Jökulsárlón

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hnit: 64°03′08″N 16°21′37″V / 64.05222°N 16.36028°A / 64.05222; 16.36028

Jökulsárlón.

Jökulsárlón er lón við rætur Breiðamerkurjökuls í suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Úr lóninu rennur Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Það er 284 metrar að dýpt samkvæmt mælingum frá 2009.[1] Eftir framhlaup Breiðamerk­ur­jök­uls dýpkaði lónið og varð þar með dýpra en Öskjuvatn.[1]

Jökulsárlón er ungt lón og fór að myndast eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa eftir 1933. Áður rann áin beint undan jökli og til sjávar. Breiðamerkursandur var fyrr á öldum töluvert breiðari en hann er nú því bæði hefur sjór brotið af honum og einnig náði jökullinn skemmra fram á sandinn. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um sandinn 1756 töldu þeir um eina danska mílu (7,5 km) milli jökuls og sjávar. Á næstu áratugum skreið jökullinn mjög fram og þegar Sveinn Pálsson fór um sandinn 1794 taldi hann aðeins um 2 km milli jökuls og sjávar. Þegar jökullinn skreið fram hefur hann líklega grafið sig djúpt ofan í gljúp jarðlög og þegar hann fór að hopa aftur á 4. áratug 20. aldar myndaðist lón þar sem hann hafði grafið sig niður.

Sérstaða Jökulsárlóns orsakast af stærð þess og nálægð þess við sjóinn. Á flóði streymir saltur og hlýr sjórinn inn í jökullónið og veldur því að sá hluti ísjakanna sem er ofan í vatninu bráðnar hraðar en sá er upp úr stendur, öfugt við það sem alla jafna gerist í öðrum jökullónum. Ísjakarnir missa því smám saman jafnvægið og velta sér við í lóninu til að finna stöðugleika á ný. Þetta getur gerst snögglega og skal ávallt hafa í huga við siglingar á lóninu. Þegar jaki hefur nýlega velt sér vísar tær hluti hans, sem áður var á kafi, upp og er gjarnan dökk- eða heiðblár á lit vegna þess hvernig ljós brotnar þegar það skín í gegnum nánast loftlausan ísinn. Eftir að þessi hluti hefur verið í sólarljósi í nokkrar klukkustundir byrjar yfirborð íssins að þenjast út og springa svo loft kemst á milli. Slíkt loft-fyllt yfirborð endurkastar hvítu, líkt og alda sem brotnar í sjónum eða froða.

Lónið sjálft er líka blátt á lit, en ekki brúnt eins og önnur jökullón og jökulár. Það hefur sennilega bæði að gera með það magn af sjó sem streymir inn í lónið og einnig stærð lónsins, sem er nú um 20 ferkílómetrar. Setið sem jafnan fylgir jökulvatni hefur því ráðrúm til að sökkva til botns.

Panorama af Jökulsárlóni.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Jökulsárlón tekið við sem dýpsta vatn Íslands“. Morgunblaðið . Sótt 22. mars 2020.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.