Borgarstjórn Reykjavíkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Reykjavíkurborg séð úr Hallgrímskirkju

Borgarstjórn Reykjavíkur er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum.

Borgarstjórn skipar borgarstjóra og skipar í nefndir á sínum vegum sem sjá um daglegan rekstur borgarinnar. Fulltrúar í borgarstjórn kallast borgarfulltrúar og eru fimmtán talsins. Kosið er til borgarstjórnar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti, þannig ekki er hægt að kjósa aftur áður en kjörtímabil er liðið líkt og með Alþingi. Reglulegir fundir borgarstjórnar fara fram á fyrsta og þriðja þriðjudegi hvers mánaðar.[1]

Völd borgarstjórnar[breyta]

Samkvæmt 8. grein sveitarstjórnarlaga fer borgarstjórn með stjórn Reykjavíkurborgar samkvæmt ákvæðum þeirra og annarra laga. Stjórnin hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna borgarinnar og sér um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast. Höfuðmaður borgarstjórnar og framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar er borgarstjóri sem skipaður er af stjórninni.[2]

Borgarstjórn 2014[breyta]

Í framboði voru átta listar. Þeir voru: B-listi Framsóknarflokks og flugvallavina, D-listi Sjálfstæðisflokks, R-listi Alþýðufylkingar, S-listi Samfylkingar, T-listi Dögunar, V-listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Þ-listi Pírata og Æ-listi Bjartar framtíðar. Besti flokkurinn sem bauð fram 2010 sameinaðist Bjartri framtíð. Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs leiddi lista Dögunar.

Samfylkingin hlaut 5 borgarfulltrúa, bætti við sig tveimur. Sjálfstæðisflokkur hlaut 4 borgarfulltrúa, tapaði einum. Björt framtíð hlaut 2 borgarfulltrúa, tapaði fjórum ef miðað er við Besta flokkinn og meira en helmingi fylgis þess flokks. Framsókn og flugvallarvinir hlaut 2 borgarfulltrúa en fékk engan í kosningunum 2010. Vinstrihreyfingin grænt framboð hlaut 1 borgarfulltrúa eins og áður. Píratar hlutu 1 borgarfulltrúa. Dögun og Alþýðufylkingin voru nokkuð langt frá því að fá kjörinn borgarfulltrúa.

Framsókn og flugvallarvinir hlaut fimmtánda borgarfulltrúann. Samfylkinguna vantaði 28 atkvæði til að ná inn sínum sjötta borgarfulltrúa og Bjarta framtíð vantaði 259 til að ná inn sínum þriðja manni. Sjálfstæðisflokkinn vantaði nokkuð meira eða 632 atkvæði til að halda sínum fimmta borgarfulltrúa. [3]

Flokkur Listi Atkvæði  % Menn
Sjálfstæðisflokkurinn D 14.031 25,7 4
Samfylkingin S 17.426 31,9 5
Vinstrihreyfingin – grænt framboð V 4.553 8,3 1
Björt framtíð Æ 8.539 15,6 2
Píratar Þ 3.238 5,9 2
Dögun T 774 1,4 0
Alþýðufylkingin R 219 0,4 0

Skipting borgarfulltrúa í Reykjavík 2014

Kjörnir borgarfulltrúar magn atkvæða
1. Dagur B. Eggertsson (S) 17.426
2. Halldór Halldórsson (D) 14.031
3. Björk Vilhelmsdóttir (S) 8.713
4. Björn Blöndal (Æ) 8.539
5. Júlíus Vífill Ingvarsson (D) 7.016
6. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (B) 5.865
7. Hjálmar Sveinsson (S) 5.809
8. Kjartan Magnússon (D) 4.677
9. Sóley Tómasdóttir (V) 4.553
10. Kristín Soffía Jónsdóttir (S) 4.357
11. Elsa Hrafnhildur Yoeman (Æ) 4.270
12. Áslaug María Friðriksdóttir (D) 3.508
13. Skúli Þór Helgason (S) 3.485
14. Halldór Auðar Svansson (Þ) 3.238
15. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir (B) 2.933

Borgarstjórn 2010[breyta]

Það var kosið til borgarstjórnar í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí 2010 og ný borgarstjórn tók til starfa 11. júní 2010. Á fundi borgarstjórnar 18. júní 2013 var Elsa Hrafnhildur Yeoman kosin forseti borgarstjórnar til eins árs, Björk Vilhelmsdóttir var kosin 1. varaforseti og Karl Sigurðsson var kosinn 2. varaforseti. Kosningarnar fóru á þessa leið:

Flokkur Listi Atkvæði  % Menn
Sjálfstæðisflokkurinn D 20.006 33,6 5
Samfylkingin S 11.344 19,1 3
Vinstrihreyfingin – grænt framboð V 4.255 7,1 1
Besti flokkurinn Æ 20.666 34,7 6

skipting borgarfulltrúa í Reykjavík 2010

Eftirfarandi fulltrúar skipuðu borgarstjórn:

Listi Borgarfulltrúi
Æ Jón Gnarr Kristinsson
Einar Örn Benediktsson
Óttarr Ólafur Proppé
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Karl Sigurðsson
Eva Einarsdóttir
D Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson
S Dagur B. Eggertsson
Oddný Sturludóttir
Björk Vilhelmsdóttir
V Sóley Tómasdóttir

Sviftingar í borgarstjórn á kjörtímabilinu 2006 - 2010[breyta]

Frá 11. júní 2006 til 16. október 2007 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn meirihluta og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var borgarstjóri. Upp úr því samstarfi slitnaði haustið 2007 vegna deilna um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy. Frá 16. október 2007 til 24. janúar 2008 mynduðu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur meirihluta með Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Upp úr því samstarfi slitnaði hinn 24. janúar 2008 þegar Ólafur F. Magnússon myndaði meirihluta með sjálfstæðismönnum og settist sjálfur í stól borgarstjóra, en honum hafði fundist hlutur sinn í fyrra samstarfi heldur rýr. Ýmsir örðugleikar gerðu þó einnig vart við sig í því samstarfi og skoðanakannanir gáfu til kynna að nýi meirihlutinn missti sífellt fylgi. Síðsumars slitu sjálfstæðismenn svo samstarfinu og mynduðu nýjan meirihluta með framsóknarmanninum Óskari Bergssyni hinn 21. ágúst 2008, en þá varð Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, sá fjórði á kjörtímabilinu.


Tilvísanir[breyta]