Fara í innihald

Airbus A310

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Air Transat A310 á leið til lendingar árið 2009

Airbus A310 er breiðþota sem var hönnuð og framleidd af Airbus. Airbus hafði séð eftirspurn á flugvélamarkaðnum fyrir farþegaþotu sem væri minni en A300, fyrsta tveggja hreyfla breiðþotan. Airbus byrjaði að fá pantanir í nýju A310 þotuna (upprunnulega A300B10) 1978 frá Swissair og Lufthansa. Þotan flaug fyrst 3. apríl 1982 og fékk flughæfnisvottorð 11. mars 1983.

Airbus A310 er minni útgáfa af fyrstu vél Airbus, A300. Hún er 6.95 metrum styttri heldur en fyrstu útgáfurnar af A300 þotunum. Vængirnir minnkuðu frá 260 niður í 219 fermetra. A310 er með stafrænt mælaborð (e: glass cockpit) og er því aðeins með tveggja manna áhöfn. Þotan er knúin af sömu hreyflum og A300, General Electric CF6-80 eða Pratt & Whitney JT9D og seinna PW4000 þrýstihreyflum. Hún getur setið 220-240 farþega og hefur hámarksflugþol uppá 9,540 km. Þar sem A310 og A300 eru með sama stjórnklefa og svipaða uppsetningu gerir það flugmönnum kleift að hafa réttindi á báðar flugvélar.

Í apríl 1983 var flugvélin tekin í notkun hjá Swissair og var í samkeppni við Boeing 767-200 sem var tekin í notkun rúmum 6 mánuðum áður. Lengri drægni og ný ETOPS reglugerð þýddu að þotan gat flogið beint yfir atlantshafið. Seinasta A310 þotan var afhent í júní 1998, alls voru 255 flugvélar. Arftaki A310 var Airbus A330.