Auðunarstofa
Auðunarstofa eða Timburstofan var reist á Hólum á árunum 1316 til 1317 og stóð í tæp 500 ár eða uns hún var rifin árið 1810. Auðunn rauði Þorbergsson, biskup á Hólum, hafði með sér viði í timburstofuna, þegar hann kom til Íslands 1315. Viðirnir voru dregnir að vetrarlagi frá Seleyri í Borgarfirði, yfir Stórasand, til Hóla, þar sem timburstofan var reist.
Timburstofan var hluti af staðarhúsunum á Hólum, stóð fast sunnan við kirkjugarðinn. Hún var tvískipt, annars vegar bjálkahús eða stokkahús, þ.e. hin eiginlega timburstofa, og hins vegar stafverkshús sem var sambyggt timburstofunni. Stafverkshúsið var á tveimur hæðum, var neðri hæðin stundum kölluð Anddyr eða Forstofa, og sú efri Studium eða Studiumloft. Hugsanlegt er að svalagangur hafi í öndverðu verið meðfram Timburstofunni. Nafnið Auðunarstofa kemur fyrst fyrir í Árbókum Espólíns, þegar sagt er frá niðurrifi stofunnar árið 1810.
Árið 1995 orðaði Bolli Gústavsson vígslubiskup þá hugmynd í Hólanefnd að láta endurgera Auðunarstofu á Hólum. Tókst með samvinnu íslenskra og norskra aðila að koma því í kring, og var Auðunarstofa hin nýja fullfrágengin sumarið 2002. Húsið er allnákvæm endurgerð stofunnar fornu, að öðru leyti en því að stafverkshlutinn er nokkru stærri, til þess að auka notagildi hússins.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Gunnarsson et al., Um Auðunarstofu (Reykjavík: Hólanefnd, 2004).