Fara í innihald

Bjólfskviða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Beowulf)
Fyrsta síðan í handriti Bjólfskviðu, molnað hefur af spássíunum.

Bjólfskviða, sem á ensku heitir Beowulf, er engilsaxneskt eða fornenskt miðaldakvæði sem segir af hetjunni og stríðsmanninum Bjólfi og viðureign hans við risann Grendil, móður Grendils og síðar við dreka, þegar hann er orðinn konungur í Gautlandi. Bjólfskviða var skrifuð á Englandi en sögusviðið er Skandinavía á 8. eða 9. öld. Kviðan er söguljóð um atburði og hetjur fortíðar. Bjólfskviða er eitt af höfuðritum fornenskrar tungu, en höfundur er ókunnur.

Ástæðan fyrir því að danskar og norrænar sagnir eru í þessu fornenska handriti, er sú að danskir og norskir menn höfðu hertekið og numið land víða á Englandi, einkum í Danalögum, og hafa sagnirnar borist með þeim. Að lokum náðu Danakonungar Englandi á sitt vald, Sveinn tjúguskegg 1013–1014 og Knútur ríki 1016–1035.

Kvæðið er 3183 línur og hefur aðeins varðveist í einu handriti, sem talið er frá því um 1000. Handritið er í safni Robert Bruce Cottons í British Library og ber nafnið Cotton Vitellius A XV, eða Nowell Codex, eða einfaldlega Handrit Bjólfskviðu þó að fleiri ritverk séu í því. Árið 1731 lenti handritið í eldsvoða og sviðnaði og skemmdist, sem varð til þess að á 18. og 19. öld molnaði utan af spássíunum svo að nú vantar víða bókstafi og orð eða þau eru ólæsileg.

Grímur Jónsson Thorkelín skrifaði fyrstur upp handritið um 1787, þegar hann vann að sagnfræðirannsóknum á Englandi fyrir dönsk stjórnvöld; hann gaf Bjólfskviðu svo út 1815. Grímur hafði tvö eftirrit með sér til Danmerkur, annað gerði hann sjálfur, en hitt eftirritið fékk hann starfsmann British Museum til að gera, líklega James Matthews. Vegna síðari skemmda á frumhandritinu er uppskrift Thorkelíns mikilvæg fyrir þá sem rannsaka Bjólfskviðu.

Halldóra B. Björnsson hefur þýtt Bjólfskviðu á íslensku, og kom kviðan út hjá Fjölva árið 1983. Í þýðingunni reynir Halldóra að fylgja bragarhætti fornenska textans, sem er náskyldur fornyrðislagi.

Kvikmyndin Bjólfskviða byggir á miðaldakvæðinu. Kvikmyndin var tekin upp á Íslandi árið 2006.

Fyrirmynd greinarinnar var „Beowulf“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. júlí 2008.

Erlendir tenglar

[breyta | breyta frumkóða]