Tenzin Gyatso

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tenzin Gyatso árið 2012.

Jetsun Jamphel Ngawang Lobsang Yeshe Tenzin Gyatso, upphaflega nefndur Lhamo Dhondrub (fæddur 6. júlí 1935 í þorpinu Taktser, Amdo-héraði í þáverandi norðaustur Tíbet (nú hluti af héraðinu Qinghai í Kína)), betur þekktur sem fjórtándi og núverandi Dalai Lama, er aðalleiðtogi tíbetskra búddista og forsvarsmaður tíbetsku útlagastjórnarinnar í Dharamsala. Hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels 1989.

Æskuár og afhjúpun sem Dalai Lama[breyta | breyta frumkóða]

Tenzin Gyatso var nefndur Lhamo Dhondrub af foreldrum sínum í þorpinu Taktser í tíbetska héraðinu Amdo. Hann var fimmta barnið af 16 hjá fátækri bóndafjölskyldu. Samkvæmt spádómi átti þrettándi Dalai Lama endurfæðast í austurhluta Tíbet, tíbetska ríkisstjórnin sendi þess vegna hóp munka og ríkisstarfsmanna dulbúna sem kaupmenn til Amdo-héraðsins til að leita uppi hin endurholdgaða Dalai Lama.Þar var gerður listi yfir mögulega einstaklinga og seinnipart vetrar 1937 komu sendimenn í það hús í þorpinu Taktser, þar sem fjölskylda Lhamo Dhondrub bjó, hann var þá tveggja ára. Þegar einn af hinum dulbúnu munkum spurði drenginn hvort hann gæti giskað á hvað hann héti svaraði drengurinn ekki einungis hárrétt heldur bætti við hvaða klaustri munkurinn tilheyrði. Lhamo Dhondrub var þá settur í margfaldar rannsóknir og var þá helst að hann var látinn velja hluti sem höfðu tilheyrt hinum þrettánda Dalai Lama meðal fjölmargra svipaðra hluti. Án þess að hika valdi Lhamo Dhonrub alla réttu hlutina. Drengurinn var einnig skoðaður í bak og fyrir og þótti hafa ýmis sömu líkamseinkenni og forverinn, þótti þar með sannað að hér væri Dalai Lama endurborinn.[1]

Tveggja ára sem úrskurðaður endurborinn Thubten Gyatso, hinn þrettándi Dalai Laman, var drengnum gefin nöfnin Jetsun Jamphel Ngawang Lobsang Yeshe Tenzin Gyatso (Heilagur herra, mildi heiður, miskunnsami, verndari trúarinna, haf visku). Tíbetanar nefna hann iðulega Kundun (སྐུ་མདུན་) - Nærverandi. Nokkur systkini hans voru seinna fundin vera endurfæddir lamar, meðal annarra eldri bróðir hans Thubten Jigme Norbu.

Á þessum tíma var Amdo-héraðið undir stjórn herforingjans Ma Bufang, munkarnir þurftu þess vegna að fá leyfi hjá honum til að taka Lhamo Dhondrub með sér til Lhasa. Þeir neyddust til að borga hundruð þúsunda silfurdollara í lausnargjald og héldu síðan með drenginn til Lhasa 1939 þar sem hann hóf nám í búddískum fræðum. Megnið af fjölskyldu Lhamo Dhondrubs fluttu síðar til borgarinnar.

Leiðtogi Tíbet[breyta | breyta frumkóða]

Fimmtán ára gamall, 17. nóvember 1950, var hann formlega gerður að þjóðhöfðingja Tíbets. Hersveitir úr kínverska Frelsisher alþýðunnar voru þá þegar búnar að hertaka hluta af Tíbet og ríkisstjórn Dalai Lama neyddist, 1951, til að skrifa undir samning sem viðurkenndi yfirráðarétt Kína yfir Tíbet en þar sem kínverska ríkisstjórnin lofaði samtímis að stjórn Dalai Lama sæti áfram að völdum í landinu.

Dalai Lama ásamt Chökyi Gyaltsen þáverandi Pantsen Lama var boðið til Peking 1954 af kínversku ríkisstjórninni til að taka þátt í fyrsta Alþýðuþingi Kína. Þar hitti hann ýmsa helstu leiðtoga kínverskra kommúnista, meðal annars Mao Zedong, Zhou Enlai og Chen Yi.[2] Meðan á heimsókninni stóð sótti Tenzin Gyatso um að fá að ganga í Kommúnistaflokk Kína en var hafnað.[3]

Árið 1956 bauð búddistasöfnuður á Indlandi þeim Dalai Lama og Panchen Lama í ferð til Indlands til að halda upp á Buddha Jayanti, 2500 ára fæðingarhátíð Gátama Búdda. Kínversk yfirvöld gáfu Dalai Lama eftir miklar vangaveltur leyfi til að fara í þessa ferð. Í þessari ferð fór hann á ýmsa helga staði á Indlandi og kynntist meðan annar hugmyndum Mahatma Gandhi um friðsamlega baráttu. [4]

Óánægja Tíbeta með aðgerðir kínverskra yfirvalda fór vaxandi og leiddi víða til skæruhernaðar og fjöldi flóttamanna leituðu til Lhasa. Dalai Lama gerði ítrekaðar tilraunir á næstu árum til málamiðlana en þegar almenn uppreisn braust út í Tíbet í mars 1959 neyddist hann til að flýja til Indlands. Kínverska ríkisstjórnin lítur á Tíbet sem óaðskiljanlegan hluta Kína en flestir Tíbetar líta enn á Dalai Lama sem leiðtoga sinn.[5]

Í útlegð[breyta | breyta frumkóða]

Tenzin Gyatso á ítalíu (2007)

Indverska ríkisstjórnin tók á móti Dalai Lama og gaf honum leyfi að setja upp útlagastjórn í Dharamsala. Þaðan hefur hann haldið áfram friðsamlegri baráttu fyrir sjálfstæði Tíbet. Hann hefur meðal annars farið í fjölda ferða til annarra landa, einnig til Íslands, til að fá stuðning.

Dalai Lama hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til friðar, samanlagt um 80 viðurkenningar. Dalai Lama fékk Friðarverðlaun Nóbels 1989[6] fyrir friðsamlega baráttu fyrri sjálfstæði Tíbet.[5]

Skuldbindingar[breyta | breyta frumkóða]

Dalai Lama hefur þrjár skuldbindingar í lífinu.

  1. Sem manneskja vill Dalai Lama efla samkennd, fyrirgefningu, umburðarlyndi, sátt og sjálfsaga meðal íbúa jarðar. Hann álítur þessi gildi sammannleg og hafin yfir trú og tíma. Þessu vill hann deila með hverjum þeim sem hann hittir.
  2. Sem trúariðkandi vill hann efla skilning og virðingu á milli trúarhópa heimsins. Þrátt fyrir mismunandi heimspeki telur hann öll trúarbrögð hafa möguleika á að stuðla að vexti manneskjunnar. Hver og einn finnur sér sinn sannleik eða trú, sem getur aldrei orðið sá sami fyrir alla. Fyrir heiminn allan er því þörf á mörgum trúarbrögðum og gagnkvæmur skilningur og virðing á milli þeirra er nauðsynlegur.
  3. Sem Dalai Lama leiðtogi Tíbeta vill hann vinna fyrir hönd þeirra að friðsamlegri lausn í málefnum landsins. Tíbetar um allan heim bera traust til Dalai Lama og hann ber þá ábyrgð að vera talsmaður í baráttu þeirra fyrir réttlæti. Hann mun vinna að þessari þriðju skuldbindingu þar til Tíbetar og Kínverjar hafa komist að gagnkvæmu samkomulagi um heillavænlega lausn á málefnum landanna.[5]

Dalai Lama býr í einföldum híbýlum í þorpinu McLeod Ganj sem er staðsett í tæplega 2000 metra hæð í Himalajafjöllunum í norðvesturhluta Indlands.[5]

Dalai Lama á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Dalai Lama kom til Íslands 2009 og dvaldi þar í þrjá daga og hélt fyrirlestur í Laugardalshöll. Hann kom þann 31. maí 2009 og fór af landi 3. júní 2009. Hann tók þátt í samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju þar sem fulltrúar allra stærstu trúfélaga landsins voru saman komnir. Hann fór einnig í heimsókn í Háskóla Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt prófessorum af hugvísindasviði. Hann heimsótti líka Alþingi og sat á fund með utanríkismálanefnd Alþingis og ræddu um málefni Tíbets, umhverfis- og mannréttindamál. Þann 2. júlí 2009 hélt hann fyrirlestur um lífsgildi, viðhorf og lífshamingju og svaraði spurningum áhorfenda í Laugardalshöll. Dalai Lama var mjög snortinn eftir heimsóknina til Íslands og þakkaði fyrir góðar móttökur.[7]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. A history of modern Tibet, 1913-1951: the demise of the Lamaist state, Melvyn C. Goldstein. Univ. of California Press, 1989 ISBN 0-520-06140-3
  2. In My Own Words, Dalai Lama, Hay House, 2008, ISBN 978-0-340-78535-5
  3. Mao: The Unknown Story, Chang, Jung och Jon Halliday, Knopf 2005, ISBN 0679422714
  4. In My Own Words, Dalai Lama, 2008
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 „Hver er Dalai Lama?“. dalailama.is. 20. apríl 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. janúar 2014. Sótt 13. desember 2020.
  6. Nobel Peace Price 1989:Presentation Speech
  7. „Hans heilagleiki 14. Dalai Lama á Íslandi“. dalailama.is. 20. apríl 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. janúar 2014. Sótt 13. desember 2020.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]