Fara í innihald

Riða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Riða er arfbundinn, ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé, minkum og geitum. Hún er talin smitast með próteini, svokölluðu príoni. Einnig eru kenningar um að riða sé vírus-tengdur sjúkdómur eða vegna eitrunar í umhverfi.

Einkenni í sauðfé

[breyta | breyta frumkóða]
Riðuveik kind, með kláðariðu, setur upp kryppu, er þunnholda
Sama kind, skallablettir á mölum sjást

Riðuveikin getur hreiðrað um sig í smituðum gripum og ekki gert vart við sig fyrr en árum eftir smit. Þetta ræðst af riðu-arfgerðum sem liggja í erfðaefni dýranna.

Skemmdir verða á heilanum eftir langa meðgöngu og leiða til einkenna frá taugakerfinu, s.s. ótta, öryggisleysis og fælni, kláðatilfinningu í húð, kippum og titringi eða stjórnleysi vöðva - eins konar lömun.

Fjárglöggir menn sem þekkja hjörðina sína vel taka fyrst eftir breytingum á hegðun dýranna. Málrómurinn „breytist“, kvörtunarhljóð heyrist í jarminu. Styggar og hnarreistar kindur geta orðið sljóar, spakar kindur verða styggar og margar verða órólegar eða óttaslegnar. Þeim finnst vont að láta þrengja að sér og kippa sér jafnvel frá garðanum og standa dágóða stund úti á miðju gólfi, eins og þær séu að hvíla sig eftir sjokk. Annað af fyrstu einkennunum geta líka verið að kindurnar sperra dindilinn þegar þær eru snertar, sumar snarast á hliðina ef tekið er í horn og aðrar geta dottið við snögg hljóð eða hreyfingar.

Sumar riðukindur virðast sjá illa, labba á og bera framfæturnar hátt eins og maður með blindrastaf. Riðukind bregst óeðlilega við venjulegu fjárstússi, þær berjast um eins og brjálaðar ef þeim er haldið auk þess sem hárfínan titring er hægt að greina í vöðvunum.

Átlyst riðukinda er mikil, það er eins og þær éti og drekki meira en „venjulega“ en samt leggja þær af og veslast upp. Þetta kemur til vegna þess að veikin leggst á meltingarveginn.

Smitleiðir

[breyta | breyta frumkóða]

Riðan er óvenjulegur sjúkdómur. Smitefnið er ekki þekkt, en líklegt þykir að það sé smitandi próteini, s.k. príon. Príon hefur breyst úr venjulegu próteini í sýkt, en eðlileg prótein myndast í flestum vefjum dýra, mest er þó að finna í heilanum.

Ekki er vitað með vissu um hlutverk þessa próteins en sumir telja að það hafi mikilvægt hlutverk í miðlun taugaboða, dægursveiflum og öldrun.

Smitandi prótein getur leynst á mörgum stöðum, sérstaklega í dýrahræjum. Einnig geta munnvatn, hildir, augnvessi og blóð borið smitið með sér.

Þekkt er eitt tilfelli þar sem burðarhjálp manns bar smit milli tveggja kinda. Hann bar því smitefnið með sér í næstu kind og er talið að hún hafi smitast í gegnum fæðingarveginn.

Ekki er auðvelt að losna við smit úr jarðvegi og fjárhúsum. Hræ þarf að grafa á viðurkenndum stað og fjárhús og réttir þarf að sótthreinsa áður en nýtt fé er tekið á bæinn, en á Íslandi eru þær reglur að öllu fé af bænum þarf að farga, ef kind greinist með riðu. Allar fyrrgreindar aðgerðir koma ekki í veg fyrir að riðan spretti upp aftur á sama bæ, jafnvel áratugum seinna.

Sauðfjárriða og aðrir príonsjúkdómar

[breyta | breyta frumkóða]

Smitefni sauðfjárriðu og Creutzfeldt-Jakob (CJD) sjúkdóms er náskylt. Sett hefur verið fram tilgáta um að sauðfjárriða geti borist í menn í gegnum neyslu á heila, mænu og augum[[]] af sauðfé. Íslenskar rannsóknir benda ekki til þess að riðusmit berist í fólk, tíðni CJD er lág hérlendis þó riða hafi verið landlæg í 130 ár. [1]

Annar prionsjúkdómur sem kallast Kuru og leggst á menn kom fyrst fram í Papúa Nýju Gíneu um miðja 20. öldina. Þessi tegund af prion sjúkdómi smitaðist með því að fólk borðaði heila og aðra líkamshluta fólks sem var látið. Þetta var hluti af athöfn sem var framkvæmd til að votta hinum látna virðingu. Þessi athöfn var svo bönnuð á siðari hluta 5. áratugarins.

Fyrstu heimildir um riðu í heiminum eru frá árinu 1732 þegar riða fannst á Bretlandseyjum en hún var einnig þekkt í nokkrum löndum Evrópu. Þá þegar hafði fólk áttað sig á því að veikin væri ólæknandi, ef marka má grein sem birtist í þýsku riti árið 1759.

Engin lækning er til við veikinni en í staðinn er gripið til þess að lóga öllum dýrum á bænum og nálægum bæjum sem gætu hafa sýkst. Einnig fer fram hreinsun gripahúsa og förgun alls fóðurs, s.s. heyi, til að uppræta smitið. Einnig er þeim ráðum beitt að hafa jarðir gripalausar í einhver tíma, t.d. 2 ár, til að losna almennilega við smit.

Þó er þetta gagnlítil aðgerð, því riðan getur allt eins sprottið upp aftur á sama bæ - jafnvel þó næsti bær við hliðina hafi aldrei lent í riðu og ganga þá kindur beggja bæjanna saman á fjöllum allt sumarið og eru ekki aðskildar fyrr en um haustið.

  • Brynjólfur Sandholt (ritstj.). „Riða“. Dýralæknatal - Búfjársjúkdómar og saga. Dýralæknafélag Íslands, 2004: . .

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Læknablaðið 07/08:Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur og riða í sauðfé