Fara í innihald

Ólivín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Peridótít í basalti. Myndin er frá Arizona fylki, Bandar.

Ólivín er steind gerð úr magnesíum-járn-silíkati. Ólivín er ein algengasta steind á Jörðinni og hefur einnig verið greint í bergi á Tunglinu.

Atómuppbygging steindarinnar Ólivíns, horft er niður eftir a-ás. Súrefnisatóm eru rauð að lit, kísill er bleikur og magnesíum/járn er blátt. Grindareining er táknuð með svörtum ferhyrning.

Ólivín er venjulega ólífugrænt að lit (sbr. nafnið), þótt það geti orðið rauðleitt vegna oxunar járns. Það hefur skeljalaga brotfleti og er fremur stökkt, með glergljáa.

  • Efnasamsetning: (Mg,Fe)2SiO4
  • Kristalgerð: Rombísk
  • Harka: 6½-7
  • Eðlisþyngd: 3-4
  • Kleyfni: Ógreinileg

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Ólivínflokkurinn kallast einn flokkur steinda með skylda uppbyggingu en þar má t.d. nefna monticellít og kirschsteinít. Ólivín finnst bæði í mafísku (basísku) og útmafísku (útbasísku) bergi og það er frumsteind í sumu myndbreyttu bergi. Gegnsætt ólivín er stundum notað sem gimsteinn, sem oftast er kallaður perídót, en það er frönsk nafngift ólivíns. Það er einnig nefnt krýsólít, en það nafn er dregið af grísku orðunum fyrir gull og stein. Ólivín kristallast úr kviku sem er rík af magnesíum en inniheldur lítinn kísil. Slík kvika myndar mafískt til útmafískt berg eins og gabbró, basalt, peridótít og dúnít. Myndbreyting óhreins dólómíts og annars setbergs sem inniheldur mikið magnesíum og lítinn kísil virðist mynda Mg-ríkt ólivín, eða forsterít. Ólivín, eða afbrigði þess sem til verða við mikinn þrýsting, mynda yfir 50% af efri möttli Jarðar sem þýðir að steindin er ein algengasta steind Jarðar að rúmmáli. Ólivín hefur einnig verið greint í loftsteinum, á Mars og á Tunglinu. Á Íslandi finnst ólivín í Reykjavíkurgrágrýtinu, Búðahrauni og Búrfellshrauni.