Beruvík
Beruvík, einnig verið kölluð Bervík af heimafólki, er vík á vestanverðu Snæfellsnesi. Þar var áður útræði en lendingin var hættuleg, oft brimasamt og sæta varð sjávarföllum þegar róið var um sker og grynningar.
Búið var á fjórum bæjum fram á miðja 20. öld. Bæjunum Nýjabúð, Hella, Helludalur og Garðar. Enn má sjá rústir eftir búsetuna svo sem hlaðna garða, steypta veggi og fjárbað og er þar einnig hlaðin fjárrétt við klettinn Klofning.
Sögur og sagnir
[breyta | breyta frumkóða]Ofan þjóðvegarins eru friðlýstar fornleifar af bæjarrúst og túngirðingu. Sagt er að þar hafi Sléttuvellir, landnámsbær Beru verið, sem víkin er kennd við. Suður af Beruvík eru minjar kotbýlisins Litlalóns og nokkru sunnar bæjarins Hólahóla sem var áður höfuðból meðan útræði var enn frá Dritvík og átti sá bær Dritvík.
Hólahólar lagðist í eyði 1880 og síðan hefur huldufólk ráðið þar ríkjum æ síðan að sagt er. Skyggnir menn telja sig verða vara við mikla byggð huldufólks og eru til um sögur. Þannig hafa sumir sem brugðið hafa þar á leik heyrt og fundið mikið lófatak og klapp ofan úr hlíðum Berudals og því meira sem mennskir eru þar færri. Getgátur eru um að saman fari núverandi Hólahólar og eldri nafngift, Aðalþegnshólar er segir frá í Bárðar sögu Snæfellsás.
Heimildir um lifnaðarhæti
[breyta | breyta frumkóða]Útgerðarmaðurinn og rithöfundurinn Karvel Ögmundsson ólst upp í Beruvík. Hann skrifaði bækurnar Sjómannsævi 1 til 3 og er í fyrsta bindinu sagt frá uppvexti hans og er það besta heimildin sem til er um lífið í Beruvík í upphafi 20. aldar.
Hvalreki
[breyta | breyta frumkóða]Í lok mars árið 2012 rak búrhval á land í Beruvík. Hvalurinn var heillegur og allar tennur í honum. Daginn eftir að fréttist af hvalnum var búið að saga fremri hluta kjálkans af og síðar sama dag var búið að taka allan kjálkann.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Ferðafélag Íslands, Árbók 1982. (Ísafoldarprentsmiðja hf. 1982)
- Fornleifaskrá