Auðlindabölvun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Auðlindabölvun (e. resource curse) er hagfræðikenning sem snýr að þeim löndum sem eru rík af náttúruauðlindum en geta lent í ákveðnum vandræðum þegar vinnsla og sala á afurðum þessarra auðlinda hefst, og festast í ákveðnu fari sem erfitt er að komast upp úr. Þetta vandamál hrjáir stóran hluta heimsins.[1]

Kenningin segir að lönd sem eru rík af náttúruauðlindum á borð við olíu og gas, eða aðrar óendurnýjanlegar auðlindir, búi við minni hagvöxt en þau sem fátækari eru af slíku. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður á borð við að þær stofnanir sem halda utan um vinnslu þessarra auðlinda og eru annaðhvort veikburða og áhrifalausar, eða að spilling innan þeirra eigi þar hlut að máli, auk þess sem slæmir stjórnarhættir yfirvalda geta haft áhrif.

Einnig er hugsanlegt að samkeppnishæfi annars iðnaðar bíði verulega hnekki, oft vegna þeirra gengisáhrifa sem tekjur af vinnslu auðlindanna geta haft, en slíkt tekjuflæði getur styrkt viðkomandi gjaldmiðil verulega og gert fyrirtæki ósamkeppnishæf við erlenda keppinauta og hækkað vöruverð nægilega til að útflutningur minnki. Þá getur óstöðugleiki á mörkuðum fyrir afurðirnar haft neikvæð áhrif þar sem verulegur munur getur verið á því verði sem fæst fyrir þær á hverjum tímapunkti.[2]

Holland og Noregur[breyta | breyta frumkóða]

Auðlindabölvunin er ekki algild regla. Þó bölvunin láti á sér kræla víða eru líka til dæmi þess að hennar verði ekki vart. Dæmi um þessa tvo póla eru Holland og Noregur.

Hollenska veikin[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að rekja hugtakið, auðlindabölvun, allt til sjötta áratugar síðustu aldar, og á það upptök sín í Evrópu, þó að vandamálið sé eflaust talsvert eldra. Árið 1959 uppgötvuðu Hollendingar nýja náttúruauðlind sem var gas. Þó þetta hafi vissulega verið happafengur fyrir hollenska ríkið voru aukaverkanirnar síður en svo ánægjulegar fyrir hollenskt hagkerfi. Tekjurnar af gasinu keyrðu gengi hollenska gyllinisins upp úr öllu valdi og þar með urðu aðrar útflutningsgreinar ósamkeppnishæfar. Í kjölfarið hækkuðu laun í landinu vegna aukinnar eftirspurnar og verðbólga jókst. Þetta var nefnt Hollenska veikin (e. Dutch disease) sem er í raun nákvæmlega það sem einkennir auðlindabölvun. Lönd sem búa yfir gnótt auðlinda eru oft með lægri hagvöxt og því í raun fátækari en önnur lönd þar sem þau eru ekki samkeppnishæf á öðrum sviðum.[1]

Norska þversögnin[breyta | breyta frumkóða]

Norska þversögnin vísar til þess að þrátt fyrir mikil auðæfi í formi óendurnýjanlegra auðlinda, þá hefur auðlindabölvunarinnar ekki orðið vart þar í landi. Þvert á móti hefur efnahagur landsins styrkst verulega og er verg landsframleiðsla á hvern íbúa ein sú mesta í heiminum og stendur norska efnahagskerfið styrkari fótum en í nágrannalöndunum, Svíþjóð og Danmörku. Að hluta til má rekja þennan árangur til þess hve vel undirbúnir Norðmenn voru þegar vinnsla og sala olíu og tengdra afurða hófst, og eins þess hve sterkar norskar stofnanir eru.[3]

Gagnrýni[breyta | breyta frumkóða]

Skiptar skoðanir eru um auðlindabölvunina og hefur kenningin verið töluvert gagnrýnd. Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að þeirri skilgreiningu að útflutningur og hagnaður af náttúruauðlindum, séu ástæðan fyrir minni hagvexti og pólitískum óstöðugleika. Til eru rannsóknir sem sýna að þessu er þveröfugt farið. Mikill óstöðugleiki, ágreiningur og slæmir stjórnarhættir yfirvalda gera það að verkum að erlendir fjárfestar fælast frá og innlendir frumkvöðlar og fjárfestar leit tækifæra í öðrum löndum, þar af leiðandi verða yfirvöld háð hagnaði af nýtingu náttúruauðlindanna. Þessi mynd skekkir hagkerfið með þeim afleiðingum að verksmiðjur loka og fyrirtæki fara.[4]

Það fylgir því ákveðið vandamál að greina hvort auðlindabölvun á sér stað eða ekki. Mælikvarðarnir sem stuðst er við eru af ýmsum toga og engin þeirra virðist kjörin til verksins. Skilgreiningar á náttúruauðlindum eru mismunandi sem leiðir af ólíkar niðurstöður. Það á reyndar einnig við þar sem skilgreiningar á náttúruauði eru af sama meiði. Vandamálið virðist liggja í því að ekki er tekið tillit til ólíkra þátta í hverju landi fyrir sig. Félagslegir, stofnanalegir og sögulegir þættir móta efnahagslíf landanna og hafa þar með sitt að segja um afdrif þess. Það gæti skýrt að einhverju leiti mismuninn á auðlindabölvuninni í Hollandi og Noregi.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Gylfi Zoëga, Marta Skúladóttir og Tryggvi Þór Herbertsson: „Hollenska veikin“. Seðlabanki Íslands, 2000, [skoðað 1. apríl 2015].
  2. Jeffrey Frankel: „The Natural Resource Curse: A Survey“. Harvard Kennedy School, Harvard University, 2010, [skoðað 1. apríl 2015].
  3. Gøril Havro og Javier Santiso: „To Benefit from Plenty: Lessons from Chile and Norway“. OECD Development Centre, 2008, [skoðað 1. apríl 2015].
  4. John Tierney: „Rethinking the Oil Curse“. New York Times, 5. maí 2008, [skoðað 1. apríl 2015].
  5. Andrew Rosser: „The Political Economy of the Resource Curse: A Literature Survey. Working Paper 268.“. Institute of Development Studies (IDS), 2006, [skoðað 1. apríl 2015].

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Frankel, J. (2010). The Natural Resource Curse: A Survey. Cambridge: Harvard Kennedy School, Harvard University.
  • Gylfi Zöega, Marta Skúladóttir og Tryggvi Þór Herbertsson. (2000). Hollenska veikin. Reykjavík: Seðlabanki Íslands.
  • Havro, G.; Santiso, J. (2008). To Benefit from Plenty: Lessons from Chile and Norway. OECD Development Centre.
  • Rosser, A. (2006). The political Economy of the Resource Curse: A Litature Survey. Brighton: Institute of Development studies.
  • Tierney, J. (2008, 5. maí). Rethinking the Oil Curse. The New York Times. [rafræn grein].