Fara í innihald

Æðarfugl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Æður)
Æðarfugl
Bliki og kolla
Bliki og kolla

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Gásfuglar (Anseriformes)
Ætt: Andaætt (Anatidae)
Ættkvísl: Æðarfuglar (Somateria)
Tegund:
S. mollissima

Tvínefni
Somateria mollissima
(Linnaeus, 1758)
Grænt: varpsvæði Blátt: vetrarsvæði/fæðusvæði
Grænt: varpsvæði
Blátt: vetrarsvæði/fæðusvæði
Undirtegundir

Æðarfugl eða æður (fræðiheiti: Somateria mollissima) er stór sjóönd sem er útbreidd norðan megin á strandlengju Evrópu, Norður Ameríku og Síberíu. Hann verpir á Norðurslóðum og sums staðar í norðurhluta tempraðra svæða en hefur vetursetu í suðurhluta tempraðra svæða þar sem oft má sjá þá í stórum flokkum í flæðarmálinu.

Æðarfugl er algeng andartegund á Norðurslóðum. Hann er um 2 kg að þyngd, 50 - 71 cm stór og vænghafið er 80 - 108 cm. Hann er með stærstu andartegundum og er kubbslega vaxinn, gildvaxinn og flatvaxinn með aflangt og stórt höfuð. Karlfuglinn sem nefnist bliki er hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta hettu, roðalitaða bringu og græna flekki á hnakka en vængirnir eru svartir með hvítum fjöðrum. Kvenfuglinn sem nefnist kolla er brún á lit. Æðarfugl er þungur á sér á flugi en er mikill sundfugl og góður kafari.

Útbreiðsla og atferli

[breyta | breyta frumkóða]
Æðarfugl í dýragarði í Englandi

Æður verpir nærri sjó og er oft í stórum og þéttum hólmum. Hreiðrið er opið og fóðrað með dúni. Kollan verpir venjulega 4-6 eggjum í maí til júní. Hún fóðrar hreiðrið að innan með æðardúni sem hún reitir af brjósti sér. Æðarfugl er staðfugl á Íslandi og hópar sig saman svo til allt árið og eru hóparnir oft mjög stórir. Utan varptímans heldur æðarfugl sig oft við árósa, víkur og voga í þúsundatali. Æðarfugl nær 10-20 ára aldri.

Æðarfuglar halda til meðfram ströndinni allt árið. Uppruni kollunnar ræður hvar varpstaður er, en varpið hefst um miðjan maí. Útungungartíminn er um 4 vikur. Innan við sólarhring eftir að ungarnir fæðast leitar kollan með þá út á sjó í fæðuleit. Við fjaðrafelli hópa blikarnir sig saman á stöðum þar sem fæða er nóg og þeir öruggir. Geldfuglar halda sig á sömu slóðum, en kollurnar mynda oft sérhópa síðari hluta sumars. Blikarnir byrja þegar í júní að hópast saman í fellihópa en blikahóparnir leysast svo upp í september til október og paramyndun hefst. Áætlað er að fjöldi æðarfugla sem hafa vetursetu á Íslandi sé um 973 þúsund.

Fæða æðarfugls

[breyta | breyta frumkóða]

Æðarfugl lifir á kræklingum og öðrum lindýrum sem hann veiðir í sjó. Æðarfuglar afla yfirleitt fæðunnar á minna en 15 metra dýpi. Æðarfuglar gleypa marga smávaxna kræklinga við hverja köfun. Á útmánuðum er loðna og loðnuhrogn oft aðalfæða æðarfugla. Kollur með unga éta fyrst og fremst marflær. Eftirsóttasta fæða fullorðins æðarfugls er samlokur, einkum kræklingar og skyldar tegundir en sniglar eru í öðru sæti. Æðarfugl étur einnig krabbadýr eða skrápdýr, einkum krossfiska, sæbjúgu og ígulker.

Nytjar af æðarfugli

[breyta | breyta frumkóða]

Æðarfugl er einn mesti nytjafugl á Íslandi. Árið 1786 var sett ákvæði í lög um takmarkaða friðun en frá árinu 1847 hefur æðarfugl verið alfriðaður. Öll meðferð skotvopna er bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Oft er umferð um æðarvarp bönnuð á varptíma. Æðarvarp er mikilvæg hlunnindi á mörgum bújörðum og á árinu 1987 höfðu 419 jarðir dúntekjur. Flest æðarvörp á Íslandi eru tilbúin þ.e. mótuð af eigendum æðarvarpsins. Landeigendur vaka yfir varpinu og hæna að æðarfugla en stugga burtu og skjóta vargfugla, refi og minka. Æðardúnn hefur verið nýttur öldum saman m.a. í sængur og kodda og sem einangrun í kuldafatnað. Nytjar af æðarfugli á Íslandi hafa numið um 3.000 kg af æðardúni á ári. Úr hverju hreiðri fást 15 - 20 grömm af æðardún, þannig að um 60 hreiður þarf til að fá í 1 kíló af dún.

Æðarfugl er ein mikilvægasta fæða íslenska arnarins.

Somateria mollissima
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Common Eider“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. júlí 2006.
  • „Kræklingarækt og æðarfugl - höf. Valdimar Ingi Gunnarsson“. Sótt 12. júlí 2006.
  • „Fuglavefurinn - Æðarfugl“. Sótt 12. júlí 2006.
  • „Æðarvarpið í Orrustutanga“. Sótt 12. apríl 2009.
  • Jónas Jónsson, Æðarfugl og æðarrækt á Íslandi

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]