Borgarfjörður eystri
- Sjá einnig greinina „Borgarfjörð“.
Borgarfjörður eystri eða Borgarfjörður eystra[1] er fjörður og byggðalag á norðanverðum Austfjörðum. Þar er þorpið Bakkagerði, sem oftast er kallað Borgarfjörður eystri í daglegu tali, með 88 íbúa (2015). Borgarfjörður er í Borgarfjarðarhreppi, sem einnig nær yfir nálægar víkur og eyðifjörðinn Loðmundarfjörð.
Inn af firðinum er vel gróinn dalur sem nær um 10 kílómetra inn í Austfjarðafjallgarðinn. Eftir honum rennur Fjarðará. Nokkrir bæir eru í byggð í sveitinni og er þar aðallega stundaður sauðfjárbúskapur. Á Bakkagerði er nokkur smábátaútgerð.
Á Borgarfirði eystra er falleg fjallasjón. Helstu fjöllin eru Dyrfjöll, Staðarfjall, Geitfell og Svartfell. Fjöllin eru úr ljósu líparíti sunnan fjarðar en Borgarfjörður er á mótum líparít- og blágrýtissvæðis og fyrir botni fjarðarins og þó einkum norðan hans er blágrýti mest áberandi. Í firðinum þar má finna mikið af fallegum steinum. Steinasöfnun er þó bönnuð almenningi.
Á meðal þekktra einstaklinga sem tengjast Borgarfirði eystra má nefna Jóhannes Kjarval, listmálara, sem ólst upp í Geitavík. Til minningar um hann er Kjarvalsstofa í félagsheimilinu Fjarðarborg. Hann málaði altaristöflu sem er í Bakkagerðiskirkju.
Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður, sem tók þátt í raunveruleikaþættinum Rockstar: Supernova árið 2006, er frá Borgarfirði eystra. Emilíana Torrini tónlistarkona er líka ættuð þaðan. Aðgerðasinninn Birna Þórðardóttir er fædd og uppalin á Borgarfirði eystra.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6086[óvirkur tengill] Hvort er réttara að segja Borgarfjörður eystri eða Borgarfjörður eystra? Vísindavefurinn, skoðað 7. október 2010.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Örnefni í Borgarfirði eystra Geymt 15 apríl 2011 í Wayback Machine
- Borgarfjörður eystri — Vefsíða Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
- borgarfjordureystri.com/ Geymt 16 nóvember 2016 í Wayback Machine