Þrautir Heraklesar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Herakles og hindin.

Þrautir Heraklesar voru tólf og þær innti Herakles af hendi í þjónustu Evrýsþeifs.

Þrautir Heraklesar í stuttu máli[breyta | breyta frumkóða]

 1. Nemuljónið: Hann drap Nemuljón, óargadýr, er enginn mátti sári á koma. Kyrkti Herakles það í fangabrögðum. Hafði hann síðan haus þess í hjálms stað, en feldinn sem kufl.
 2. Lernuormurinn: Ormur einn í Lernuvatni, er hafði óteljandi hausa og meðal þeirra einn, sem var ódauðlegur, eyddi land allt umhverfis. Herakles hjó hausana af orminum, en uxu þá jafnan tveir í stað þess, er af var höggvinn. Sveið Herakles þá með glóandi eikarstofnum fyrir strjúpana og varpaði síðan heljarmiklu bjargi á þann hausinn, sem ódauðlegur var. Rauð hann síðan örvar sínar með blóði Lernuormsins, og særðu þær upp frá því ólæknandi sárum.
 3. Hjartarkollan: Evrýsteifur lagði fyrir Herakles að færa sér lifandi hjartarkollu eina gullhyrnda, er var á Keryníufjalli og var helguð Artemis. Náði Herakles hindinni eftir eins árs eltingarleik.
 4. Villigölturinn: Villigöltur á Erýmantsfjalli gerði hið mesta spellvirki í Arkadíu. Keyrði Herakles göltinn út í djúpan snjóskafl og náð honum lifandi. Bar hann síðan þessa ægilegu skepnu á herðum sér til Tirynsborgar á fund Evrýsþeifs. Varð konungur þá svo hræddur, að hann skreið ofan í stóran eirketil og skipaði Heraklesi að vinna jafnan afreksverk sín utan borgaramúra.
 5. Stymfalsfuglarnir: Stymfalsfuglarnir voru í Arkadíu og höfðu nef, klær og vængi af eiri. Skutu þeir eirfjöðrum sínum sem örvum. Herakles fældi fugla þessa upp með eirskellu, sem hann hafði fengið hjá Aþenu. Drap hann þá síðan eða fældi burt.
 6. Naut Ágeasar: Ágeas, konungur í Elis, sonur Helíosar ,átti ógrynni nauta. En fjós hans höfðu aldrei verið mokuð út, svo að mykjan hafði safnast þar fyrir. Herakles hreinsaði fjósin á einum degi. Veitti hann fljótunum Alfeios og Peneios um fjósin. Ágeas hafði heitið Heraklesi tíunda hluta hjarða sinna að launum. En er hann varð þess vísari, að Herakles hafði unnið verkið sem þjónn Evrýsteifs, en ekki sem frjáls maður, færðist hann undan að greiða kaupið. Fór Herakles þá með ófrið á hendur konungi og lagði hann að velli.
 7. Skjaldmeyjarnar: Herakles herjaði á Skjaldmeyjar, drap Hipppolyte, drottningu þeirra, og rændi belti hennar, hinni mestu gersemi, er hún hafði þegið af Aresi. Beltið færði hann dóttur Evrýsteifs.
 8. Griðungurinn á Krít: Herakles náði lifandi griðungi á Krítey, flutti hann til Pelopsskaga og sleppti honum þar. Réð Þeseifur niðurlögum griðungs þessa á Maraþonsvelli.
 9. Merar Díómedesar: Díómedes Þrakverjakonungur átti hryssur þær, er hann ól á mannakjöti. Sigraði Herakles konung þenna í bardaga og kastaði honum sjálfum fyrir hryssurnar. Merarnar færði hann síðan Evrýsteifi.
 10. Margra verka ferð: Lengst í vesturvegi rændi hann nautum Gerýonesar. Var það risi einn er hafði þrjá líkami, samgróna um miðjuna. Vó hann Evrýtíon risa, sem nautanna gætti, og varðhundin Orþros, er var tvíhöfðaður. Í leiðangri þessum reisti hann stólpa sinn hvorum megin við Njörvasund (Herkúlesarstólpa). Í þessari ferð lagði hann og að velli Búsiris Egyptalandskonung, er færði Seifi að fórn alla útlendinga, sem að garði bar. Glímdi hann og við Anteos Jarðarson, er tók nýtt afl í hvert skipti, sem hann snerti Jörð, móður sína. Brá Herakles honum á loft og kyrkti hann.
 11. Gullepli Vesturdísa og Atlas risi: Á leiðinni að gulleplunum leysti hann Prómeþeif úr fjötrum, og vísaði hann Heraklesi leið til Atlasar risa, er ber himnahvelfinguna á öxlum sér. Tók Herakles á sig byrði hans, en sendi risann eftir eplunum. Er Atlas kom úr þeirri för, ætlaði hann að nota tækifærið og koma byrði sinni fyrir fullt og allt á Herakles. Neytti Herakles þá bragðvísi: bað Atlas að standa undir himninum meðan hann byggi sér hægindi, svo að hann meiddist ekki á herðunum. Sá Atlas ekki við þessu, en Herakles tók þegar gulleplin og hélt sína leið.
 12. Kerberos: Hin þyngsta þraut Heraklesar þótti sú, er hann fór til undirheima og handsamaði vopnlaus varðhund neðri byggða, Kerberos, er var hin versta óvætt. Bar hann hundinn fyrir Evrýsteif og skilaði honum síðan aftur til Hadesar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja