Fara í innihald

Þóra Melsteð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þóra Melsteð (18. desember 182321. apríl 1919) var íslensk kona sem var frumkvöðull í menntamálum kvenna og stofnaði ásamt manni sínum, Páli Melsteð, Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874.

Þóra var fædd í Skælskör á Sjálandi, dóttir Gríms Jónssonar, sem þá var þar bæjarfógeti, og konu hans Birgitte Cecilie Breum, sem var dönsk. Þegar hún var ársgömul varð Grímur amtmaður norðan og vestan og flutti þá fjölskyldan til Íslands og settist að á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þar átti Þóra heima til 1833, þegar faðir hennar varð bæjarfógeti í Middelfart á Fjóni. Hann varð svo aftur amtmaður norðan og vestan 1842 en fjölskyldan varð eftir í Danmörku.

Þóra var í Kaupmannahöfn 1842-1846 og fékk þar góða menntun, bæði bóklega og í hannyrðum og fleiru. Hún kom til Íslands 1846 og var hjá föður sínum á Möðruvöllum þar til hann lést 1849. Þá fór Þóra að Bessastöðum til föðursystur sinnar, Ingibjargar, og manns hennar Þorgríms Tómassonar gullsmiðs, en þau voru foreldrar Gríms Thomsen.

Árið 1851 komu Þóra og Ágústa systir hennar upp litlum skóla í Reykjavík, þar sem stúlkum var kennt ýmislegt bæði til munns og handa og var það fyrsti stúlknaskóli á Íslandi. Hann lagðist þó af 1853, þegar Þóra fór til Danmerkur. Hún kom þó aftur tveimur árum síðar og árið 1859 giftist hún Páli Melsteð sagnfræðingi, sýslumanni og alþingismanni, sem þá var ekkjumaður, og bjuggu þau í Reykjavík.

Þóru var mjög ofarlega í huga að efla menntun kvenna og barðist fyrir stofnun kvennaskóla árum saman, safnaði fé til skólans á ýmsan hátt og gerði sér ferð til Kaupmannahafnar og Edinborgar árið 1870 til að ræða við ýmsa málsmetandi menn um þetta mál. Þegar heim kom kallaði hún ýmsar konur í Reykjavík á fund og sendu þær frá sér ávarp þar sem skorað var á landsmenn að styðja stofnun kvennaskóla. Ávarpið hlaut misjafnar undirtektir, en með samskotum og ýmiss konar fjáröflun í Danmörku (þaðan komu 90% upphæðarinnar), í Edinborg, þar sem Ágústa systir Þóru var kennslukona, og svo á Íslandi tókst að safna nægu fé til að setja á stofn skóla og var Kvennaskólinn í Reykjavík settur í fyrsta sinn 1. október 1874.

Skólinn var þó svo fátækur að Þóra stýrði honum launalaust fyrsta árið og Páll maður hennar kenndi íslensku, sögu og landafræði kauplaust í fjögur ár. Kennslan var ókeypis fyrir nemendur. Fyrstu árin var skólinn haldinn í litlu húsi sem þau hjón áttu við Austurvöll, og var þá aðeins rúm fyrir 10-11 stúlkur í skólanum. en það var síðan rifið og byggt nýtt skólahús á sama stað á kostnað þeirra hjónanna og steyptu þau sér í töluverðar skuldir vegna skólabyggingarinnar. Gengu öll laun Þóru fyrir skólastjórnina upp í afborganir og vexti af lánunum.

Þóra var mjög vel menntuð miðað við flestar kynsystur sínar, hafði meðal annars lært þýsku, ensku og frönsku og kenndi þessi tungumál í einkatímum, einkum þó ensku. Hún var skólastjóri Kvennaskólans í 28 ár og tók í raun aldrei laun fyrir störf sín því allt gekk það upp í þann kostnað sem þau hjónin höfðu af rekstri skólans. Bæði urðu þau háöldruð. Þau áttu ekki barn saman en allar eignir sem þau létu eftir sig runnu í sjóð sem ætlað var að styrkja efnilegar, fátækar stúlkur til náms í skólanum.

  • „Frú Þóra Melsteð. Óðinn, 1.-6. tölublað 1924“.
  • „Frú Þóra Melsteð. Kvennablaðið, 1. tbl. 1897“.
  • Frú Thora Melsted (19. júní, 1. tölublað (19.06.1955), Blaðsíða 27)