Al Capone
Al Capone | |
---|---|
Fæddur | 17. janúar 1899 |
Dáinn | 25. janúar 1947 (48 ára) Palm Island, Flórída, Bandaríkjunum |
Störf | Glæpaforingi |
Maki | Mae Coughlin (g. 1918–1947) |
Börn | Albert Francis „Sonny“ Capone (1918–2004) |
Undirskrift | |
Alphonse Gabriel „Al“ Capone (17. janúar 1899 – 25. janúar 1947) var bandarískur glæpaforingi sem var virkur á bannárunum í Chicago á þriðja áratugnum.
Capone var af ítölskum uppruna og leiddi glæpasamtök í Chicago í Bandaríkjunum á áfengisbannsárunum, 3. áratug síðustu aldar. Hann fæddist í New York, foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur og hann gekk í skóla fram til fermingaraldurs. Hann fór þá að stunda smáglæpi í New York fram til tvítugsaldurs þegar hann fluttist til Chicago til þess að nýta sér áfengisbannið, að græða á sölu og smygli ólöglegs áfengis.
Hann reis fljótt hátt í völdum í glæpasamtökum Chicago og um 1925 var hann leiðtogi glæpasamtaka þar í borg. Ásamt áfengisglæpunum mútaði hann yfirvöldum og stóð í blóðugum stríðum við óvinaglæpasamtök ásamt vændi og fjárhættuspilum. Einn alræmdasti glæpur hans mun vera Valentínusardagsmorðin árið 1929 þegar menn hans drápu sjö af óvinaklíkumeðlimum hans. Hann var dæmdur fyrir skattsvik árið 1931 og eyddi átta árum í fangelsi, meðal annars í Alcatraz en var sleppt 1939 af heilsufarsástæðum, en hann var með alvarlegt tilfelli af sárasótt. Hann dó árið 1947 í villu sinni í Flórída.
Uppeldisár
[breyta | breyta frumkóða]Alphonse „Scarface“ Capone fæddist 17. janúar 1899 í Brooklyn, New York. Foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur, og voru ekki á neinn hátt tengd við glæpastarfsemi borgarinnar. Hann gekk í skóla fram á fermingaraldur, hætti þá og lifði eftir það á smáglæpum í New York. Þar var hann meðlimur götuklíkanna James Street Boys Gang og síðar Five Points Gang. Frankie Yale, einn af glæpaforingjum New York, kynnti Al fyrir skipulagðri glæpastarfsemi. Al starfaði þá sem dyravörður og barþjónn á Howard Inn kránni þar sem er talið að hann hafi hlotið sitt stóra ör þvert yfir vinstri kinnina, í stympingum við drykkjurút. Árið 1920 útvegaði Frankie Yale honum vinnu hjá John Torrio í Chicago, en John Torrio var ásamt Big Jim Colosimo með töluverða glæpastarfsemi í borginni. Var hún að mestu í formi ólöglegs innflutnings á áfengi og rekstri hóruhúsa og spilasala. Colosimo var ekki nógu samviskulaus til þess að fara fyrir glæpaflokki í valdabaráttu þessa tíma svo að Torrio losaði sig við hann smátt og smátt, hann lækkaði í tignum og var að lokum drepinn. Talið er að Capone hafi drepið hann. Þetta hleypti Capone hátt í valdastigann, hann var hægri hönd Torrios, foringja stærsta og best skipulagða glæpaflokks Chicago.[1][2][3]
Hátindur glæpaferils
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1925 fór John Torrio frá Chicago,vegna morðásökunar og tók þá Capone við veldinu. Hann var fyrirmyndarleiðtogi, kom vel fram við bandamenn sína, og hélt út samninga við óvini sína þar til þeir slitu þeim. Hann fékk þá til baka traust flestra og varð það stoð í veldi hans, ekki var auðvelt að fá menn til að svíkja hann í hendur lögreglu. Hann beitti mikilli útsjónarsemi í störfum sínum, morðin úthugsuð og glæpirnir skipulagðir, sem gaf honum forskot á keppinauta sína. Hans helsti galli sem glæpaforingi var hégóminn. Hann var frægur sem glæpamaður og naut þess, vildi einna helst að blaðamenn fjölluðu sem mest um hann í tengslum við glæpi og ríkulegt líferni undirheimanna. Engu að síður var hann glæpahöfðingi Chicago, með ótal ólöglegs áfengis-, fjárhættu- og vændisbúllur vítt um borgina og barðist við önnur gengi um yfirráðasvæði og völd, oft blóðugum baráttum.[4][5][3]
Dion O'Banion, þáverandi leiðtogi North Side gengisins, vildi græða á kostnað Capone og svo að það mætti verða þurfti að víkja Capone úr vegi. Skipulagt var launmorð á honum, menn Capones sem þóttust vera í blómakaupaerindagjörðum komu inn í Blómabúð O'Banions, tóku í hönd hans og héldu honum á meðan þeir myrtu hann. Þetta skeði 1924. Morð þetta hafði afleiðingar í för með sér, klíkufélagi O'Banion, Hymie Weiss, tók sér sæti í blómabúðinni. Hann sendi svo tólf bíla árás inn í Cicero, úthverfi Chicago sem Capone bjó í á þessum tíma, með skotárásum á alla helstu viðverustaði Capone. Ekki dó Capone en skipulagði í staðinn annað launmorð, í þetta skiptið á Weiss. Þá voru það Joseph Aiello og Bugs Moran sem reyndu næst að ganga frá Capone, með litlum árangri, en svar Capone við því varð sögufrægt undir nafninu Valentínusardagsmorðin.[6][7][8]
Valentínusardagsmorðin
[breyta | breyta frumkóða]Eitt af frægustu morðmálum tengd Capone eru Valentínusardagsmorðin. Á valentínusardag 1929 drápu þá menn Capone 6 menn George „Bugs“ Moran og einn almennan borgara á bifvélaverkstæði í North Side hverfi Chicago. Moran réði einmitt yfir North Side og var þetta hluti af yfirtöku Capone á hverfinu. Launmorðið var þaulskipulagt, fimm menn sáu um aftökuna, þrír í lögreglubúningum. Undirmenn Capone höfðu samið um áfengisviðskipti við Moran og áttu þau að fara fram í bifvélaverkstæði í eigu manna Morans. Sjö menn voru á verkstæðinu þegar aftökusveitin mætti. Lögregluklæddu mennirnir gengu inn á verkstæðið, sem kom engum í uppnám, því að lögreglan gerði oft handahófskenndar leitir hjá glæpamönnum þessa tíma, þó það væri bara til að sýnast vera að gera eitthvað í málunum. Þeir voru því áhyggjulausir þegar þeim var stillt upp við vegg og leitað á þeim, en þá rann stundin upp, hinir tveir í aftökusveitinni komu inn með Tommy-Gun byssur og slátruðu mönnum Morans. Eini gallinn við aftökuna var að aðalmaðurinn, Bugs Moran, var ekki á staðnum, og er talið að hann hafi komið seint á kaupafundinn, séð til lögregluleitarinnar og haldið áfram sinnar leiðar. Þetta markaði lok langrar valdabaráttu milli glæpaflokka Chicago og Capone valdameiri en nokkru sinni fyrr. Blóðug átökin vöktu þó mikla athygli og var Capone efstur á lista yfir menn til vandræða við bandarískt samfélag árið 1930. Hann gat mútað og talað til yfirvöld innan Chicago en alríkisyfirvöld voru ekki jafn auðveld viðureignar.[9][3][10]
Áfengisbannið
[breyta | breyta frumkóða]Áfengisbannið var ein af höfuðástæðum fyrir að veldi Capones varð jafnstórt og það var orðið um miðjan þriðja áratug síðustu aldar. Það tók gildi í janúar 1920 til að sporna við rísandi samfélagsvanda sem drykkjan var orðin. Í stað þess að bæta samfélagið greiddi bannið leið fyrir glæpamenn að taka yfir áfengisviðskiptin og opnaði fyrir flæði peninga inn í undirheimana þar til að banninu var aflétt 1933. Al Capone var þá á bak við lás og slá, eftir að hafa grætt á tá og fingri á téðu banni. Árið 1927 var talið að sala hans á ólöglegu áfengi fram að því velti um 105 milljónum dollara.[11][12]
Endalok glæpahöfðingjans
[breyta | breyta frumkóða]Hópur lögreglumanna undir stjórn Elliot Ness reyndu að gera út af við Al Capone með því að gera upptæka aðaltekjulind hans, áfengissöluna. Umfangsmiklar aðgerðir minnkuðu tekjur hans, en ekki meira en það. Lítið gekk að tengja Capone við alvarlega glæpi og varð að lokum að leita annara ráða. Skattaskýrslur hans voru vafasamar og þar sem tekjur af glæpum voru skattskyldar var hann kærður fyrir skattsvik. Hann var fundinn sekur um tekjuskattsvindl árið 1931 og dæmdur í ellefu ára fangelsi og þurfti að greiða 80.000 dali í skaðabætur. Var í fangelsi í Atlanta frá maí 1932 en var fluttur í öryggisfangelsið á Alcatraz-eyju 1934. Hann hafði smitast af sárasótt á þriðja áratugnum og varð verulega sjúkur í fangelsinu og var að lokum sleppt út 1939 og færður á spítala í Baltimore. Að lokum flutti hann sig í glæsihús í Flórída sem hann hafði keypt á hátindi valdaferils síns og dó þar 48 ára 25. janúar 1947. Þá átti hann að eiginkonuna Mae og son þeirra, Sonny Capone.[13][3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Thelander, Joakim bls. 43-44.
- ↑ Enright, Richard bls. 29-31.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „Al Capone“, Encyclopædia Britannica.
- ↑ Enright, Richard bls. 10 og 15-17.
- ↑ Thelander, Joakim bls. 44-45.
- ↑ „George Moran“, Encyclopædia Britannica.
- ↑ „Dion O'Banion“, Encyclopædia Britannica.
- ↑ Enright, Richard. bls. 15-20.
- ↑ Thelander, Joakim bls. 45.
- ↑ Enright, Richard. bls. 20-24.
- ↑ Thelander, Joakim bls. 47.
- ↑ Enright, Richard bls. 13.
- ↑ Thelander, Joakim bls. 46-47.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Al Capone“, Encyclopædia Britannica 2011. Sótt 30. janúar 2011 af http://www.britannica.com/EBchecked/topic/94065/Al-Capone.
- „Dion O'Bannion“, Encyclopædia Britannica 2011. Sótt 31. janúar 2011 af http://www.britannica.com/EBchecked/topic/423628/Dion-OBannion.
- Enright, Richard. Al Capone. Mesti glæpamaður heimsins. Reykjavík: Bókaútgáfa Í.P.S, 1949.
- „George Moran“, Encyclopædia Britannica 2011. Sótt 31. janúar 2011 af http://www.britannica.com/EBchecked/topic/391838/George-Moran.
- Thelander, Joakim. „Al Capone. Glæpaforinginn tekinn fyrir skattsvik.“ Sagan öll, 2010. 7. tbl. bls. 42-47.