Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
Fáni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna
SkammstöfunUNHCR
Stofnun1950; fyrir 74 árum (1950)
HöfuðstöðvarFáni Sviss Genf, Sviss
FramkvæmdastjóriFilippo Grandi (síðan 2016[1])
MóðurfélagAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðawww.unhcr.org

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (enska: United Nations High Commissioner for Refugees) er stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem veitir flóttamönnum heims vernd og aðstoð. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stofnaði Flóttamannastofnunina árið 1950 og höfuðstöðvar hennar eru í Genf í Sviss. Upphaflega var tilgangur stofnunarinnar sá að aðstoða flóttamenn í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina.

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðstöðvar stofnanarinnar eru nú staðsettar í Genf í Sviss en starfsemin fer einnig fram á 341 svæðisskrifstofum í  125 löndum. Í stofnuninni vinna um 9.300 manns (tölur frá 2015) og eru þar um 89% starfsmanna sem vinna á vettvangi, þar sem flóttamannaaðstoð er veitt. Í Keníu eru flestir starfsmenn flóttamannahjálpar staðsettir, eða um 477 manns sem vinna þar, Jórdanía kemur þar á eftir með 445 manns og Eþíópía næst á eftir með 413 manns. Starfsemin á vettangi er gríðarlega fjölbreytt en stofnunin býður ýmist upp á löggsæslu, samfélagsþjónustu, flutninga, læknishjálp o.s.frv. Stofnunin hefur aldrei fengið meira fjármagn til starfseminnar og árið 2015, en árlega fjárhagsáætlunin fyrir það ár var um 7 milljarðir bandaríkjadala. Búist er við því að stofnunin fái enn fleiri styrki árið 2016. Fjármagn til stofnanarinnar kemur nánast eingöngu með frjálsum framlögum, en um 86% fjármagns kemur frá ríkisstjórnum landa og frá Evrópusambandinu.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna var stofnuð í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar til að aðstoða Evrópubúa sem höfðu þurft að yfirgefa heimili sín í stríðinu. Formlega var stofnuninni komið á fót þann 14. desember 1950 af Allsherjarþinginu með þriggja ára stefnuskrá til að ljúka verkinu og svo átti hún að liðast í sundur. Árið 1951 var sett á laggirnar lagalegur stofn sem Flóttamannahjálpin átti að vinna eftir. Stofnunin hefur stækkað rekstur sinn og bætt við svæðisskristofum út um allan heim til þess að mæta vaxandi þörfum flóttamanna.

Fyrsta neyðartilvik stofnunarinnar var þegar flóttamenn byrjuðu að streyma frá Ungverjalandi til nærliggjandi landa. Um 1960 voru málefni Afríku í brennidepli þegar að nýlendur voru gerðar frjálsar. Næstu tvo áratugi hjálpuðu samtökin með erfiðleika í Asíu og í Mið- og Suður-Ameríku. Um aldamót voru ný flóttamannavandamál í Afríku og Evrópu aftur vaxandi. Árið 1954 fékk stofnunin friðarverðlaun Nóbels, fyrir vinnu sína með flóttafólki í Evrópu og svo aftur árið 1981 fyrir það að breiða út aðstoð sína til flóttamanna í öllum heiminum og með öllum þeim hindrunum sem að stofnunin verður fyrir.

Við upphaf 21. aldarinnar hefur UNHCR þurft að glíma við gríðarmikinn straum flóttamanna víðsvegar um heiminn. Á sama tíma hefur verið biðlað til stofnunarinnar um að hún nýti sérþekkingu sína til þess að hjálpa þeim milljónum manna sem eru á vergangi vegna átaka í sínu eigin landi. Þar að auki hefur stofnunin aukið umsvif sín gagnvart fólki sem ekki hefur ríkisfang. Sá hópur hefur jafnan verið minna sýnilegur en aðrir en fjöldi þeirra sem ekki hafa ríkisfang hleypur á milljónum. UNHCR hefur einnig gengið til liðs við átak Sameinuðu þjóðanna um að veita fljótari og áhrifaríkari hjálp til fórnarlamba náttúruhamfara. Fjöldi þeirra sem þurft hafa að flýja heimili sín vegna stríða, átaka og ofsókna hefur aldrei verið meiri og þeim fer ört fjölgandi. Í dag eru um 60 milljón manns á flótta en til að setja töluna í samhengi með ímynduðu dæmi væri það líkt og ef allir íbúar Frakklands væru neyddir til þess að taka flýa heimili sín. Íslendingar heyra sennilegast mest talað um flóttamannavandann í Evrópu. Undanfarin misseri hefur fjöldi flóttamanna frá Mið-Austurlöndum freistað gæfunnar og reynt að sigla yfir Miðjarðarhaf til að leita skjóls í Evrópu. UNHCR hefur þá einnig tekið á flóttamannavanda víðar í heiminum. Í Jemen hafa meira en 2 milljónir manna þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis og átaka, í Suður-Súdan er um hálf milljón manna á flótta og í Búrúndí og Líbíu hafa hundruðir þúsunda átt fótum sínum fjör að launa. Verkefni stofnunarinnar hafa því verið risavaxin undanfarin ár og ekki sér enn fyrir endann á þeim hörmungum sem hún þarf að glíma við. UNHCR hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins að veita flóttamönnum, sem hafa engan annan valmöguleika en að leggja á flótta, vernd, aðstoð og hjálp við að endurreisa framtíð þeirra. Það sé það sem mestu máli skipti þegar kemur að vernd flóttamanna. Að sama skapi hefur UNHCR skuldbundið sig til þess að vinna náið með ríkjum heimsins til þess að sjá til þess að allt það fólk sem þurfi alþjóðlega vernd hafi aðgang að henni.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Grandi skipaður Flóttamannastjóri“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 12. nóvember 2015. Sótt 25. desember 2019.