Fara í innihald

Ágúst George

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Séra Ágúst George (5. apríl 192816. júní 2008), fæddur Augustinus George en oftast kallaður séra Georg, var hollenskur prestur við kaþólsku dómkirkjuna á Íslandi, Kristskirkju og skólastjóri Landakotsskóla frá 1962 til 1998.

Séra Georg fæddist í þorpinu Wijlre í Hollandi. Tólf ára gamall hóf hann nám í drengjaskóla Montfortreglunnar í Schimmer sem er hin sama Montfortregla og hefur starfað á Íslandi síðan 1903. Eftir reynsluár sín í Meerseen í Limburg vann séra Georg fyrstu heit sín hinn 8. september 1950 og hóf nám í heimspeki og guðfræði í Oirschot, en því lauk með prestsvígslu 11. mars 1956. Árið 1962 var séra George beðinn að taka að sér stjórn Landakotsskóla og stýrði skólanum í 36 ár. Hann var staðgengill biskups frá 1969 og gegndi tvívegis biskupsstörfum um skeið, eftir lát Hinriks Frehen 1986 og eftir lát Alfreds Jolson 1994. Hlaut hann hina íslensku fálkaorðu fyrir störf sín árið 1994. Ágúst George hvílir í Landakotskirkjugarði.

Árið 1991 gerði Sigmar B. Hauksson hálftíma heimildarmynd um séra Ágúst George sem nefndist Perla í Vesturbænum.

Árið 2011 komu upp á yfirborðið sögusagnir sem lengi höfðu kraumað undir niðri um níðingsskap séra Georges í garð barna í Landakotsskóla og í sumarbúðum kaþólsku kirkjunnar í Rifstúni. Jafnframt kom á daginn að Margrét Müller, þýskættaður kennari við skólann, hafði einnig svívirt og niðurlægt börn með vitneskju og oft þátttöku séra Georges. Kaþólska kirkjan skipaði rannsóknarnefnd sem gaf út 2. nóvember 2012 skýrslu þar sem ásakanir um viðurstyggilegt athæfi þeirra í garð barna komu fram. Jafnframt var upplýst að yfirmönnum kaþólsku kirkjunnar (þar á meðal Alfred Jolson biskupi), nunnum í Landakoti og kaþólskum prestum hefði oft verið sagt frá hátterni séra Georges, en enginn gert neitt í málinu.[1]

  • „„Fagnaði 50 ára prestsvígslu". Gagnasafn Morgunblaðsins, sótt 21. júní 2011“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. ágúst 2013. Sótt 5. nóvember 2012.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.