Fara í innihald

Bragfræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bragfræði er sú undirgrein bókmenntafræði, sem fjallar um uppbyggingu hefðbundins kveðskapar, svo sem dróttkvæða, Eddukvæða og rímnahátta og hefur verið hluti ljóðagerðar frá örófi alda. Íslensk bragfræði hefur strangar reglur um ljóðstafi, hrynjandi og rím, auk þess hvernig skýra megi heiti og kenningar orða. Skáldskaparmál Snorra-Eddu fjallar m.a. um bragfræði.

Ljóðstafir[breyta | breyta frumkóða]

Ljóðstafir skiptast í stuðla og höfuðstafi, og eru svipuð eða eins hljóð í upphafi atkvæða, sem eru endurtekin með reglulegu og taktföstu millibili til þess að tengja eina eða tvær ljóðlínur saman. Stuðlar geta verið einn eða tveir (fer eftir bragarhætti) og standa ávallt saman í línu, en höfuðstafur er ávallt einn og fylgir ýmist í næstu línu á eftir eða aftast í sömu línu (fer eftir bragarhætti). Sérhljóðar stuðla hver við annan og stundum líka við „j“ (einkum í fornum kveðskap) en samhljóðar stuðla saman (r-r, l-l o.s.frv.). Um orð sem byrja á „s“ gilda sérstakar reglur, og fer rétt stuðlasetning eftir hljóðunum sem á eftir koma þannig að orðin byrji á sams konar hljóðum. Sérreglur um s eru þær að sk- stuðlar eingöngu við sk-, sp- við sp- og st- við st-. Þetta kallast gnýstuðlar. Þannig stuðlar orðið „strákur“ við „stelpa“ eða „starf“ en ekki við t.d. „slæpingi“ eða „skíði“. Vegna mismunandi framburðar eftir landshlutum þykir mörgum rangt/ljótt að stuðla „hv-“ saman við „kv-“ þótt flestir beri hljóðin eins fram. Það fer eftir lengd ljóðlínu og hrynjandi hvar stuðlar eiga að vera.

Dæmi um rétt stuðlaða vísu (stuðlar og höfuðstafir feitletraðir):

Það minn uggir þankabás,
það við stuggi mörgum,
fara í muggu frá Laufás
fram að Skuggabjörgum.

(Gömul vísa úr Höfðahverfi, höfundur óþekktur og beygir Laufás ekki skv. nútímavenju).

Hrynjandi[breyta | breyta frumkóða]

Hrynjandi er taktur sem þarf að gæta að til þess að ljóð fylgi bragfræðireglum. Hrynjandi er vanalega talin í taktbilum sem kallast kveður sem geta verið „rísandi“ eða „hnígandi“ eftir því hvort áhersluatkvæði er fyrst eða síðast í viðkomandi kveðu. Fyrsta kveða í braglínu er kölluð hákveða, og svo skiptast á hákveður og lágkveður. Stundum kemur áherslulaus forliður á undan fyrstu kveðu. Kveður kallast tvíliður eða þríliður eftir atkvæðafjölda. Bragarháttur kveður á um hvernig hrynjandin á að vera og hvernig stuðlar og höfuðstafir raðast á kveður, en ávallt gildir að ekki má vera of langt á milli ljóðstafa, stuðlarnir mega ekki vera báðir í lágkveðu (í ferskeyttum háttum verður annar þeirra að vera í síðustu hákveðu) og höfuðstafur er alltaf í fyrstu hákveðu.

Dæmi um vísu með hnígandi tvíliðum með einföldum forlið í þrem fyrstu línum (áherslusérhljóði feitletraður):

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar,
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.

(Grímur Thomsen: „Skúlaskeið“)

Rím[breyta | breyta frumkóða]

Það er kallað að tvö orð rími þegar þau hljóma eins að hluta til, t.d. fiskur-diskur, hús-mús o.s.frv. Í fornum íslenskum kveðskap, t.d. dróttkvæðum, var rím ávallt innan línu (lárétt innrím) og var þá gjarnan hálfrím í oddatölulínu og heilrím í línum með sléttum tölum.

Endarím í norrænum kveðskap er talið koma til sögunnar með Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar, sem er ort undir hrynhendum hætti og gæti verið undir áhrifum frá keltneskum kveðskap, þar sem endarím er mun eldra, en Egill átti írska fóstru. Rímuð orð enda oftast eins, en í innrími er nóg að áhersluatkvæði í orðunum rími. Það er kallað lóðrétt innrím þegar sama innrímið er í mörgum línum, t.d. í hringhendum hætti.

Þegar eitt atkvæði rímar kallast það karlrím (kann-mann), þegar tvö atkvæði ríma kallast það kvenrím (kanna-manna) og þegar þrjú atkvæði ríma er það kallað veggjað rím (kannana-mannanna). Hálfrím eru hljóð sem hljóma svipað en ekki eins. Í sérhljóðshálfrími, sem er mun algengara í flestum íslenskum kveðskap, breytist áherslusérhljóð (fiskur-fauskur, sverð-orð) en í samhljóðshálfrími, sem helst heyrist í vikivökum og þulum, og í seinni tíð í rappi, breytast samhljóðar (fiskur-frystur, hoppa-hotta).

Bragarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Enginn hefur tölu á þeim bragarháttum sem fyrirfinnast í íslenskum kveðskap. Þó er hægt að flokka þá í yfir- og undirflokka. Til forna voru dróttkvæði með láréttu innrími, og órímuð Eddukvæði (svo sem ljóðaháttur og fornyrðislag) langalgengustu hættirnir, síðan bættist endarímuð hrynhenda við á tíundu öld. Þulur eru einnig forn og fremur frjálslegur bragarháttur. Á miðöldum kom ferskeytlan fram, svo og braghenda og afhending. Óteljandi undirtegundir eru til af þessum háttum, með tilbrigðum í endarími, innrími og lengd á braglínum. Á síðmiðöldum komu einnig fram fleiri hættir, svo sem vikivakalag og ýmsir sálmahættir, og á rómantíska tímanum bættist við urmull fleiri hátta, flestra erlendra að uppruna, svo sem sonnetta, pentametur og hexametur. Á tuttugustu öld losnuðu bönd bragfræðinnar af íslenskum skáldum og menn fóru að yrkja þannig að þeir notuðu reglur bragfræðinnar eins og þeim sjálfum hentaði, eða alls ekki, t.d. Atómskáldin.

Heiti og kenningar[breyta | breyta frumkóða]

Í bragfræði er heiti sama og samheiti og kenning er umorðun í tveim eða fleiri orðum, til þess að skáldið geti sagt það sem það vill segja og látið það lúta reglum um stuðlasetningu, hrynjandi og rím. Heiti fyrir konung getur til dæmis verið herra, jöfur (það sem hann er) eða ríkir, ræsir eða stillir (það sem hann gerir). Gull getur til dæmis verið kennt sem jötna mál, eldur Rínar eða Kraka sáð, sem allt eru vísanir í goðsögur, fornaldarsögur eða önnur forn fræði og kvæði.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]