Borgarastyrjöldin á Srí Lanka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Almennir borgarar á flótta undan sókn stjórnarhers Srí Lanka í janúar 2009.

Borgarastyrjöldin á Srí Lanka var borgarastyrjöld á Srí Lanka sem hófst með árás Tamíltígra á herdeild úr her Srí Lanka 23. júní 1983 og lauk með sigri stjórnarhersins og dauða leiðtoga tígranna, Velupillai Prabhakaran, 18. maí 2009. Ástæða borgarastyrjaldarinnar var vaxandi mismunun sem bitnaði á tamílskumælandi íbúum landsins sem einkum búa í norður- og austurhéruðunum eftir að landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1948. Á 8. áratug 20. aldar spruttu upp skæruliðahreyfingar tamílskumælandi íbúa sem stefndu að stofnun sjálfstæðs ríkis eða sjálfstjórnarhéraðs Tamíla, Tamíl Ílam. Árið 1983 braust út stríð milli þeirra og stjórnarhersins. Þrátt fyrir tilraunir stjórnarinnar til að mæta kröfum tamílska minnihlutans á 9. áratugnum héldu átökin áfram og á 10. áratugnum stóðu Tamíltígrar fyrir fjölda mannskæðra árása. Átökin hröktu hundruð þúsunda íbúa á flótta. Árið 2001 hófust vopnahlésviðræður að nýju. Flóðbylgjan í Indlandshafi 2004 varð til þess að draga úr átökum. Tamíltígrarnir misstu stuðning sinn utanlands þegar leyniskytta á þeirra vegum myrti tamílska stjórnmálamanninn Lakshman Kadirgamar sem hafði gagnrýnt tígrana árið 2005. Átök hófust aftur í árslok 2005. Ári síðar hóf stjórnarherinn sókn gegn tígrunum í austurhéruðunum og náði Vakarai á sitt vald. 2. janúar 2009 náði stjórnarherinn svo Kilinochchi sem var í reynd höfuðvígi uppreisnarmanna í norðurhéruðunum. Í bardögum í kjölfarið féllu margir af leiðtogum uppreisnarmanna og í maí lýsti stjórnarherinn yfir sigri. 19. maí hélt Mahinda Rajapaksa forseti landsins ræðu í þinginu þar sem hann lýsti því yfir að stríðinu væri lokið.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.