Borgaralaun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Borgaralaun, einnig þekkt sem óskilyrt grunnframfærsla, er hugmynd að samtryggingarkerfi þar sem hverjum borgara er tryggð ákveðin lágmarksinnkoma frá hinu opinbera óháð öðrum tekjum. Borgaralaun eru hugsuð til lífsnauðsynja og hugsuð þannig að greiðslur renni til einstaklinga, ekki heimila eða ákveðinna hópa. Borgaralaunum er ætlað að leysa núverandi velferðarkerfi af hólmi og koma í stað til dæmis örorkubóta, atvinnuleysisbóta, ellilífeyris, námslána, fæðingaorlofs, vaxtabóta, barnabóta. Upphæðin þyrfti að vera það há að hún dugi til að leysa framantalin kerfi af hólmi.

Saga borgaralauna[breyta | breyta frumkóða]

Thomas Paine.

„Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.“ Hugmyndin að skilyrðislausri grunnframfærslu á sér langa sögu innan heimspekinnar og hagfræðinnar en upphafið að hugmyndinni má rekja til ársins 1516 þegar enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More skrifaði bókina Útópíu. Í bókinni lýsir More hugmynd sinni að eins konar fyrirmyndarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með útrýmingu fátæktar frekar en að notast við refsikerfi í samfélagi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með gífurlegum ójöfnuði. More bendir á að þar sem maður sem er að verða hungurmorða lætur ekki hugsanlega refsingu stöðva sig í því að stela til að fæða sig og fjölskyldu sína, væri farsælla að skapa samfélag þar sem enginn væri neyddur til þess að stela sér til matar. Í gegnum árin hafa margir hugsuðir tekið hugmyndir Thomas More og þróað þær áfram í nútímalegri mynd. Mikilvægt skref í þeirri þróun átti sér stað árið 1797 þegar heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Paine lagði fram hugmyndir sínar um borgaralaun í bæklingnum „Agrarian Justice“ en þar fer hann skrefinu lengra en More og fjallar um borgaralaun sem náttúrulegan og meðfæddan rétt allra borgara. Röksemdafærsla hans gengur út frá því að „jörðin, í sínum náttúrulega ham er, og verður alltaf, sameiginleg eign allra jarðarbúa.“ Paine vildi meina að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum landsins. Árið 1918 kom svo út bók Bertrand Russell, heimspekings og Nóbelsverðlaunahafa, sem nefnist „Proposed Roads to Freedom: Socialism, Anarchism, and Syndicalism“. Í þeirri bók kemur hugmyndin að algildri grunnframfærslu fram nánast fullmótuð eins og hún er skilgreind nú.

Umræðan um skilyrðislausa grunnframfærslu náði hámarki í Bandaríkjunum á 7. áratug síðustu aldar þegar 1.200 hagfræðingar, þar á meðal tveir Nóbelsverðlaunahafar, sendu áskorun til Bandaríkjaforseta um að skoða upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu þar í landi. Núna er skilyrðislaus grunnframfærsla til skoðunar hjá mörgum stjórnmálaflokkum í Evrópu, til dæmis flokkum í Noregi, Pírataflokkum víðs vegar um Evrópu, þar með talið á Íslandi og þá gerði Húmanistaflokkurinn hér á landi skilyrðislausa grunnframfærslu að einu af stefnumálum sínum í alþingiskosningunum árið 2013. Upptaka þessa kerfis hefur verið mikið í umræðunni í Sviss og fór fram þjóðaatkvæðagreiðsla um slíka tillögu þar í landi í júní 2016. Var tillögunni hafnað með miklum meirihluta, eða með um 77% greiddra atkvæða[1].

Eiginleikar[breyta | breyta frumkóða]

Starfsfólki mun mögulega fækka mikið í framtíðinni[breyta | breyta frumkóða]

Í bók sinni The end of work færir Jeremy Rifkin rök fyrir því að borgaralaun gætu reynst nauðsynleg þegar vélar og tækni taka yfir fleiri og fleiri störf og draga úr eftirspurn eftir starfsmönnum. [2]

Þess má geta að það er ekki ólíklegt að í framtíðinni muni atvinnulífið breytast verulega, arður fyrirtækja mun verða að skiptast jafnara á milli eigenda og samfélagsins, þar sem þekking er grunnur allrar starfsemi og þekking þróast í skólakerfi allra þjóðfélaga og er þar með þjóðareign. Mun færra fólk mun verða að vera í vinnu hjá öðrum heldur mun hafa mun meira val í skapa sína eigin vinnu, láglaunavinna þurkast út þar sem öll vinna sem þörf verður á mun verða að greiðast á eðlilegum vinnulaunum þar sem enginn verður að taka að sér störf sem ekki eru á launalega samkeppnishæf.

Minnkar opinbert skrifræði[breyta | breyta frumkóða]

Það er mjög mannfrek vinna að að reikna út velferðargreiðslur og skattaafslætti og hafa eftirlit með því að bótaþegar séu ekki að fá bætur sem þeir eiga ekki rétt á. Borgaralaun myndu einfalda kerfið mikið og þörfin fyrir þetta skrifræði myndi minnka stórlega og í flestum tilfellum hverfa með tilheyrandi sparnaði hins opinbera.

Kemur jafnvægi á kostnað[breyta | breyta frumkóða]

Núverandi velferðargreiðslur sveiflast mikið milli ára eftir efnahag til dæmis á Íslandi. Atvinnuleysisbætur voru árið 2007 til að mynda greiddar til umtalsvert færra fólks en árið 2009.[3] Þá er þjóðin að eldast[4] sem krefst hærra framlags vinnandi stétta til að standa við skuldbindingar gagnvart ellilífeyrisþegum.

Eyðir flokkadráttum fólks[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem borgaralaunum er ætlað að leysa núverandi velferðarkerfi af hólmi og koma í stað ýmissa bóta hefðu borgaralaun þau hliðaráhrif að fólk yrði ekki lengur dregið í dilka. Til dæmis yrðu hugtökin "ellilífeyrisþegar" og "öryrkjar" óþörf. Vissulega yrði þó enn til veikt fólk en það fólk þyrfti ekki að gangast við regluverki sem setur það mögulega í fátæktargildru. [5] Ellilífeyrisaldur yrði ekki lengur til, fólki yrði frjálst að vinna svo lengi sem það hefði áhuga og getu til. Þar sem borgaralaun yrðu óskilyrt hefði fólk kost á að gera það sem það getur til að verða sér út um launatekjur.

Eykur nýsköpun og fjölda smáfyrirtæka[breyta | breyta frumkóða]

Margir veigra sér við að hætta launastarfi til að stofna eigið fyrirtæki því fari það fyrirtæki á hausinn missir fólk tekjur sínar. Borgaralaun myndu tryggja þessu fólki innkomu, öryggisnet, sem fólk hefði alltaf undir sér. Þetta yki nýsköpun og samkeppni í hagkerfinu. Vísbendingar um þetta má sjá í tilraun sem gerð var með borgaralaun í Namibíu en þar jókst frumkvöðlastarfsemi þeirra sem fengu greidd borgaralaun auk þess sem tekjur umfram þau jukust um 29%.[6]

Fjölgar fólki í störfum sem því líkar[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem fólk neyðist ekki til að taka hvaða starfi sem er þar sem það hefur trygga grunnframfærslu getur fólk leitað lengur að starfi sem því líkar eða sem borgar nógu vel til að vega á móti ánægjuskorti. Að fleiri séu í starfi sem þeim líkar eykur andlega heilsu vinnandi fólks auk þess sem líklegt er að ánægðir starfsmenn skili betri vinnu og meiri afköstum.[7]

Fjármögnun[breyta | breyta frumkóða]

Félagslega kerfið hefur á síðustu árum verið fjármagnað annarsvegar af beinum greiðslum til einstaklinga og hinsvegar félagslegri þjónustu. Félagslegar beingreiðslur atvinnleysisbætur, barnabætur, ellilífeyrisbætur, vaxtabætur og öryrkjalífeyrir voru um 440 milljarðar króna árið 2013 á Íslandi[8]. Aðrar beingreiðslur frá ríki til einstaklinga eru til dæmis framfærslukostnaður LÍN, beingreiðslur til bænda og listamannalaun, þessar greiðslur teljast yfir 15 milljarðar króna á ári. Þetta gerir 455 milljarða króna sem má nýta beint í borgaralaun. Til viðbótar má bæta 95 miljörðum króna sem ekki hafa verið innheimtar af skattayfirvöldum í formi persónuafsláttar. En við upptöku borgaralauna verður persónuafsláttur að öllum líkindum að hverfa og allir launþegar greiða skatta. Þegar maður leggur saman tölurnar fást 550 milljarðar króna sem grunnur að borgaralaunum. Íslenskir ríkisborgarar yfir 18 aldri eru um 250 þúsund og ef 550 milljörðum króna er deilt á þessa einstaklinga gerir það rúmar 2 milljónir á mann á ári eða um 180 þúsund krónur á mánuði.

Sífellt er að verða almennari hugmynd að auðlindir þjóðarinnar tilheyri allri þjóðinni.[9] Ef auðlindir þjóðarinnar væru í þjóðareign væri hægt í gegnum auðlindaskatt að fjármagna hluta grunnframfærslunnar. Þetta hefur verið reynt með mjög góðum árangri í Alaska fylki í Bandaríkjunum en þar var stofnaður olíusjóður árið 1977 og síðan 1982 hafa allir íbúar fylkisins fengið skilyrðislausa greiðslu úr sjóðnum einu sinni á ári.

Þar sem hugmyndin er að lífeyrissjóðakerfið legðist af væri mögulega hægt að þjóðnýta lífeyrissjóðskerfið og nýta það fé til að greiða borgurum borgaralaun. Oddný G. Harðardóttir talaði um í ræðu á Alþingi þann 16. feb. 2012 „hvaða afleiðingar það getur haft þegar stórir hópar hefja töku lífeyris en færri greiða til sjóðanna þegar aldurssamsetning þjóðarinnar breytist. Í dag er það þannig að það eru ríflega fimm starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni en árið 2050 verða um það bil tveir starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni ef að líkum lætur."[10] Núverandi lífeyrissjóðakerfi hefur verið gagnrýnt fyrir sóun þar sem allt of margir sjóðir starfi hérlendis, hver með sitt starfsfólk og yfirbyggingu.[11] Íslensku lífeyrissjóðirnir stunda áhættufjárfestingar, meðal annars á hlutabréfamarkaði[12] sem geta endað illa[13] sem getur leitt til þess að lífeyrisþegar bera skarðan hlut frá borði.[14]

Ýmsar skattheimtuútfærslur hafa verið nefndar til fjármögnunar borgaralauna eins og til dæmis virðisaukaskattur, færsluskattur af peningatilfærslum og landskattur, skattur sem greiddur er af nýtingu landareignar til tekjuöflunar, fremur en af eignunum á landinu þar eð land er auðlind og því væri samkvæmt hugmyndinni um þjóðareign auðlinda sameign allra.

Charles Murray hélt því fram í riti sínu „Borgaralaun í stað velferðarkerfis" að borgaralaun yrðu bandarískum skattgreiðendum árið 2028 um trilljón dollurum ódýrari en núverandi kerfi muni kosta þá.[15] Sparnaðinn telur hann að muni stafa af minni sóun í bótagreiðslukerfinu, til dæmis myndu bótasvik tilheyrðu fortíðinni og að hið opinbera ræki ekki stofnanir á borð við Vinnumálastofnum eða Tryggingastofnun.

Tilraunir[breyta | breyta frumkóða]

Alaska[breyta | breyta frumkóða]

Í Alaska hófst árið 1977 vinnsla olíu úr stærstu olíulind sem uppgötvuð hefur verið í Norður-Ameríku. Skömmu síðar var gerð stjórnarskrárbreyting sem gerði ríkinu kleift að setja á fót sjóð sem nefnist Alaska Permanent Fund þar sem settur er til hliðar hluti, að minnsta kosti 25%, af tekjum olíuvinnslunnar fyrir komandi kynslóðir. Þegar sjóðurinn var stofnaður var ætlunin að koma í veg fyrir að allar tekjur olíuframleiðslunnar lentu í höndum stjórnmálamanna þar sem óttast var að peningum yrði sóað. Alaska-sjóðurinn er fjárfestingarsjóður með það að markmiði að hagnast um 5% á ári og eru þær fjármagnstekjur sem sjóðurinn fær greiddar út árlega til allra borgara Alaska. Þrátt fyrir að upphæðirnar séu ekki nægilega háar til að duga fyrir grunnframfærslu, 900 dollarar á hvern einstakling árið 2013, er Alaska-sjóðurinn ein birtingarmynd þess hvernig skilyrðislaus grunnframfærsla gæti verið útfærð.[16]

Namibía[breyta | breyta frumkóða]

Í Namibíu var byrjað að rannsaka áhrif skilyrðislausrar grunnframfærslu árið 2007 og stóð sú rannsókn yfir í tvö ár. Rannsóknin var gerð í litlu þorpi sem heitir Otjivero þar sem ríkti gríðarleg fátækt, glæpir voru tíðir og mikið atvinnuleysi. Þar var ákveðið að greiða öllum íbúum svæðisins, að undanskildum þeim sem höfðu náð 60 ára aldri og þá þegar fengu skilyrðislausar lífeyrisgreiðslur frá ríkinu, mánaðarlega upphæð sem næmi helmingi þeirrar upphæðar sem skilgreind var sem fátæktarmörk. Niðurstöður þessarar tilraunar voru margvíslegar. Til dæmis þá fækkaði tilkynntum glæpum til lögreglunnar um 36,5%, hlutfall vannærðra barna féll úr 42% niður í 10%, brottfall úr skólum minnkaði um 42%, atvinnuleysi fór úr 60% niður í 45% og atvinnuþátttaka jókst, meðaltekjur, að undanskildum styrknum, jukust um 29% og fjöldi nýrra fyrirtækja var stofnaður.[17]

Finnland[breyta | breyta frumkóða]

Finnska ríkisstjórnin ákvað árið 2016 að gera tilraun með borgaralaun, þar sem valinn hópur fær 560 evrur mánaðarlega til grunnframfærslu. 2000 manns á vinnualdri verða valin af handahófi til að taka þátt í tilrauninni. Forsætisráðherra Finnlands, Juha Sipila, sem tók við embætti fyrir rúmu ári, vill að tilraunin leiði í ljós, hvort borgaralaun minnki atvinnuleysi og einfaldi bótakerfi Finnlands. [18]

Árið 2018 ákváðu stjórnvöld að hætta við tilraunina. Þau litu til annarra valkosta í velferðakerfinu til úrlausna. [19]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. http://money.cnn.com/2016/06/05/news/economy/switzerland-basic-income-referendum/
 2. Rifkin, Jeremy (1995). The End of Work – The Decline of the Global Labor Force and the Dawn of the Post-Market Era (1st ed.). New York: Tarcher/Putnam. ISBN 978-0874777796.
 3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. mars 2013. Sótt 11. nóvember 2014.
 4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. ágúst 2014. Sótt 11. nóvember 2014.
 5. http://www.obi.is/vefrit/greinar/nr/1123[óvirkur tengill]
 6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. janúar 2015. Sótt 11. nóvember 2014.
 7. http://www.velferdarraduneyti.is/utgefid-efni/utgafa/samantekt-fjolskyldurads-um-malefni-fjolskyldunnar-/nr/1005
 8. „Tölfræði á vef Hagstofu Íslands ná til ársins 2010 en nýrri tölur er hægt að fá sendar í rafpósti, http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Heilbrigdis,-felags-og-domsmal/Utgjold-til-heilbrigdis--og-fela“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2013. Sótt 27. ágúst 2015.
 9. http://www.kosning.is/thjodaratkvaedagreidslur2012/frettir/nr/7990
 10. http://www.althingi.is/altext/raeda/140/rad20120216T185117.html
 11. http://www.althingi.is/altext/raeda/140/rad20120216T175724.html
 12. http://www.vb.is/frettir/111353/[óvirkur tengill]
 13. http://www.ruv.is/frett/tap-lifeyrissjodanna-479-milljardar
 14. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2010/04/15/lifeyrisgreidslur_laekka/
 15. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. júní 2015. Sótt 12. nóvember 2014.
 16. http://www.althingi.is/altext/144/s/0204.html
 17. http://www.althingi.is/altext/144/s/0204.html
 18. Finnar gera tilraun með borgaralaun
 19. Finland's basic income trial falls flat BBC, skoðað 23. apríl, 2018.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]