Á selaslóð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Á selaslóð - Húnaþing vestra

Á selaslóðum (e. The seal circle) er ný ferðamannaleið á Norðvesturlandi. Hún er 111 kólómetra löng og liggur um Vatnsnesið[1] og yfir í Víðidal í Húnaþingi vestra[2]. Hún varð til í mars 2021 og er í anda Demantshringsins[3] á Norðausturlandi . Markmiðið er að laða ferðamenn að í Húnaþing vestra. Á selaslóð er hringleið, allt frá Hvammstanga um Vatnsnesið, yfir í Kolugljúfur í Víðidal og til baka aftur á Hvammstanga.

Þessi ferðamannaleið gengur út á að koma því þannig fyrir að ferðamenn geti auðveldlega komist að því hvert hægt sé að fara og hvað sé hægt að gera á svæðinu. Ferðamannaleiðin "Á selaslóðum" er markaðstæki fyrir ferðaþjónustuna í Húnaþingi vestra og er ferðafólk hvatt til stoppa og fara út úr bílnum.

Að ferðast um "Á selaslóðum"[breyta | breyta frumkóða]

Hvammstangi frá þjóðveginum

Hvammstangi[breyta | breyta frumkóða]

Hvammstangi, er helsti selaskoðunarstaður landsins, þaðan sem stutt er í látrin. Hvammstangi er kauptún í Húnaþingi vestra. Hann var upphaflega í Kirkjuhvammshreppi en var gerður að sérstökum hreppi, Hvammstangahreppi, hinn 1. júlí 1938. Íbúar voru 543 árið 2015 og 614 árið 2020[4].

Hamarsrétt á Vatnsnesi
Hamarsrétt á Vatnsnesi

Hamarsrétt, er með einstöka staðsetningu við sjóinn. Hamarsrétt er fjárrétt á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi. Réttarstæði Hamarsréttar er talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi.

Norðan við ós Hamarsár er lítið félagsheimili sem heitir Hamarsbúð[5].

Illugastaðir - Á selaslóð - Húnaþing vestra
Illugastaðir - selaskoðunarstaður á Vatnsnesi

Illugastaðir, er frægur selaskoðunar- og sögustaður. Á Illugastöðum á vestanverðu Vatnsnesi hefur verið byggður upp góður selaskoðunastaður. Gott bílaplan er á staðnum og þjónustuhús með salernisaðstöðu. Lagðar hafa verið lagðar gönguleiðir með sjónum. Á skerjum fyrir utan og syndandi í sjónum má flesta daga ársins sjá fjölmarga seli. Einnig hefur verið reist selaskoðunarhús út í tanga. Þar eru upplýsingar um selina og góð aðstaða til að fylgjast með selunum á sundi og liggjandi í skerjum. Athugið! Vegna mikils æðarvarps sem er á Illugastöðum þá er selaskoðunasvæðið lokað frá 30. apríl til 20. júní ár hvert[6].

Morðin á Illugastöðum. Agnes Magnúsdóttir (fædd 27. október 1795, dáin 12. janúar 1830) varð síðasta konan til að vera tekin af lífi á Íslandi. Hún var dæmd til dauða ásamt Friðriki Sigurðssyni fyrir morð á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Þau voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830.[7]

Hvítserkur - Á selaslóð - Húnaþing vestra
Hvítserkur á Vatnsnesi

Hvítserkur, er tignarlegur og Ósar með sitt einstaka selalátur. Hvítserkur er sérkennilegur klettadrangur sem brimið hefur sorfið göt í. Hvítserkur fær nafn sitt af fugladriti því sem fuglar skilja eftir sig með búsetu sinni á dranganum. Á fjöru er hægt að ganga upp að Hvítserki.

Sagan segir að Hvítserkur sé steinrunninn tröllkarl. Þjósaga er um Hvítserk að hann hafi í forneskju verið tröll sem bjó norður á Ströndum sem vildi brjóta niður kirkjuklukkur Þingeyraklausturskirkju. Leiðin var torsóttari en hann gerði ráð fyrir og þegar sólin reis um morguninn hafði honum ekki tekist að ljúka ætlunarverki sínu og breyttist hann  því í stein er hann leit fyrstu sólargeislana[8].

Borgarvirki - Á selaslóðum
Borgarvirki á Vatnsnesi

Borgarvirki, er klettaborg sem var nýtt sem varnarvirki á þjóðveldisöld. Virkið er klettaborg úr 10-15 metra háu stuðlabergi sem opnast til austurs. Borgarvirki er sem slík ein af merkustu fornminjum á Íslandi.

Sagan segir að þar hafi Víga-Barði Guðmundsson í Ásbjarnarnesi verið á ferð. Hann deildi við Borgfirðinga eins og segir frá í Heiðarvíga sögu. Sagt er að óvinir hans hafi komið að sunnan með óvígan her.  En Barði barst af því njósnir og kom sér og sínum mönnum fyrir í Borgarvirki, þar sem ómögulegt reyndist að sækja að honum. Tóku Borgfirðingar á það ráð að ætla að svelta Barða og hans menn inni. Þegar matinn þraut tóku virkisbúar sig til og hentu síðasta mörsiðrinu (sláturkeppnum) út úr virkinu. Voru þá Borgfirðingar vissir um að Barði hefði nægar vistir og héldu heim á leið. Frábært útsýni er úr Borgarvirki og þar hefur verið sett upp útsýnisskífa[9].

Kolugljúfur
Kolugljúfur

Kolugljúfur, er fallegt og stórbrotið og kennd við tröllskessuna Kolu. Neðan við bæinn Kolugil rennur Víðidalsá niður í stórbrotið gljúfur sem er á annan kílómeter að lengd og allt að 40-50 metra djúpt. Áin fellur í Kolugljúfur í tveimur tilkomumiklum fossum er nefnast Kolufossar og eru kenndir við tröllkonuna Kolu. Fleiri örnefni á þessum slóðum bera vitni um tilvist Kolu. Laut í vestanverðu gljúfrinu, rétt við brúna var svefnstaður skessunnar og kallast Kolurúm.

Góðar gönguleiðir eru meðfram gilinu sitthvoru megin, fara verður þó með varúð og hætta sér ekki of nærri gilinu. Þvergil lokar leið að vestanverðu svo ekki er hægt að ganga hringleið niður á Víðidalsbrúna[10].

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Norðurlands, Markaðsstofa. „Vatnsnes,Selir, selaskoðun, Borgarvirki, Hvítserkur“. Norðurland . Sótt 6. apríl 2021.[óvirkur hlekkur]
  2. vestra, Húnaþing. „Húnaþing vestra“. Húnaþing vestra . Sótt 6. apríl 2021.
  3. Norðurlands, Markaðsstofa. „Demantshringurinn“. Demantshringurinn . Afrit af upprunalegu geymt þann 15. janúar 2021. Sótt 6. apríl 2021.
  4. „Hvammstangi“, Wikipedia, frjálsa alfræðiritið , 1. júní 2021, sótt 1. júní 2021
  5. „Hamarsrétt“, Wikipedia, frjálsa alfræðiritið , 17. nóvember 2009, sótt 1. júní 2021
  6. „Selaskoðun við Illugastaði“. Húnaþing vestra . Sótt 31. maí 2021.
  7. „Agnes Magnúsdóttir“, Wikipedia, frjálsa alfræðiritið , 7. maí 2021, sótt 11. ágúst 2021
  8. „Hvítserkur“. Húnaþing vestra . Sótt 31. maí 2021.
  9. „Borgarvirki“. Húnaþing vestra . Sótt 31. maí 2021.
  10. „Kolufossar“. Húnaþing vestra . Sótt 31. maí 2021.