Fara í innihald

Lindarbær

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lindarbær er hús í miðborg Reykjavíkur og stendur við horn Lindargötu og Skuggasunds. Áður var húsið skráð sem Lindargata 9 en telst nú vera Skuggasund 1. Húsið var byggt árið 1943 fyrir starfsemi gosdrykkjaframleiðandans Sanitas en árið 1964 keyptu Verkamannafélagið Dagsbrún og Sjómannafélag Reykjavíkur húsið.[1] Félögin nýttu húsnæðið undir skrifstofu- og félagsaðstöðu auk þess sem hluti hússins var leigður út. Meðal leigjanda má nefna Þjóðleikhúsið sem útbjó lítið leiksvið í Lindarbæ og var með sýningar þar frá 1964-1973.[2] Húsið var einnig vinsælt til ýmis konar viðburða og algengt var að félagasamtök leigðu aðstöðu í húsinu til fundahalda.

Dagsbrún og Sjómannafélagið seldu ríkinu húsnæðið árið 1996 og síðan þá hefur ýmis starfsemi á vegum hins opinbera verið til húsa í Lindarbæ, t.d. Leiklistarskóli Íslands, Nemendaleikhúsið, Fyrirtækjaskrá, Einkaleyfastofa, Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins og nú er Umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðsett í húsnæðinu.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Lindarbær tekinn til starfa“, Alþýðublaðið, 4. nóvember 1964 (skoðað 3. júlí 2019)
  2. Leikminjasafn.is, „Þjóðleikhúsið“ Geymt 3 júlí 2019 í Wayback Machine (skoðað 3. júlí 2019)
  3. Alþingi, „Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands“ (skoðað 3. júlí 2019)