Úlfsdalir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Sauðanesviti.

Úlfsdalir eða Dalir er lítil eyðibyggð yst á Tröllaskaga vestanverðum, í tveimur litlum dalverpum sem ganga inn í Úlfsdalafjöll, fjallgarðinn frá Strákum inn til Siglufjarðarskarðs. Byggð þessi tilheyrði Skagafjarðarsýslu og taldist til Fljóta fram til 1827 en þá var sýslumörkum breytt og Úlfsdalir lagðir til Eyjafjarðarsýslu. Dalirnir eru sagðir kenndir við Úlf víking, sem þar á að hafa numið land.

Þrír bæir voru í Úlfsdölum. Yst, undir Strákafjalli, var Engidalur í samnefndu dalverpi. Fjallið á milli dalanna heitir Dalseti en sunnan við það er Mánárdalur (áður stundum Daladalur) og þar eru Dalabær og Máná. Um tíma var þar einnig hjáleigan Dalabæjarkot. Vestan við Úlfdali er Mánárfjall og þar taka Almenningar við. Þar voru sýslumörkin áður. Fjöllin ganga öll í sjó fram og eru brött og skriðurunninn, svo að samgöngur voru torveldar.

Dalabær var helsta býlið og stundum voru hinir bæirnir í eyði og lágu undir Dalabæ, sem þá var oft kallaður Úlfsdalir. Á Dalabæ bjó Dala-Rafn Guðmundsson á 17. öld. Hann var sagður göldróttur. Rafn fórst við selveiðar 1636. Eftir það varð vart við skrímsli í sjónum og var það talið Rafn afturgenginn og kallað Dala-Rafn. Varð þess oft vart síðan.

Bæirnir eru allir löngu komnir í eyði. Snjóflóð féll á Engidalsbæinn í apríl 1919 og fórst allt heimilisfólkið, sjö manns, en enginn vissi af flóðinu fyrr en um viku síðar. Bærinn byggðist að vísu upp aftur en fór svo í eyði 1927. Nokkru síðar var þó Sauðanesviti byggður í landi jarðarinnar ásamt vitavarðarbústað og hefur vitavörður búið þar síðan.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Jarðgöng til Úlfsdala“. Lesbók Morgunblaðsins, 6. september 1959“.
  • „„Sauðanesviti vestan Siglufjarðar.“ Á www.siglfirðingur.is. Skoðað 18. júlí 2011“.