængjur (Neoptera)
Ættbálkur: Bjöllur (Coleoptera)
Undirættbálkur: Adephaga
Yfirætt: Caraboidea
Ætt: Brunnklukkuætt (Dytiscidae)
Ættkvísl: Agabus
Tegund:
A. bipustulatus

Tvínefni
Agabus bipustulatus
Linneus (1767)
Samheiti
  • Dytiscus bipustulatus Linnaeus, 1767
  • Agabus solieri Aubé, 1837

Brunnklukka[1] (eða brúnklukka) (fræðiheiti: Agabus bipustulatus) er bjalla af brunnklukkuætt, og er t.d. algeng í vötnum, keldum og tjörnum á Íslandi. Brunnklukkur eru svart- eða brúnleitar og eru allstórar bjöllur, sundfættar, og geta skotist áfram með miklum hraða í vatni. Meðan þær eru lirfustigi kallast þær vatnskettir og hafa sterkar griptengur á höfðinu.

Brunnklukkur eru flatar á skrokkinn og mjög sléttar utan, og bæði lirfan, þ.e. vatnskötturinn, og þær sjálfar eru hin mestu rándýr og lifa á öllum þeim smádýrum, sem þær ráða við. Þær dveljast í vötnum, en synda upp undir yfirborð vatnsins og taka þar loft undir skjaldvængina og synda svo sem hraðast til botns aftur. Fálmarar þeirra eru með 11 liðum, fæturnir oftast 5 liða, og öftustu fæturnir eru hærðir, og eru sundfætur, mjög sterkbyggðar. Um nætur fer brunnklukkan úr vatninu og flýgur.

Brunnklukkan var talin eitruð á Íslandi lengi vel. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir þannig frá eituráhrifum hennar:

Þá er brúnklukkan. Hún er allt að því þumlungur á lengd, svört á lit með hvítan díl að aftan og lifir í vatni. Hún er svo eitruð, að hverri skepnu, sem gleypir hana að óvörum ofan í sig er vís bani búinn, því hún smýgur í gegnum innyflin þangað til hún læsir sig inn í lifrina og hættir ekki fyrr en hún hefur étið hana upp, enda deyja menn og málleysingjar, þegar svo er komið, ef henni verður ekki ælt upp áður. Ekki þurfa menn að hugga sig með því, að hún drepist í hitanum niðri í manni, því sagt er, að hún þoli þrjár grasagrautarsuður. Það er brúnklukkunni til málsbóta, að aldrei á annað illyrmi að haldast við í því vatni, sem hún er í. [2]

Vatnskötturinn fær samskonar lýsingu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikilífverur eru með efni sem tengist
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.