Þorsteinn Erlingsson
Þorsteinn Erlingsson (27. september 1858 - 28. september 1914) var íslenskt skáld.
Hann orti mikið og er ádeila á kirkju og ríkjandi hefðir í þjóðfélaginu ríkur þáttur í skáldskap hans. Að öðrum þræði var hann mikill unnandi þjóðlegra hefða og náttúru landsins og speglast hvort tveggja í ljóðum hans. Kveðskapur hans er léttur og lipur og má segja að í honum togist á raunsæi og rómantík. Ljóðasafn hans nefnist Þyrnar. Þorsteinn var mikill dýravinur og skrifaði dýrasögur. Einnig safnaði hann þjóðsögum og fékkst nokkuð við þýðingar.
Meðal þekktra ljóða eftir hann eru Í Hlíðarendakoti („Fyrr var oft í koti kátt“) og Snati og Óli („Heyrðu snöggvast, Snati minn“) sem flest skólabörn syngja.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Æska
[breyta | breyta frumkóða]Þorsteinn fæddist í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og ólst upp í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð. Foreldrar Þorsteins voru Þuríður Jónsdóttir og Erlingur Pálsson. Miklir erfiðleikar voru við fæðingu hans og var það Skúla lækni Thorarensen að þakka að Þorsteinn lifði hana af.
Eins mánaðar gamall var hann tekinn í fóstur af Helgu Erlingsdóttur, ömmu sinni í Hlíðarendakoti, og manni hennar Þorsteini Einarssyni og var Þorsteinn látinn heita í höfuðið á fósturföður sínum. Þorsteinn átti heima í Hlíðarendakoti þangað til hann var 18 ára gamall og naut þar góðrar umhyggju. Hann fór ungur að yrkja. Skapstór var hann en líka viðkvæmur og kemur blanda af þessu tvennu víða fram í ljóðum hans.
Sumarið 1876 voru tvö þjóðskáld gestkomandi í Hlíðarendakoti, þeir Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson. Þeim þótti Þorsteinn gott mannsefni. Talið er að Jón söðli hafi talað við þá, enda litlar líkur á því að ungur piltur eins og Þorsteinn færi að senda slíkum stórmennum ljóðin sín. Eftir þetta dvaldi Þorsteinn oft hjá þeim Matthíasi og Steingrími. Steingrímur kenndi honum latínu og Matthías útvegaði honum fjárstyrk. Stuðningur þeirra reyndist Þorsteini ómetanlegur.
Stúdentsnám
[breyta | breyta frumkóða]Þorsteinn fluttist til Reykjavíkur árið 1876, og hóf þar skólagöngu sína. Varð hann fyrst að vera í undirbúningsnámi í eitt ár. Matthías og Steingrímur fengu þriðja þjóðskáldið, Benedikt Gröndal, til liðs með sér til að undirbúa Þorstein undir skólann. Skapaðist mikil vinátta milli Benedikts og Þorsteins sem hélst órofin til æviloka. Þeir Steingrímur og Þorsteinn voru einnig miklir vinir, en Þorsteinn hélt ekki jafn góðum tengslum við Matthías. Ástæðan var meðal annars sú að íslenskir stúdentar á Hafnarárum Þorsteins fundu sér til deiluefnis Matthías og Steingrím. Má þá segja að Þorsteinn hafi verið með Steingrími í liði og var greinilegur skoðanamunur með þeim Matthíasi og Þorsteini. Það verður þó að segjast að Þorsteinn kunni að meta skáldskap Matthíasar og þótti honum ljóðin hans skína af mikilli fegurð. Árið 1876 birtist í fyrsta sinn á prenti kvæði eftir Þorstein. Kom það út í Þjóðólfi og var erfiljóð um sveitunga hans.
Þorsteinn var í lærða skólanum í Reykjavík í sex ár, frá 1877 til 1883. Á þessum tíma virðist hann hafa ekki kynnst nýrri bókmenntastefnu sem tók að myndast á Norðurlöndum (raunsæisstefnunni), enda var Steingrímur mikill rómantíker og benti honum frekar á rit eldri skálda, innlendra og útlendra. Þorsteinn hafði þá birt nokkur ljóð í anda Steingríms um fegurð náttúrunnar og sælu æskunnar. Í sumum ljóðum hans sjást einnig heimshryggðaráhrif frá Kristjáni Fjallaskáldi sem áttu það til að byrja með mikilli jákvæðni en enduðu svo á frekar þunglyndislegan hátt, til dæmis ljóðið Æskan sem einnig einkennist af tvísæi.
Í Kaupmannahöfn
[breyta | breyta frumkóða]Orðinn stúdent ákvað Þorsteinn að sigla til Kaupmannahafnar og læra lögfræði þar. Hann áttaði sig samt fljótt á því að lögfræðin væri honum lítt að skapi. Hann hætti því lögfræðináminu og ákvað að læra málfræði og tungumál. Innritaðist han loks í norrænu, en lauk aldrei prófi vegna veikinda og fátæktar. Á meðan hann dvaldi í Kaupmannahöfn kynntist hann mörgum íslenskum stúdentum, þeirra á meðal Hannesi Hafstein. Í Kaupmannahöfn fór Þorsteinn að þroskast sem skáld og hafði afturhaldssöm stjórn sem hélt þegnum borgarinnar í eymd, mikil áhrif á hann. Þetta ástand breytti honum í jafnaðarmann löngu áður en sú kenning barst til Íslands. Hann skrifaði bréf þar sem kom meðal annars fram hvað honum fyndist um rómantískan skáldskap. Þar kom einnig fram að honum væri farið að leiðast að yrkja um fegurð náttúrunnar og indæli. Ljóðin hans á Kaupmannahafnarárunum bera þó best vitni þess hvað sálarlíf hans breyttist mikið. Hann gerðist meðal annars auðvaldshatari, lýðvaldsdýrkari, smælingjaástvinur, kirkjuhatari og guðstrúarleysingi. Það ber þó að hafa í huga að það sem gerði hann að trúarleysingja var hin gamla, algenga guðshugmynd kirkjunnar. Guð er þar skilgreindur á þann hátt að hann eigi að vera óendanlega voldugur konungur, í öðrum orðum, almáttugur. Samkvæmt þessu ætti hinn almáttugi guð ekki að leyfa öllum þessum svívirðingum og kúgunum viðgangast. Þorsteini fannst guð því ekki vera til, og ef hann væri til þá vildi Þorsteinn ekki ganga þeim konungi á hönd sem leyfði allt þetta. Þorsteinn var þó ekki trúlaus maður. Hann trúði á fegurðina, réttlætið, kærleikann og sannleikann. Þetta sýnir að þótt Þorsteinn hafi breytt um viðhorf á veröldinni, hætti hann aldrei að taka eftir fegurð hennar.
Í Kaupmannahöfn vann Þorsteinn fyrir sér með stundakennslu en lifði samt í fátækt.
Um 1890 kvæntist hann danskri ekkju sem sennilega hefur bjargað honum frá hungurdauða, og upp úr því fór hann að birta ný ljóð á prenti.
Á Íslandi (1895-1914)
[breyta | breyta frumkóða]Hann sneri aftur til Íslands árið 1895 á vegum Valtýs Guðmundssonar til þess að kanna fornar húsarústir.
Á Íslandi kynntist hann sautján ára stúlku, Guðrúnu Jónsdóttur. Hann varð þó að fara aftur til Kaupmannahafnar en sneri loks heim fyrir fullt haustið 1896. Eiginkona hans kom til hans sumarið eftir en dvaldist aðeins í nokkra mánuði. Þá fór hún aftur til Danmerkur og áttu þau Þorsteinn aðeins bréfaskipti eftir það. Margt bendir til þess að Þorsteinn hafi ekki elskað hana; hún fékk engin ástarljóð frá honum.
Á Íslandi sneri Þorsteinn sér að blaðamennsku og varð ritsjóri Bjarka á Seyðisfirði og síðan Arnfirðings á Bíldudal. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1902 og bjó þar til æviloka.
Á þeim árum hitti hann Guðrúnu Jónsdóttur aftur og varð hún seinni kona hans. Þau eignuðust saman tvö börn. Þrátt fyrir það að þau lifðu í fátækt, þar sem tekjur af ritstörfum og stundakennslu Þorsteins voru litlar, voru þau hamingjusöm.
Þorsteinn lést svo úr lungnabólgu 28. september árið 1914, daginn eftir 56. afmæli Þorsteins.
Ljóð
[breyta | breyta frumkóða]Þótt Þorsteinn Erlingsson mætti teljast blanda af bæði rómantísku og raunsæisskáldi, vilja flestir flokka hann sem raunsæisskáld. Meginástæðan er sú að raunsæisljóðin sem hann orti þegar hann dvaldi í Kaupmannarhöfn ertu talin vera merkilegustu ljóðin hans. Þetta voru byltingarljóð sem höfðu mun meiri áhrif en rómantísku ljóðin.
Vert er að minnast á kvæði sem olli frægasta hneyksli íslenskra bókmennta í útlöndum (Raskhneykslinu) árið 1887. Þorsteinn hafði óveruleg áhrif á skáldakynslóðina sem fram kom um aldamótin, þrátt fyrir vinsældir meðal almennings. Skýringin er eflaus sú hve lítil endurnýjun fólst í formi ljóða hans. Honum tókst þó að forðast þær klunnalegu umorðanir sem einkenndu mikið af kveðskap 19. aldar.
Fyrsta ljóðabók Þorsteins, Þyrnar, kom út árið 1897. Önnur útgáfa var prentuð árið 1905. Eftir daga Þorsteins komu út tvær útgáfur í umsjón Guðrúnar konu hans og Sigurðar Nordal, sú síðasta og yfirgripsmesta árið 1943.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Þorsteinn skáld Erlingsson“; grein í Þjóðviljanum 1914
- „Þorsteinn Erlingsson“; grein í Sunnanfara 1914
- „Ræður við útför Þorsteins Erlingssonar“; grein í Ísafold 1914