Al Franken

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Al Franken
Öldungadeildarþingmaður fyrir Minnesota
Í embætti
7. júlí 2009 – 2. janúar 2018
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. maí 1951 (1951-05-21) (72 ára)
New York, New York, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiFranni Bryson ​(g. 1975)​
Börn2
HáskóliHarvard-háskóli
StarfÖldungadeildarþingmaður, rithöfundur
Undirskrift

Alan Stuart 'Al' Franken (fæddur 21. maí 1951) er bandarískur stjórnmálamaður sem er fyrrum fulltrúi Minnesotaríkis í öldungadeild Bandaríkjaþings. Franken er meðlimur í Demókrataflokknum og sigraði hann naumlega repúblikanann og þáverandi öldungadeildarþingmann Minnesota, Norm Coleman í bandarísku þingkosningunum árið 2008. Franken er einnig þekktur fyrir störf sín á sviði leiklistar auk þess að vera metsöluhöfundur, Emmy-tilnefndur handritshöfundur og fyrrum útvarpsmaður.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Al Franken var fæddur þann 21. maí árið 1951 í New York[1]. Hann ólst upp í St. Louis Park í Minnesota og stundaði síðar nám við Harvard háskóla[2]. Hann útskrifaðist árið 1973 með B.A gráðu í stjórnmálafræði. Árið 1975 fékk Franken starf sem handritshöfundur við nýjan þátt sem var þá í pípunum og hét Saturday Night Live. Síðar fór Franken einnig að leika í þáttunum.

Rithöfundur[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1992 gaf Franken út sína fyrstu bók sem var byggð á persónum sem að hann hafði skrifað fyrir Saturday Night Live þættina. Franken tók sín fyrstu skref í gamansamri umfjöllun um pólitík í riti með bók sinni Rush Limbaugh Is a Big Fat Idiot and Other Observations árið 1996.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt Richard Corliss, í grein sem að birtist í tímaritinu Time, má líta svo á að Franken hafi verið á sinn hátt að undibúa stjórnmálaferil allt frá 8. áratugnum. Franken var til að mynda þekktur fyrir tíðan brandara í Saturday Night Live þar sem Franken skipaði fólki að kjósa Al Franken án þess að ljóst væri hvað Franken væri að bjóða sig fram í[3]. Árið 1999 gaf Franken út bók sem bar titilinn Why Not Me?. Bókin var uppskálduð frásögn á sömuleiðis uppskáldaðri kosningabaráttu Frankens til embættis Bandaríkjaforseta.[3]

Franken hefur ekki farið leynt með óánægju sína með hægri-sinnaða útvarpsmanninn Rush Limbaugh, en sú óánægja kemur meðal annars fram í bók hans frá 1996, Rush Limbaugh Is a Big Fat Idiot and Other Observations. Þegar að Franken komst að því að eina umfjöllunin sem 21% Bandaríkjamanna heyrðu var einmitt frá pólitískum spjallþáttum í útvarpi, miðli sem að hægri-vængurinn hafði heljartak á á þeim tíma, hóf Franken feril sinn sem útvarpsmaður.[3] Í þáttum sínum fjallaði hann aðallega um málefni er snéru að stjórnmálum í Bandaríkjunum.

Framboð til Bandaríkjaþings[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. febrúar, 2007 í útvarpsþætti sínum á útvarpsstöðinni Air America Radio tilkynnti Franken framboð sitt til öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hans helsti keppinautur um tilnefningu DFL, Democratic Farmer Labor, Demokrataflokks Minnesota var Jack Nelson-Pallmeyer, háskólakennari, rithöfundur og aðgerðasinni[4]. Franken hlaut tilnefningu flokksins þann 7. júní 2008. Franken att kappi við þáverandi öldungadeildarþingmann Minnesota, frambjóðanda repúblikana, Norm Coleman.

Kosningin milli Franken og Coleman var gríðarlega jöfn. Fyrstu tölur sýndu Coleman rúmlega 700 yfir Franken en þegar talningu var lokið var Coleman einungis með 215 fleiri atkvæði en Franken. Þar sem það var minna en 0,5% bil þurfti endurtalning að eiga sér stað samkvæmt kosningalögum Minnesota. Að endurtalningu lokinni fékkst staðfest að Franken sigraði kosninguna með 225 fleiri atkvæði en Coleman. Coleman kærði kosninguna en að lokum var það Franken sem var úrskurðaður sigurvegari kosninganna[5]. Franken sór embættiseið þann 7. júlí 2009.

Afsögn[breyta | breyta frumkóða]

Franken sagði af sér sem þingmaður í byrjun ársins 2018 vegna fjölda ásakana um kynferðisáreitni á hendur honum.[6]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Al Franken Biography (1951?-)“. Filmreference.com. Sótt 9. júlí 2009.
  2. „Al's Biography“. Senate.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2010. Sótt 22. september 2010.
  3. 3,0 3,1 3,2 Corliss, Richard (14. febrúar 2007). „Vote for Me, Al Franken“. TIME. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2008. Sótt 9. júlí 2009.
  4. Les says: (7. júní 2008). „The Big Question » Blog Archive » It's Franken in One“. Ww3.startribune.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. maí 2012. Sótt 9. júlí 2009.
  5. „Franken Wins, Coleman Concedes“. PeoplesWorld.org. Sótt 23. september 2010.
  6. Samúel Karl Ólason (7. desember 2017). „Al Franken segir af sér“. Vísir. Sótt 6. nóvember 2018.