Fara í innihald

Hringhenda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hringhenda er tegund af ferskeytlu sem einkennist af lóðréttu innrími í fyrstu lágkveðu í hverri ljóðlínu. Hún er því dýrar kveðin en óbreytt ferskeytla og er svo vinsæl meðal hagyrðinga að til eru margar vísur um hvað hún sé falleg. Hér er innrímið feitletrað til að sýna það skýrt:

Andans þvinga eg flugi frá
flest, sem þyngir muna.
Ljóðakynngi læt því á
leika hringhenduna.
Hún á slungið háttamál,
hljóms við þungar gátur,
harmi þrungin, hvell sem stál,
hlý sem ungbarnsgrátur.
Hún ber sálarheimi frá
heflað mál í bögur,
bragar hálum ísum á,
unaðsþjál og fögur.
Hugans kenndir hlýjandi
hljóms á vendingunum
hún fer endurómandi
eftir hendingunum.
(höf. Sveinbjörn Björnsson, 1855-1931)

Hringhenda er ekki takmörkuð við ferskeytlur með venjulegustu hrynjandi eða rími, heldur kallast það líka hringhendur, eða hringhent rím, í afbrigðum ferskeytlunnar, eins og breiðhendu eða langhendu, sem hafa aðra hrynjandi, eða í ferskeyttum háttum með öðru rími en víxlrími, svo sem samhendu eða stafhendu. Hér er stafhenda hringhend með feitletruðu innríminu:

Hlýyrt fagnar heimaöld
hópi bragna þetta kvöld.
Veizlu magna vífin þá,
virðum hagnar beini sá.
(höf. Sveinbjörn Beinteinsson, 1924-1993)