Alberto Galateo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alberto Luis Galateo (f. 4. maí 1912 - d. 26. febrúar 1961) var knattspyrnumaður frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem keppti á HM á Ítalíu 1934.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Alberto Galateo lék fyrir ýmis argentínsk félagslið, þar á meðal Unión de Santa Fe á árunum 1930-34. Hann hlaut náð fyrir augum argentínska knattspyrnusambandsins og var valinn í landsliðshópinn sem hélt til Ítalíu árið 1934 til að keppa í annarri heimsmeistarakeppninni. Argentínumenn voru silfurlið frá fyrra móti og gerðu sér vonir um gott gengi en töpuðu 2:3 fyrir Svíum í fyrsta leik og voru þar með dottnir úr leik. Galateo kom Argnentínumönnum í 2:1 forystu en það dugði ekki til.

Galateo lagði skóna á hilluna árið 1943. Hann lést við voveiflegar aðstæður árið 1961 eftir að sonur hans, David José, skaut hann þegar hann gerði sig líklegan til að myrða eiginkonu sína. Sonarsonur Galateo, Damián Galateo, gerði síðar heimildarmynd um þessa atburði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]