Alþjóðasamtök íþróttakvenna
Alþjóðasamtök íþróttakvenna (franska: Fédération Sportive Féminine Internationale) var alþjóðleg hreyfing kvenna í íþróttum sem stofnuð var af Alice Milliat árið 1921 sem viðbragð við tregðu Alþjóðaólympíunefndarinnar við að hleypa kvennaíþróttum inn á Ólympíuleikana. Samtökin stóðu fyrir stórum íþróttamótum árin 1922, 1926, 1930 og 1934. Vinsældir þeirra áttu stóran þátt í að opna konum leið inn í Ólympíuhreyfinguna.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Franski baróninn Pierre de Coubertin, faðir Ólympíuleikanna, var afar andsnúinn því að konum væri leyft að keppa á leikunum og féllst rétt með semingi á þátttöku þeirra í greinum á borð við tennis, golf og bogfimi. Greinar á borð við frjálsar íþróttir voru að mati hans og margra félaga hans ekki við hæfi kvenna og óspennandi þar að auki.
Meðal þeirra sem sættu sig illa við þessi íhaldsömu viðhorf var franska íþróttakonan Alice Milliat, einn stofnanda Fémina Sport sem var leiðandi íþróttafélag kvenna í París á öðrum áratugnum. Á vettvangi félagsins kom Milliat að því að skipuleggja knattspyrnukeppnir bæði milli franskra liða og gegn enskum mótherjum. Árið 1917 voru stofnuð Samtök franskra íþróttakvenna (fr: Fédération Française Sportive Féminine) og var Milliat kjörin gjaldkeri þeirra og forseti tveimur árum síðar. Árið 1919 fór hún formlega fram á það við Alþjóðafrjálsíþróttasambandið að konum yrði leyft að keppa í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum 1924.
Þegar erindinu var hafnað hófst Milliat handa við að undirbúa svokallaða Kvennaólympíuleika (fr.: Jeux Mondiaux Féminins eða Jeux Olympiques Féminins) sem haldnir voru í Monte Carlo árið 1921 og síðan endurteknir á hverju ári til 1924. Í kjölfar fyrstu leikanna, sem fram fóru í marsmánuði stóð Milliat fyrir stofnun Alþjóðasamtaka íþróttakvenna í Parísarborg þann 31. október árið 1921.
Heimsleikar kvenna
[breyta | breyta frumkóða]Milliat sá fyrir sér að samtökin myndu í fyllingu tímans fá aðild að Alþjóðaólympíuhreyfingunni, en lítill áhugi var á slíku á þeim bænum. Þess í stað hófu hin nýju samtök þegar á stofnfundinum að leggja drög að stóru alþjóðlegu íþróttamóti með Ólymppíuleikana sem fyrirmynd. Þeir fyrstu voru haldnir í París á einum degi þann 20. ágúst árið 1920. Leikarnir nefndust Jeux Olympiques Féminins eða Kvennaólympíuleikarnir og leiddu saman 77 keppendur frá fimm löndum sem öttu kappi í ellefu tegundum frjálra íþrótta.
Viðbrögð Alþjóðaólympíunefndarinnar urðu hörð og taldi hún brotið á eignarrétti sínum á Ólympíunafninu. Afleiðing þeirra deilna varð sú að næstu leikar, sem haldnir voru á fjögurra ára fresti, voru kallaðir Alþjóðaleikar kvenna eða Jeux Féminins Mondiaux. Þeir voru haldnir í Gautaborg árið 1926, Prag árið 1930 og í Lundúnum árið 1934. Þátttakendum fjölgaði og áhorfendur létu sig ekki vanta.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið ákvað að taka keppni kvenna upp á sína arma og voru veitt fyrirheit um að keppt yrði í fjölda greina á Ólympíuleikunum 1928, þegar á hólminn var komið urðu greinarnar einungis fimm talsins sem olli stofnendum Alþjóðasamtaka íþróttakvenna sárum vonbrigðum og breskar íþróttakonur ákváðu að sniðganga leikana. Svo fór þó að lokum að samtök þeirra voru gleypt af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu, Milliat til mikillar óánægju og lognuðust þau loks út af um miðjan fjórða áratuginn. Enn átti þó eftir að líða á löngu þar til konur fengu keppnisrétt í flestum sömu greinum og karlar á Ólympíuleikum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „International Women's Sports Federation“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. janúar. 2024.