Birna Þórðardóttir
Birna Þórðardóttir (f. 26. febrúar 1949) er íslenskur félagsfræðingur, ritstjóri, ljóðskáld, aðgerðarsinni og leiðsögumaður. Hún er kunnust fyrir þátttöku sinni í róttækri samfélagsbaráttu 68-kynslóðarinnar.
Æska og uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Birna Þórðardóttir fæddist á Borgarfirði eystri, dóttir hjónanna Þórðar Jónssonar og Sigrúnar Pálsdóttur. Myndlistarmaðurinn Kjarval var fjölskylduvinur og tíður gestur á heimilinu, fékk Birna ung það hlutverk að færa honum mat í vinnuaðstöðu hans í barnaskóla þorpsins.[1]
Hún tók landspróf frá Eiðaskóla og innritaðist því næst í Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún útskrifaðist sem stúdent vorið 1968. Víetnamstríðið stóð sem hæst og hafði það mikil áhrif Birnu, sem fór að taka virkan þátt í róttæku pólitísku starfi.[2]
Byltingarárið 1968
[breyta | breyta frumkóða]Eftir stúdentspróf fluttist Birna til Reykjavíkur þar sem hún innritaðist í Háskóla Íslands. Þá um sumarið braust út mikil róttæknisbylgja þar sem félagar í Æskulýðsfylkingunni (sem almennt gekk undir nafninu Fylkingin) voru áberandi í hvers kyns mótmælum, sem oft leiddu til harkalegra átaka við lögregluna. Birna varð áberandi í mörgum þessara aðgerða, birtist á blaðaljósmyndum og öðlaðist fyrir vikið allnokkra frægð.
Til harðra átaka kom í tengslum við ráðherrafund Nató sem fram fór á Háskólasvæðinu, þar sem mótmælendur voru beittir hörku. Á 50 ára afmælisdegi útgáfu skáldsögunnar Barn náttúrunnar, sem fram fór í Háskólabíói fór Birna óboðin í ræðustól, afhenti Halldóri Laxness blómvönd og flutti því næst ræðu um stöðu mála í Víetnam.[3] Aftur lét Birna til sín taka í Háskólabíói um miðjan desember þegar hún var handtekin fyrir að kasta eggjum í hljómsveit bandaríska og kanadíska flughersins sem þar hélt tónleika.[4]
Hörðustu átök ársins 1968 áttu sér stað rétt fyrir jól. Þann 21. desember stöðvaði lögreglan göngu félaga í Æskulýðsfylkingunni í kjölfar fundar í Tjarnarbúð. Í átökunum var Birna barin með lögreglukylfu í höfuðið og vöktu myndir af henni alblóðugri í dagblöðum og sjónvarpsfréttum mikla athygli. Birna varð á svipstundu einhver kunnasti mótmælandi Íslands, en fulltrúar lögreglunnar sökuðu hana á móti um að hafa veitt lögreglumanni hraustlegt pungspark í stympingunum.[5]
Bóhemalíf og heimshornaflakk
[breyta | breyta frumkóða]Athyglin og umtalið sem hlaust af mótmælum haustmisserisins 1968 urðu til þess að Birna gerði hlé á háskólanáminu en var næstu árin langdvölum í Evrópu, bæði í Berlín og Róm, auk þess sem hún fór alla leið til Norður-Kóreu á vegum kommúnistasamtaka, ein sárafárra Íslendinga til að heimsækja landið á þeim árum. Hún komst í vinfengi við fjöllistakonuna Rósku og urðu þær hálfgert tvíeyki í stjórnmála- og listalífi næstu ára.
Eftir að Birna kom aftur heim til Íslands gekk hún í hjónaband með Guðmundi Ingólfssyni, djasspíanóleikara og var Blús fyrir Birnu, upphafslag plötu hans Nafnakall, tileinkað henni. Þau skildu eftir átta ára samband.
Birna sinnti ýmsum störfum í gegnum tíðina, var m.a. ritstjóri Læknablaðsins um árabil.[6] Hún hélt áfram að vera virk í félagsmálum og var t.a.m. ein af forystukonum Samtaka kvenna á vinnumarkaði, sem voru gagnrýnin á verkalýðshreyfinguna fyrir að sinna lítt um kjör láglaunakvenna. Hún var um skeið formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga og stýrði Alnæmissamtökunum um alllangt skeið.
Upp úr aldamótum stofnaði Birna sitt eigið fyrirtæki, Menningarfylgd Birnu og varð þar með frumkvöðull í að skipuleggja sögu- og menningargöngur um miðborg Reykjavíkur.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ingibjörg Hjartardóttir: Var, er og verður Birna. Mál og menning, 2022. ISBN 978-9979-3-4801-6,bls. 10-20.
- ↑ Sama heimild, bls. 22-36.
- ↑ Gestur Guðmundsson & Kristín Ólafsdóttir: ´68: Hugarflug úr viðjum vanans. Tákn bókaútgáfa, 1987,bls. 266-268.
- ↑ Ingibjörg Hjartardóttir: Var, er og verður Birna,bls. 60-61.
- ↑ Sama heimild,bls. 61-63 & Gestur Guðmundsson & Kristín Ólafsdóttir: ´68: Hugarflug úr viðjum vanans, bls. 267-272
- ↑ „Læknablaðið 9. tbl. 2014“.
- ↑ Ingibjörg Hjartardóttir: Var, er og verður Birna.