Þórðargleði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Þórðargleði[1][2] er er sú „gleði“ að hlakka yfir óförum annarra. Uppruni orðsins mun vera úr Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar sem Þórbergur Þórðarson skráði. Þórbergur segir svo frá í orðastað séra Árna:

 
Gæsalappir
Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur“. Svo hnippir hann í mann sem hann stóð hjá og segir ískrandi:

„Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“ Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefrohed og Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa. En mikil fádæma hugarfarsspilling er nú þetta.

 
Gæsalappir
 
— Þórbergur Þórðarson, Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar, 2. bindi 1986, 40

Karen Blixen lýsir þórðargleði í bók sinni Jörð í Afríku en þýðandi kallar hana meinfýsi sem er samheiti, þ.e. fögnuður yfir óförum annarra:

 
Gæsalappir
Í eðli allra svertingja er rótgróin, óbugandi tilhneiging til meinfýsi, ómenguð gleði yfir því að sjá eitthvað misheppnast, tilhneiging, sem hlýtur að koma ónotalega við Evrópumenn. -- Þennan eiginleika þroskaði Kamante [þ.e. kokkur Karenar og þjónn] hjá sér, svo að hann náði óvanalegri fullkomnun, hann þroskaði meira að segja hjá sér sérstaka tegund sjálfshæðni, svo að hann gat haft skemmtun af sínum eigin óhöppum og vonbrigðum rétt eins og í hlut ætti óviðkomandi fólk.
 
Gæsalappir
 
— Karen Blixen, Jörð í Afríku, 36

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Orðið „þórðargleði“ er ritað með litlum staf (samanber réttritun.is)
  2. II. STÓR OG LÍTILL STAFUR á Árnastofnun.is
  Þessi Íslandsgrein sem tengist menningu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.