Fara í innihald

Ásdís Halla Bragadóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ásdís Halla Bragadóttir (f. 6. júlí 1968) er íslenskur stjórnmálafræðingur, rithöfundur og ráðuneytisstjóri í Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Hún hefur m.a. starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu, framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, bæjarstjóri í Garðabæ, forstjóri BYKO[1] og verið stjórnarformaður EVA Consortium ehf. sem er fyrirtæki á sviði einkarekinnar velferðar- og heilbrigðisþjónustu.[2]

Ásdís Halla ólst upp í Ólafsvík til níu ára aldurs en fluttist þá ásamt foreldrum sínum og systkinum til Svíþjóðar og Noregs. Fjölskyldan fluttist aftur til Íslands árið 1979 og settist þá að á Akranesi. Ásdís Halla lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1988, BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991, MA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1991-1993, var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 1993-1995, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra frá 1995-1999 og framkvæmdastjóri nýsköpunar- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík árið 2000.[1] Hún var ráðin bæjarstjóri í Garðabæ árið 2000[3] og gegndi starfinu í fimm ár, eða til ársins 2005 er hún var ráðin forstjóri BYKO.[4] Hún starfaði hjá BYKO í tvö ár og lét af störfum haustið 2007.[5] Í gegnum fyrirtækið EVA Consortium ehf. var Ásdís Halla einn eigenda fyrirtækjanna Sinnum og Klínikin sem eru einkarekin fyrirtæki á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Í desember árið 2021 var Ásdís Halla ráðin verkefnastjóri við undirbúning stofnunar nýs ráðuneytis vísinda, iðnaðar og nýsköpunar[6] og í apríl 2022 var hún skipuð ráðuneytisstjóri Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.[7]

Ásdís Halla var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 1997-1999 en hún var fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu.[8] Hún var einnig formaður Frjálsíþróttasambands Íslands um tíma.

Eiginmaður Ásdísar Höllu er Aðalsteinn Jónasson lögfræðingur og dómari við Landsrétt og eiga þau þrjú börn.

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

 • Í hlutverki leiðtogans - líf fimm forystumanna í nýju ljósi (2000)
 • Tvísaga. Móðir, dóttir, feður (2016)
 • Hornauga (2018)
 • Ein (2020)
 • Læknirinn í Englaverksmiðjunni (2021)

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 „Ásdís Halla Bragadóttir“, Vera tímarit, 5. tbl. 19. árg. 2000, bls. 33 (skoðað 8. nóvember 2019)
 2. Vb.is, „Hótel Ísland auglýst til sölu“ (skoðað 8. nóvember 2019)
 3. „Ásdís Halla ráðin bæjarstjóri í Garðabæ“, Morgunblaðið, 31. ágúst 2000 (skoðað 8. nóvember 2019)
 4. Visir.is, „Ásdís Halla verður forstjóri BYKO“ (skoðað 8. nóvember 2019)
 5. Mbl.is, „Forstjóraskipti hjá BYKO“ (skoðað 8. nóvember 2019)
 6. Kjarninn.is, „Ásdís Halla ráðin til að koma að mótun nýs ráðuneytis Áslaugar Örnu“ Skoðað 5. júlí 2022
 7. Stjornarradid.is, „Ásdís Halla Bragadóttir er nýr ráðuneytisstjóri í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu“ Skoðað 5. júlí 2022.
 8. „Vona að mitt framboð verði hvatning fyrir aðrar konur“, Morgunblaðið, 16. september 1997 (skoðað 8. nóvember 2019)