Fara í innihald

Akureyrarveikin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Akureyrarveikin var smitsjúkdómsfaraldur sem gekk yfir á Akureyri veturinn 1948–49 og í smærri faröldrum á landinu. Sjúkdómurinn olli einkennum sem líktu eftir mænusótt (polio) og voru helstu einkennin síþreyta ásamt verkjum í vöðvum eða beinum samfara hita og einkennum frá heila og mænu. Veikin olli varanlegri lífsgæðaskerðingu hjá mörgum sjúklingum.

Fyrsta tilfelli Akureyrarveikinnar var greint í september 1948. Um veturinn gekk faraldurinn yfir Akureyri og veiktust 465 manns eða 7% af íbúum Akureyrar. Veikin breiddist út og stök tilvik af Akureyrarveiki komu upp um allt land. Faraldrar gengu á Þórshöfn og á Patreksfirði árin 1953 og 1955. Engin tilvik hafa verið greind frá árinu 1955.

Akureyrarveikin lýsti sér með sótthita, bein- og liðverkjum og vöðvasærindum en einnig særindum í hálsi og óþægindum í meltingarvegi, höfuðverk og stífleika á hálslið, streitu og kvíða og máttleysi og dofa í hluta líkamans. Allir lifðu af, en aðeins 15% þeirra sem veiktust náðu fullum bata. Flestir náðu allgóðum bata en um 25% þeirra sem veiktust jöfnuðu sig aldrei og hafa alla ævi verið þreyttir bæði andlega og líkamlega og nánast allir fengið vefjagigt sem svo hefur aukið á þreytuna. Afbrigði af Parkinsonsveiki er algengara meðal þeirra sem veiktust af Akureyrarveikinni en ætla mætti og er það talið vera afleiðing heilabólgu sem var hluti veikinnar. Fleiri konur en karlar veiktust og var hlutfallslega mest ungt fólk, á aldrinum 15 til 19 ára. Sjaldgæft var að börn veiktust.

Ekki er vitað hver nákvæm orsök Akureyrarveikinnar var.

  • „Hvað er Akureyrarveikin?“. Vísindavefurinn.
  • Vefjagigt.is: Hvað er síþreyta?
  • E.D. Acheson, D.M., M.R.C.P,The Clinical Syndrome Variously Called Benign Myalgic Encephalomyelitis, Iceland Disease and Epidemic Neuromyasthenia, American Journal of Medicine, 1959. Geymt 4 ágúst 2016 í Wayback Machine