Fara í innihald

Áll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Anguilla anguilla)
Áll

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Anguilliformes
Ætt: Anguillidae
Ættkvísl: Anguillidae
Tegund:
A. anguilla

Tvínefni
Anguilla anguilla
(Linnaeus, 1758)
Édouard Manet, 1864

Áll (fræðiheiti: Anguilla anguilla) er langur og slöngulaga fiskur. Tvær álategundir eru íAtlantshafi, evrópski állinn og ameríski állinn (Anguilla rostrata). Evrópski állinn hefur 114 hryggjaliði en sá ameríski 107.

Hrogn og lirfur

[breyta | breyta frumkóða]

Álar hrygna á vorin í Þanghafinu (Sargasso-hafinu) við austurströnd Mið-Ameríku. Hrygning fer fram á 400-700 m dýpi í úthafinu þar sem sjávardýpi er um 6000 m. Hrogn og lirfur eru sviflæg. Lirfurnar (Leptocephalus) berast með Golfstraumnum að ströndum Evrópu og Ameríku og tekur það ferðalag um eitt ár. Áður var talið að ferðalagið tæki þrjú ár.

Glerálar um 8 sm langir, hjarta og tálkn sjáanleg

Lirfurnar myndbreytast þegar þær nálgast strendur og kallast þá glerálar. Glerálar eru glærir og um 6-8 sm langir. Glerálar sækja að strönd og ganga í ferskvatn. Smám saman verða þeir gulbrúnir á litinn og nefnast þá álaseiði. Glerálar og álaseiði ganga í ferskvatn að sumarlagi. Göngur ála eru háðar hita í vatni og gengd er meiri á hlýjum sumrum. Ef fossar eru á leið ála upp árnar þá skríða álarnir upp raka kletta eða gras framhjá fossum.

Lífsskilyrði fyrir ála í uppeldi (gulála) eru best í grunnum vötnum á láglendi sem hlýna að sumarlagi. Álar í fersku vatni éta ýmis smádýr á botninum. Þeir vaxa um 5-6 sm á ári. Álar eru hitakærir og kjörhiti þeirra til vaxtar er 22-23 °C.

ungir álar af Ameríkustofnu, 25 sm langir

Þegar áll hefur náð um 35-100 sm lengd þá sækir hann í Þanghafið til að hrygna. Hann tekur áður miklum útlitsbreytingum, augun stækka, bakið dökknar, kviður verður silfurlitur og slím á húð minnkar. Slímug húð ála er talin vera vörn gegn breytingu á saltinnihaldi vatns. Állinn hættir að éta, magi og garnir hans skreppa saman en kynfæri taka að þroskast. Á þessu skeiði nefnist áll bjartáll. Hængar eru þá 35-50 sm að lengd og 60-200 g þungir og hrygnur 45-100 sm langar og vega 100-2000 g. Fundist hafa álar sem eru 125 sm og 6 kg. Það er háð vaxtarskilyrðum hvenær álar yfirgefa ferskvatn og halda út á haf. Á Íslandi eru álar líklega 8-14 ára þegar ganga bjartála hefst. Göngur ála aukast þegar hiti lækkar að hausti. Göngurnar er mestar að næturlagi. Ferð bjartála á hrygningarstöðvar í Þanghafinu er allt að 6500 km löng. Talið er að álarnir haldi sig á um 50-400 metra dýpi á meðan á ferðinni stendur. Álar deyja að hrygningu lokinni.

Lífsferill áls

Álastofninn í Evrópu

[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að fjöldi ála sem nær ströndum Evrópu hafi minnkað um 90% frá 1970. Mögulegt er að það stafi af náttúrulegum sveiflum eða ofveiði, sé af völdum sníkjudýra eða vegna þess að áll getur ekki gengið í ár vegna hindrana, t.d. af völdum vatnsaflsvirkjana. Talið er að fækkun ála megi að einhverju leyti rekja til mengunar af völdum PCB.

Álaveiðar og álaeldi

[breyta | breyta frumkóða]

Álaveiðar eru stundaðar með fléttuðum netum. Áll er mikilvægur matfiskur í mörgum strandhéruðum. Reyktur áll er hluti af sænsku jólahlaðborði.


  • Fyrirmynd greinarinnar var „Anguilla anguilla“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. júlí 2006.
  • „Áll - grein eftir Magnús Jóhannsson“. Sótt 30. júlí 2006.
  • „Hafrannsóknarstofnun - Áll“ (PDF). Sótt 30. júlí 2006.
  • Bjarni Sæmundsson, Um lífshætti álsins – Skírnir, 01.12.1911, Bls. 305-322
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.