Íslensk málstefna
Íslensk málstefna einkennist af málvernd og varðveislu íslenskrar tungu. Í dag felur sú stefna í sér aðallega nýyrðasmíð, það er að segja að búa til ný orð af íslenskum rótum í staðinn fyrir að nota tökuorð úr öðrum tungumálum. Sögulega séð hefur íslensk málstefna gengið lengra og hefur falið í sér endurreisn eldri beygingarmynda og stöðlun ólíkra hljóðfræðilegra fyrirbæra, t.d. að vinna gegn flámæli.
Staða málstefnu
[breyta | breyta frumkóða]Opinberri málstefnu var í fyrsta sinn komið á á Íslandi þann 12. mars 2009, er Alþingi samþykkti tillögur Íslenskrar málnefndar að slíkri stefnu. Ísland var annað Norðurlandanna til að setja lög um tungumál, á eftir Finnlandi. Yfirlýsta aðalmarkmið stefnunnar er „að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Í inngangsorðum á kynningarriti málstefnunnar eru fyrirmælin túlkuð nánar: „Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við hvers kyns kringumstæður.“ [1]
Samkvæmt tillögum nefndarinnar voru sett lög um íslenska tungu sem tóku gildi 7. júní 2011 (61/2011). Fyrsta og önnur grein laganna eru svohljóðandi:
1. Íslenska er þjóðtunga og opinbert mál á Íslandi.
2. Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum þjóðlífs. Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.[1] |
Áður giltu lagagreinar um málnotkun á ólíkum sviðum – að íslenska sé notuð í meðferð sakamála (88/2008:12), að auglýsingar skuli vera á íslensku (57/2005:8), ásamt skólahaldi (91/2008:16 og 92/2008:35) um íslenskukunnáttu útendinga (97/1990:2). Einnig má nefna útvarpslög (53/2000:91), leiklistarlög (138/1998:4) o.s.frv.[1]
Rök fyrir málvernd
[breyta | breyta frumkóða]Haft hefur verið eftir málvísindamanninum David Crystal að þegar tungumál deyr út „glatist … enn ein mikilvæg gagnanáma — fyrir heimspekinga, vísindamenn, mannfræðinga, þjóðfræðinga, sagnfræðinga, sálfræðinga, málfræðinga og rithöfunda.“ Sérhvert tungumál geymi menningu okkar og sögu, í því felist siðvenjur og sjálfsmynd þjóðar og að í fjölda mála felist fjölbreytni. Hann líkir tungumálum meðal annars við geymslur — í endursögn Kolbrúnar Friðriksdóttur: „Má líkja þeim við það að fara heim í geymsluna sína og finna þar heilan kassa með myndaalbúmi fjölskyldunnar, gömul leikföng sem einhver getur notað seinna, útilegubúnaðinn sem verður notaður næsta sumar, frímerki sem safnað var á mörgum árum o.s.frv. Alls konar hluti sem maður hefur geymt eða safnað í lífinu.“[2]
Samanburðarrannsókn Zuzana Stankovitsová á sjálfsmyndum Íslendinga og Slóvaka upp úr aldamótunum 2000 gaf til kynna að „tungumálið leiki mikilvægt hlutverk í sjálfsmynd Íslendinga“.[3] Stankovitsova segir íslenskt þjóðerni byggjast „á þremur grundvallaratriðum: sögu, náttúru og tungumáli.“ Þó hafi tungumálið sérstöðu, það sé „oft álitið hornsteinn íslenskrar menningar, jafnvel lagt að jöfnu við hana og einnig helsta forsenda þjóðernisvitunda Íslendinga.“
Saga málverndar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Forsaga
[breyta | breyta frumkóða]Litið var á tungumál Norðurlanda sem eina heild, norrænu eða dönsku, fram á 15. öld.[4]
16. öld
[breyta | breyta frumkóða]Íslensk málvernd er sögð hafa hafist á 16. öld með skrifum Arngríms Jónssonar lærða (1568–1648) „en hann var brautryðjandi í málhreinsunarstarfi og málhreinsunarkenningu“.[1] Í riti hans, Crymogæa, 1609, hvatti hann Íslendinga til að „varðveita hreinleika tungunnar“ sem hann sagði vera „hin forna og óspillta norska, sem komin er af fornri gotnesku, en hreina tala hana nú Íslendingar einir.“[5] Arngrímur sagði að til þess mætti styðjast við handritin því þau varðveittu glæsilegan stíl tungunnar og fornan hreinleika hennar.“ Arngrímur er sagður hafa verið fyrstur til að setja fram slíkar hugmyndir.[6]„Breytingar á tungumáli skynjaði hann sem hættu þannig að sögu íslenskrar málhreinsunar má rekja allt aftur til Arngríms.“[3] Einnig brýndi hann að Íslendingar skyldu eiga lítil samskipti við útlendinga og bað landa sína að herma ekki eftir Dönum eða Þjóðverjum heldur leita í „auðlegð og snilld móðurmálsins.“[7] Tungumálið væri „ljóst og fagurt, og ekki þarf í þessu efni úr öðrum tungumálum orð til láns að taka eða brákað mál né bögur að þiggja.[8] Í samræmi við boðaða stefnu vann Arngrímur að „endurbótum … á þýðingum ákveðinna hluta biblíunnar. Tók hann þessa texta og hreinsaði af ungum tökuorðum og setti í þeirra stað gömul og góð íslensk orð.“[9]
Eru framangreindar hugmyndir um „hreinleika“ tungunnar (hreintungustefna) kenndar við evrópska fornmenntastefnu, þar sem fornaldarmenning Grikkja og Rómverja var höfð til fyrirmyndar. Gottskálk Þór Jensson hefur lýst megintilgangi Arngríms sem þeim að sanna gildi lærdóms á Íslandi og þurfti þá að rökstyðja notkun íslensku í stað latínu.[10] Stankovitsová segir bæði bókmenntir Íslendinga og tungumál þannig hafa fengið „nýtt gildi sem „klassík“ og bar að meðhöndla með sömu virðingu og hin fornmálin, meðal annars með því að verja tungumálið gegn spillingu.[3]
Sagt er að umræðan sem Arngrímur hóf á 16. öld hafi haldist óslitið til 21. aldar með verulegum áhrifum á þróun tungunnar.[1] Áhrifin felast meðal annars í áherslu, sem enn er til staðar, á að „mynda fremur ný íslensk orð en taka við aðkomuorðum“. Að þessu leyti er þróun íslensku sögð skera sig úr þróun hinna Norðurlandamálanna.[1] Og eftir útkomu rita Arngríms „voru allar tilraunir á síðari öldum til að hreinsa íslenskuna gerðar miðað við fornmálið.“[3](24)
19. öld
[breyta | breyta frumkóða]Annar áhrifamaður á það sem í dag er nefnt málvernd var danski málfræðingurinn Rasmus Rask (1787–1887), sem lagði áherslu á að íslenska væri hið forna tungumál norrænna manna og hefði lifað af á Íslandi. Árið skrifaði Rask: „sérhver íslenzkur maður, sem ekki er öldúngis ókunnugur í heiminum, mun viðurkenna, að gamla Norrænan sé sú helzta undirrót Íslands sóma“.[11][3](27)
Þriðji viðurkenndi áhrifaþátturinn á upphaf „málverndar“, áður en það orð kom til sögunnar, eru Fjölnismenn svonefndir: Jónas Hallgrímsson, Brynjólfur Pétursson, Tómas Sæmundsson og Konráð Gíslason, sem stóðu að tímaritinu Fjölnir, er kom út á árunum 1835–39 og aftur 1843–47. Þeiru voru undir verulegum áhrifum þýskrar hughyggju og rómantíkur. Þýskir fræðimenn á 18. og 19. öld litu margir á tungumál sem eina helstu forsendu fyrir myndun þjóða og breiddist viðhorfið þaðan út.Fremstir í þeirra flokki fóru Johann Gottfried von Herder (1744–1803) og Johann Gottlieb Fichte (1762–1814). Fichte leit svo á að ríki og þjóðir ættu að eiga sér sömu markalínur: að ytri mörk menningarsamfélags væru líka náttúruleg ytri mörk ríkis.Fichte lagði það að auki til að þjóðir væru misverðugar og það væri einkum tungumálið sem myndaði menn og þjóðir. Staða tungumáls og umfram allt „hreinleiki“ þess varð þannig mælikvarði á gildi þjóðar.[3] Fjölnismenn skrifuðu um tungumálið sem „óskabarn mannlegs anda“, „höfuðeinkenni þjóðanna“, að „í málinu má að miklu leyti lesa sögu hverrar þjóðar“, að það skyldi vera „so hreint og óblandað einsog orðið getur, bæði að orðum og orðaskipun“ o.s.frv.[3](20 og 27)
20. öld
[breyta | breyta frumkóða]- Ungmennafélag Íslands var stofnað árið 1907. Meðal stefnumála þess var „að fegra og hreinsa móðurmálið“, með því annars vegar að benda á „mállýti“, þar sem málið hefði spillst af erlendum áhrifum, hins vegar að iðka lestur „gullaldarrita“, Íslendingasagna og kvæða Jónasar Hallgrímssonar.[9]
- Fyrsta orðanefnd á Íslandi var orðanefnd Verkfræðifélagsins sem starfaði frá 1919–26. Fyrsti formaður hennar var Guðmundur Finnbogason. Í kjölfarið voru fleiri orðanefndir stofnaðar og loks Orðabókanefnd Háskólans, síðar Orðabók Háskólans. [8]
- Sigurður Nordal skrifaði árið 1926: „Tungan hefur ekki einungis verið undirstaða menningar vorrar, heldur líka sjálfstæðið út á við og jafnaður inn á við.“[8]
- Þegar árið 1928 taldi Guðmundur Finnbogason 1450 erlend orð í íslenskum fornsögum. Hann barðist engu að síður fyrir málhreinsun.[8]
- Kristján Albertsson stakk upp á því í grein árið 1939, að stofnuð yrði íslensk mál- og bókmenntaakademía sem myndi standa vörð um tunguna og stuðla að því íslenska myndi „lifna við að nýju, hressari og yngri í bragði“.[8]
- 15. öldin í sögu Íslands hefur verið nefnd enska öldin vegna tíðra komu enskra sjómanna til landsins. Áhrifa Dana og dönsku voru þó alla tíð fyrirferðarmeiri, þar til undir miðja 20. öld að Ísland var hernumið af Englandi og síðan Bandaríkjunum sem reistu þar varanlega herstöð, auk þess að landið lýsti yfir fullu sjálfstæði frá Danaveldi 1944. „… með hernámi Breta og síðar Bandaríkjamanna voru á stríðstímum fleiri enskumælandi en íslenskumælandi hér á landi.“[12]
Íslensk málnefnd
[breyta | breyta frumkóða]Íslenzk málnefnd, sem þá hét, var stofnuð með reglugerð frá menntamálaráðherra 30. júlí 1964. Lög um Íslenska málnefnd (80/1984) tóku gildi í upphafi árs 1985 þar sem einnig var kveðið á um stofnun Íslenskrar málstöðvar. Ný lög um Íslenska málnefnd tóku gildi árið 1990 (2/1990). Með lögunum 1990 var hlutverk hennar skilgreint sem miðlægt í opinberum íhlutunum af þróun tungumálsins, skyldi stofnunin vera „stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál og til hennar skyldi leitað áður en settar væru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenska tungu.“ Þá var Málnefndinni gert að eiga samstarf við „þá sem hefðu með mannanöfn og örnefni að gera og sömuleiðis þá sem hefðu mikil áhrif á málfar almennings en þar var átt við fjölmiðla og skóla.“ Þá skyldi nefndin „annast söfnun nýyrða, vera til staðar við val nýrra orða og við myndun nýyrða, meðal annars með því að vinna að skipulegri nýyrðastarfsemi í landinu og vera í samvinnu við starfandi orðanefndir.“[1]
Árið 2006 var Íslensk málstöð, skrifstofa og framkvæmdastofnun Íslenskrar málnefndar, sameinuð fleiri stofnunum á sviði íslenskra fræða og til varð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (lög nr. 40/2006). Ýmis hlutverk nefndarinnar færðust þá undir verksvið málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Nefndin hefur þó enn það kjarnahlutverk að gera tillögur að íslenskri málstefnu, gera ábendingar við stjórnvöld, gefa út árlega skýrslu um stöðu tungumálsins, og ákveða samræmdar stafsetningarreglur. Þá var nefndinni, með sömu lögum, falið að skila tillögum að opinberri málstefnu til Menntamálaráðherra. Tillögurnar voru kynntar 16. nóvember 2008. Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls sem tóku gildi árið 2011 voru enn ný ákvæði um Íslenska málnefnd, sem þó hélt að mestu fyrra hlutverki sínu.[1]
Á grundvelli ákvæða laganna um „frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert“ hefur málnefndin veitt kennurum og öðrum verðlaun.[1]
Norrænt samstarf
[breyta | breyta frumkóða]Í yfirlýsingu norrænu ráðherranefndarinnar um norræna málstefnu segjast stjórnvöld meðal annars miða að því að allir Norðurlandabúar geti lesið og skrifað tungumál þess samfélags sem þeir búa í, átt samskipti hver við annan, „fyrst og fremst á skandinavísku máli“, hafi undirstöðuþekkingu á tungumálaréttindum og stöðu tungumála á Norðurlöndum, kunni eitt alþjóðatungumál mjög vel og annað erlent tungumál vel og hafi almenna þekkingu á því hvað tungumálið er og hvað það felur í sér.[1]
Segir í skýrslu íslenskrar málnefndar að eftir allnokkra umræðu um norrænu málstefnuna í Málráði Norðurlanda, ásamt norrænu málnefndunum, hafi það verið „sameiginlegt mat manna að stórt skref hefði verið stigið í rétta átt. Eigi markmiðin að nást sé hins vegar „brýnt að huga að tungumálinu (tungumálunum) í hverju landi og stöðu þess (þeirra) á öllum sviðum þjóðlífsins til þess að hvergi komi til þess að umdæmi hverfi yfir til ensku eða hugsanlega annarra erlendra mála. Þá verða Íslendingar, rétt eins og aðrar Norðurlandaþjóðir, að halda vöku sinni og er það kjarninn í tillögum Íslenskrar málnefndar.“[1]
Útbreiðsla málverndar
[breyta | breyta frumkóða]Málverndarstefnan virðist útbreidd innan íslenskra stofnana og meðal almennings. Engin nákvæm tölfræði virðist hafa verið tekin saman um útbreiðslu hennar en allmargar vísbendingar má þó finna í annar skonar heimildum. Þannig hefur Aðalsteinn Grétar Guðmundsson það eftir Kjartani G. Ottóssyni að íslensk blöð hafi „talið sér það til gildis ef málfar er vandað, ólíkt erlendum blöðum, t.d. í Danmörku, þar sem fréttaflutningur er oft það útlenskuskotinn að erfitt er fyrir alþýðufólk að skilja það sem sagt er.“ [9] Árið 1986 gerði Halldór Halldórsson prófessor rannsókn á viðhorfi stjórnvalda og þáverandi stjórnmálaflokka til íslenskrar málstefnu sem leiddi í ljós að allir íslenskir stjórnmálaflokkar aðhylltust „málvernd og málrækt í hefðbundnum skilningi“. Þá eru til dæmi um börn sem sinna málvernd, en í fyrrnefndri ritgerð Aðalsteins Grétars má lesa um 13 ára pilta sem stofna Félag íslenskumælandi ungmenna sem er „ætlað að berjast gegn enskuslettum og slanguryrðum í íslenskri tungu.“ Drengirnir heimsóttu menntamálaráðuneytið og sögðust „vilja vekja athygli á málfari ungs fólks á Íslandi og að kominn væri tími til að stöðva lélegt málfar og innrás slettna og slanguryrða inn í íslenskt mál.“ Drengirnir töldu mikilvægt „að taka á málinu fyrr“ en aðalnámskrá gerir ráð fyrir, „allt niður í leikskólabörn sem ættu eldri systkini og jafnvel foreldra sem þau gætu apað eftir.“ Sagt er að „margir áhugasamir“ hafi sett sig í samband við börnin, „einstaklingar, leikskólar, fyrirtæki og meira að segja erlendir aðilar.“ Höfundur virðist ekki líta á söguna sem einstaka, heldur segir að börnin séu „ágætt dæmi um ungmenni á Íslandi sem láta sig málin varða.“ [9]
Loks virðist málvernd hafa skotið rótum meðal íslenskra þýðenda og jafnvel rithöfunda. Til dæmis má hafa grein eftir Rúnar Helga Vignisson í Lesbók Morgunblaðsins árið 2004, þar sem segir meðal annars: „Gleymum því ekki, við sem unnum íslenskri tungu og bókmenntum, að byssuhlaupið er við gagnaugað.“ Í greininni segir Rúnar Vignir ennfremur að með veigamiklum rökum megi „halda því fram að það sem geri okkur að þjóð, ekki síst menningarþjóð, sé að við þýðum, enda eru orðin þjóð og þýða samstofna.“ Rúnar Helgi vísar til bókarinnar Spoken Here, Travels Among Threatened Languages, þar sem megi lesa að „eitt af einkennum þeirra síðustu sem tala tiltekið tungumál sé að þeir sletti ótæpilega úr öðrum málum.“ Rúnar Helgi rekur síðan hversu víða megi finna erlendar „slettur“ í íslenskri málnotkun um það leyti. Enskan sé „„killer language“, drápsmál sem engu eirir. … Og þeir svartsýnustu spá frönskunni, því stolta vígi, falli á þessari öld.“[13]
Staða baráttunnar
[breyta | breyta frumkóða]Guðrún Kvaran hefur greint á milli tökuorða, orða sem berast tungumálinu og „verða íslensk“ og aðkomuorða:
Aðkomuorð eru orð af erlendum uppruna, sem ekki hafa öðlast almenna viðurkenningu, oftast vegna þess að þau stinga á einhvern hátt í stúf við málkerfið og bera einhver merki uppruna síns í stafsetningu, framburði eða byggingu. Þau hafa oft verið kölluð slettur, en það orð hefur fengið neikvæða merkingu og því er aðkomuorð, og stundum framandorð, fremur valið sem heiti. Orðið sletta er nú oftar notað um erlend orð, sem ekki eru viðurkennd sem hluti orðaforðans og eru ekki aðlöguð að hljóð- og beygingakerfkerfi málsins.[12] |
Sagt hefur verið að erfitt sé að finna ensk orð í íslensku ritmáli, þeim bregði frekar fyrir í talmáli.[12] Þó hefur því einnig verið haldið fram að munurinn liggi frekar á milli formlegs og óformlegs máls en talmáls og ritmáls: að í óformlegri málnotkun séu ensk töku- og aðkomuorð algengari en í formlegri málnotkun. Rannsókn gerð árið 2004 gaf þó til kynna að í óformlegu máli væru ensk orð aðeins 0,7% sagðra og skrifaðra orða.[12] Skoðanakönnun sem var gerð á málnotkun gaf til kynna að yngri kynslóðir noti ensk orð meira en eldri kynslóðir og tekjuhærri hópar meira en tekjulágir. Þeir sem höfðu tölvu með netsambandi eru sagðir nota ensku meira en þeir sem ekki eru tengdir með þeim hætti.[1]
Gagnrýni
[breyta | breyta frumkóða]Ein gagnrýni á forsendur málverndar er sú að tungumál séu „ekki einsleit fyrirbæri“, í hverju tungumáli séu „ólík málafbrigði, bæði félagsleg og landfræðileg,“ og munurinn á milli þeirra geti jafnvel orðið „meiri en á milli tveggja aðskilinna tungumála.“[3] Bent hefur verið á að skilgreining ólíkra tungumála byggi á félags-pólitískum forsendum ekki síður en málvísindalegum, og til dæmis teljist meänkieli aðeins mállýska í Finnlandi en sérstakt tungumál í Svíþjóð.[3] Kristján Árnason hefur ennfremur bent á að sænska, norska og danska séu svo lík að málfræðilega gætu þau talist mállýskur í einu máli, en vegna ríkjaskpiptingar Norðurlanda sé farið með þau sem þrjú aðskilin tungumál.[3]
Davíð Logi Sigurðsson hefur sagt að tengsl þjóðar og tungu séu goðsögn og sem slík afsprengi þjóðernisorðræðu en ekki náttúruleg staðreynd. Hann nefnir dæmi Íra og írsku máli sínu til stuðnings: Írar hafi ekki hætt að vera þjóð þó að þeir hafi hætt að tala hið fyrra tungumál sitt.[3] Stankovitsová bendir að auki á þjóðir sem tala nógu lík tungumál til að þau teljast eitt og hið sama, og þá áherslu sem þá er lögð á aðgreiningu: reglur austurrískrar þýsku sé skilgreindar sjálfstætt frá þýskri þýsku. Iver Neumann bendir á tungumálapörin serbnesku–króatísku og rússnesku–úkraínsku, þar sem munurinn er óverulegur en lögð áhersla á aðgreiningu. [14]
Þá má finna gamlar heimildir um þann draum meðal manna að jarðarbúar tali allir eitt og sama tungumálið. Hugmyndinni um ágæti þess hefur David Crystal svarað með ábendingum um að borgarastyrjaldir hafi líka átt sér stað í eintyngdum löndum.[2]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 Íslenska til alls, Íslensk málnefnd 2009, bls. 11[óvirkur tengill]
- ↑ 2,0 2,1 Kolbrún Friðriksdóttir, Málvernd: Íslensk málvernd sem fyrirmynd að varðveislu ketsjúa, lokaritgerð við Hugvísindasvið HÍ, maí 20122
- ↑ 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 3,10 Zuzana Stankovitsová, „Stendur og fellur þjóðin og málið hvort með öðru“: Tungumál og mótun íslenskrar sjálfsmyndar, lokaverkefni við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, maí 2012
- ↑ Sverrir Jakobsson, „Sjálfsmynd miðalda og uppruni Íslendinga“, Þjóðerni í þúsund ár?, ritstj. Jón Yngi Jóhannsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Sverrir Jakobsson, Háskólaútgáfan 2003, bls. 17–37
- ↑ Arngrímur Jónsson, Crymogæa: Þættir úr sögu Íslands, þýð. Jakob Benediktsson, Sögufélag Reykjavíkur 1985
- ↑ Gunnar Karlsson, „Íslensk þjóðernisvitund á óþjóðlegum öldum“ í Skírni, 173. tbl, vor 1999, bls. 141–178.
- ↑ Ágústa Berglind Hauksdóttir og Sigríður Pálmarsdóttir, Staða ritmáls unglinga í nútímasamfélagi, Lokaverkefni við HA 2008
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 Alice Emma Zackrison, Danskir innflytjendur á Íslandi: tungumálið er glugginn að menningunni og grundvöllur aðlögunar, meistaraprófsritgerð við Háskólann á Akureyri, desember 2010
- ↑ 9,0 9,1 9,2 9,3 Aðalsteinn Grétar Guðmundsson, Málvernd: áhrif alþjóðavæðingar á íslenska tungu, lokaverkefni við Háskólann á Akureyri, júní 2010
- ↑ Gottskálk Þór Jensson, „Söguleysa þjóðlegrar sagnfræði: íslenskt þjóðerni og evrópsk latínumenning“, í Þjóðerni í þúsund ár?, ritstj. Jón Yngi Jóhannsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Sverrir Jakobsson, Háskólaútgáfan 2003, bls. 57–71
- ↑ Rasmus Christian Rask, „Boðsbréf Rasks til Íslendinga og Íslands vina í Kaupmannahöfn, að halda fund og taka sig saman til að koma á fót hinu íslenzka Bókmentafélagi. Kaupmannahöfn 1. janúar 1816“ í Hið íslenzka bókmentafélag. Stofnun félagsins og athafnir um fyrstu fimmtíu árin: 1816–1866, Kaupmannahöfn 1867, bls 62–65.
- ↑ 12,0 12,1 12,2 12,3 Vigdís Garåsen, Enska í íslensku: staða og áhrif enskunnar í íslensku máli, lokaverkefni við Háskóla Íslands, maí 2010
- ↑ Rúnar Helgi Vignisson, „Þýðinguna eða Lífið“ í Lesbók Morgunblaðsins 1. maí 2004, bls. 6
- ↑ Iver B. Neumann, Uses of the Other: "The East" in European Identity Formation, University of Minnesota Press, Minneapolis.